Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 16:13:14 (8587)

2004-05-18 16:13:14# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson flutti ágæta ræðu velviljaða sveitarstjórnarstiginu og þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu í dag um að efla það. Hann kom víða við og vil ég staldra við þrjá þætti og draga þá saman í þessu stutta andsvari í þremur spurningum til hv. þm. Í fyrsta lagi af því að hann tók Grímsey sem dæmi vil ég spyrja: Er einhver skilgreining á lágmarksstærð sveitarfélaga sem hann vill styðjast við? Í öðru lagi: Hvert þykir honum vera óskahlutfall á milli verkefna ríkis og sveitarfélaga en eins og við ræddum fyrr í dag er það 70 á móti 30 hér og öfugt í Skandinavíu sveitarfélögunum í vil? Og í þriðja lagi vegna þess að hann nefndi mikilvægi þess að auka og efla íbúalýðræði í landinu. Hefði hann t.d. viljað sjá færslu Hringbrautarinnar fara í atkvæðagreiðslu borgarbúa fyrst hann tók dæmi um viðhorf Grafarvogsbúa?