Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:49:47 (8607)

2004-05-18 17:49:47# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er eiginlega þeirrar skoðunar að það sé raunverulega úrelt tal að tala um einhvern ákveðinn lágmarksíbúafjölda. Mér finnst það hreinlega ekki passa inn í umræðuna. Ég get eins og ég sagði í ræðu minni tekið undir það að 50 íbúa markið er alveg út úr öllu korti. Við eigum að nálgast þetta út frá atvinnu- og þjónustusvæðum. Það er það sem við eigum að horfa til og síðan verður auðvitað að tengja þetta því sem kemur út úr verkefnanefndinni, hvaða verkefni viljum við flytja og hversu stór einingin þarf að vera til þess að geta tekið við þeim verkefnum. Ég held að enginn vilji hafa tvenns konar, þrenns konar eða enn fleiri tegundir af sveitarfélögum þannig að menn fari að flokka þau niður eftir því hvað væri fyrsta flokks, annars flokks, þriðja flokks o.s.frv. Við eigum að reyna að forðast það og það var m.a. þess vegna sem ég velti upp þessum útfærslum, að til framtíðar litið mundum við trúlega ekki ná þessu öðruvísi en að fara í verulega stóra sveitarfélagasameiningu og leysa síðan nálægðina við stjórnsýsluna á annan hátt með því sem ég kallaði hreppstjórnir en má auðvitað alveg eins kalla hverfastjórnir.

Fleiri þættir koma auðvitað við sögu í þessu máli. Við sjáum hvað slíkir hlutir geta breyst gífurlega með einstöku samgöngumannvirkjum. Ég tel t.d. alveg fullvíst að ekki mundi nokkur maður í dag láta sér detta í hug að Vestmanneyjar sameinuðust öðru sveitarfélagi uppi á landi við þær aðstæður sem nú eru. Ef hins vegar væru komin jarðgöng til Vestmannaeyja færu auðvitað allir að velta því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að Vestmannaeyjar sameinuðust einhverju sveitarfélagi á meginlandinu þannig að þá gætum við verið að tala um enn stærri sameiningar. Svona gætum við farið hringinn í kringum landið og séð hve samgöngur skipta miklu máli og breyta auðvitað allri þeirri mynd sem við erum að horfa til.