Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:45:27 (8605)

2004-05-18 17:45:27# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefnir þriðja stjórnsýslustigið. Það er ekkert launungarmál að ég var mjög eindregið fylgjandi því að þriðja stjórnsýslustigið yrði tekið upp en maður verður auðvitað að sætta sig við það í þau örfáu skipti sem maður lendir í minni hluta að meiri hlutinn ræður og þannig var það í þessu máli að það náði ekki hljómgrunni.

Ég sé hins vegar alveg fyrir mér eins og ég var að lýsa í ræðu minni að við gætum í raun og veru náð sömu markmiðum með því að stækka sveitarfélögin það mikið að undir þeim yrðu það sem ég vildi kalla hreppstjórnir. Það væri síðan á valdi sveitarstjórnanna eða hugsanlega ákvæði í sveitarstjórnarlögunum, sem væri trúlega tryggara til að tryggja jafnræði þó að veita yrði eitthvert sjálfræði og frjálsræði í því líka eða sveigjanleika, að negla niður hvaða völd væru t.d. hjá hreppstjórnunum. Ég nefndi sem dæmi að grunnskóli gæti verið ákveðin eining, og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir fólk vegna þess að það eru einmitt miklar tilfinningar bundnar því málefni og fólk upplifir það svo að það sé að missa mjög mikið ef það hefur ekki yfir sínum grunnskóla að segja, að hann væri t.d. undir sveitarstjórn sem væri þá hluti af þessari hreppstjórn. Hins vegar yrði auðvitað sveitarstjórnin sem slík að vera með fjárveitingavaldið í heild sinni en mundi síðan skipa þessari einingu ákveðið fjárhagslegt sjálfstæði. Það gætu verið rammar sem væru settir niður við fjárhagsáætlanir. Og hvað varðar dæmið sem hv. þm. tók af Árnessýslunni þá held ég að hægt sé að skoða það og teikna upp í raun og veru hvernig hægt væri að útfæra þetta þar. Þá væri það meginkjarninn sem væri stærsta sveitarfélagið og hvernig hægt væri að þjóna þaðan, það væru nokkrar hreppstjórnir innan sveitarfélagsins sem sæju um ákveðna málaflokka og tryggðu að fólk upplifði það ekki eins sterkt að það væri orðið fjarlægt stjórnsýslunni.