Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 16:06:21 (8581)

2004-05-18 16:06:21# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég vil ekki útiloka það að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti ekki sameinast líkt og sveitarfélög vítt og breitt um landið. En þá minni ég á málflutning hv. samfylkingarmanna sem mér finnst áhugaverður og hef tekið að nokkru leyti undir varðandi íbúalýðræðið að það er mjög vandasamt mál og ber að fara varlega í því samhengi því við viljum verja og standa vörð um íbúalýðræðið. Sjálfur er ég búsettur hluta úr ári í Grafarvoginum og ég heyri það stundum á nágrönnum mínum að mönnum finnst vanta eitthvað upp á íbúalýðræðið. Ég held því að menn þurfi að huga vel að þeim þætti áður en menn fara að stækka sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu kannski í 150 eða 170 þúsund manna sveitarfélag. Menn þurfa að huga vel að því áður en þeir gera það og ég er síður en svo að lýsa yfir beinum stuðningi við það.