Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:47:40 (8606)

2004-05-18 17:47:40# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég tek mjög eindregið undir þær hugmyndir sem fram koma hjá hv. þm. að það sé mikilvægt að þriðja stjórnsýslustigið verði að veruleika samhliða sameiningu sveitarfélaganna og verulegri stækkun á þeim sem ég styð eindregið að verði á næstu árum og að sveitarfélögunum fækki verulega, þau sameinist og stækki umtalsvert. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum í leiðinni upp þriðja stjórnsýslustigið. Ég vona að sú nefnd sem er að störfum og við höfum rætt um fyrr í umræðunni um átak til eflingar á sveitarstjórnarstiginu, taki þessar hugmyndir mjög til skoðunar og sérstaklega út frá orðræðu og rökum hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar sem hann dvaldi mjög svo við í ræðu sinni og rammaði inn hve mikilvægt sé að byggja þetta upp samhliða til að menn geti mótað og formað trúverðuga tillögu til stækkunar og sameiningar sveitarfélaga og þá verði að fylgja einhverjar slíkar tillögur með í farteskinu. Það sé algert grundvallaratriði að um leið og við leggjum til kosningar um stækkun og fækkun sveitarfélaga, sjái íbúar sveitarfélaganna hilla undir þriðja stjórnsýslustigið til að tryggja aðkomu íbúanna að nærþjónustu sinni og þeim verkefnum sem standa þeim allra næst og nefndi þingmaðurinn sérstaklega skólanefndir og fleira slíkt.

Að lokum vildi ég beina til hans einni spurningu í viðbót. Hann dvaldi töluvert við það að afmörkun sveitarfélags ætti að sjálfsögðu að vera heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði og ég vildi spyrja hann í því samhengi hvort það sé mat hans að við þyrftum í rauninni alls ekki að skilgreina þar sérstakan lágmarksíbúafjölda heldur gerðist það einhvern veginn sjálfkrafa í þessu ferli. Ég vildi bara fá það skýrt fram hjá þingmanninum.