Lögreglulög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:40:09 (8563)

2004-05-18 14:40:09# 130. lþ. 119.23 fundur 870. mál: #A lögreglulög# (tæknirannsóknir o.fl.) frv. 56/2004, Frsm. BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögreglulögum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti, Guðmund Guðjónsson og Bjarna J. Bogason frá embætti ríkislögreglustjóra og Hörð Jóhannesson frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Þeir þrír síðasttöldu höfðu starfað í vinnuhóp sem ríkislögreglustjóri skipaði á árinu 1999 til að móta framtíðarstefnu tæknirannsókna hjá lögreglu. Reyndar voru fleiri í þeim vinnuhópi en þessa fulltrúa vinnuhópsins fengum við á fund nefndarinnar til þess að ræða efni frv.

Í frumvarpinu er lagt til að tæknideild lögreglunnar í Reykjavík verði styrkt og að hún taki við samanburðarrannsóknum sem hingað til hafa verið gerðar við tæknideild ríkislögreglustjóra. Jafnframt varðveiti tæknideild lögreglunnar í Reykjavík fingrafarasafn og ljósmyndasafn lögreglu og haldi því við. Hlutverk tæknideildar ríkislögreglustjóra verði hins vegar að hafa eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu, annast erlend samskipti vegna tæknirannsókna og samstarf, halda skrá yfir horfið fólk og hafa umsjón með störfum kennslanefndar og útgáfu leiðbeininga og verklagsreglna um tæknirannsóknir sem ríkislögreglustjóri setur.

Við breytinguna sem ráðgerð er í frumvarpinu munu 1,5 stöðugildi færast frá ríkislögreglustjóra yfir til tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík. Tæknideildin í Reykjavík hefur hingað til þótt afar öflug og vakið athygli bæði hér á landi og erlendis fyrir starfsaðferðir sínar. Nefndin telur því ljóst að með breytingunni muni deildin eflast enn frekar og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Eins og fram kemur í fylgiskjali með frv., umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., er reiknað með því að samruni á verkefnum embættanna á þessu sviði verði til hagræðingar og geti stuðlað að því að þau útgjöld sem þar er fjallað um lækki nokkuð.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt mikið lengra um þetta mál. Það var mikill einhugur í nefndinni um málið og eins og áður greinir leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt.