Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:52:07 (8608)

2004-05-18 17:52:07# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að leggja í púkkið í þeirri umræðu sem staðið hefur um hríð í dag, um breytingar á sveitarstjórnarlögum, sem varða einkum og sér í lagi tvennt. Það eru annars vegar breytingar sem gera á til að skýra þau ákvæði sem gilda um mannabreytingar í sveitarstjórnum og nefndum á vegum sveitarstjórna. Ég sé ekki ástæðu til að staldra mikið við það mál eða bæta við þá umræðu sem þar hefur orðið. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að reyna að hafa sem skýrastar og eðlilegastar leikreglur fyrirliggjandi í þeim efnum, enda eru dæmi um ýmsa árekstra og hnökra þegar óvissa hefur skapast um hvernig með skuli fara þegar sveitarstjórnarmenn eða nefndarfulltrúar sem bornir eru fram af mismunandi flokkum kannski í mismunandi formi framboða eiga í hlut.

Hitt atriðið sem hér er sérstaklega undir varðar átak sem núverandi hæstv. ríkisstjórn eða núverandi hæstv. félmrh. hefur boðað að til standi að gera í sameiningu sveitarfélaga. Reyndar er það athyglisvert, frú forseti, að hæstv. félmrh. hefur auðvitað ekki sést við umræðuna í dag frekar en aðrir ráðherrar venjulega þegar frumvörp þeirra eru á dagskrá og það má segja um hæstv. félmrh., ungan manninn, að þeir eru fljótir að læra þessir nýju hæstv. ráðherrar, fljótir að læra að það sé ekki ástæða til að ómaka sig mikið við umræður um mál á þeirra sviði. (PHB: Það er á forræði Alþingis.) Og kemur nú hv. frammíkallandi, Pétur Blöndal, með sína sömu ræðu um það að málið sé á forræði Alþingis og það er alveg rétt. En frv. er flutt af hæstv. félmrh. Hæstv. félmrh. ríður um héruð og boðar þetta fagnaðarerindi, að sameina sveitarfélögin. Hæstv. félmrh. skipar þær nefndir sem eiga að annast um framkvæmdina. Öll framkvæmd málsins er á hendi hæstv. félmrh. Hvað sem frv. líður sem slíku þá skiptir framkvæmdin líka miklu máli og við kynnum að hafa áhuga á því að leggja einhverjar spurningar fyrir hæstv. félmrh. um málið. Ég tek fram, frú forseti, að gefnu tilefni, að ég ætla ekki að gera kröfu um að hæstv. félmrh. mæti hér en ég vek athygli á þessu og kem því inn í þingtíðindin að hér er þetta stóra og mikla forgangsmál hæstv. félmrh. til umræðu á Alþingi í marga klukkutíma, nokkra klukkutíma nú við 2. umr., og hæstv. félmrh. hefur ekki séð ástæðu til að láta sjá sig. Ég tel það ámælisverða framgöngu af hans hálfu og kem gagnrýni minni hér með á framfæri og læt því lokið.

Reyndar er það annað mál sem ég hefði líka haft áhuga á að eiga orðastað við hæstv. félmrh. um. Það er verkstjórn hans eða verklag varðandi undirbúning að þessu átaki. Það er sú ákaflega ámælisverða framkvæmd sem hæstv. félmrh. greip til, að meina fulltrúum tveggja af fimm þingflokkum á Alþingi að taka þátt í því undirbúningsstarfi, nefndarstarfi sem þarna var sett á laggirnar, fullkomlega að ástæðulausu. Það voru engin vandkvæði á því, svo séð verði eða tekin verði gild, að hafa nefndina það fjölskipaða að hún gæti rúmað fulltrúa allra þingflokka og þar með væri tryggt að sjónarmið allra þingflokka og þeirra sem að baki þeim standa í stjórnmálaflokkum sem fengið hafa menn kjörna á Alþingi væru til staðar í því undirbúningsstarfi og tengsl í gegnum þá við fulltrúa þeirra í sveitarstjórnum sem og annars staðar í pólitísku starfi.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom rækilega inn á það mál í ræðu sinni fyrr við umræðuna og ég þarf auðvitað ekki að endurtaka það en ég ítreka mótmæli okkar við þessum vinnubrögðum. Þetta er óskynsamlegt hjá hæstv. félmrh. svo vægt sé til orða tekið. Þetta er leiðinlegur plagsiður sem fer vaxandi að skeyta ekki um það að reyna að undirbúa mál af þessu tagi sem kostur er þannig að það sé eins víðtæk þverpólitísk samstaða um hlutina og kostur er. Það sé tryggt strax á undirbúningsstigi að öll helstu sjónarmið sem uppi eru eigi aðild að málinu og komi fram, að sjálfsögðu með því að kalla til málsaðila, hagsmunaaðila eins og sveitarfélögin í þessu tilviki en líka stjórnmálaflokkana og ég satt best að segja, herra forseti, hef ekki áttað mig á því hvað menn telja sig vera að vinna með því að víkja í æ ríkari mæli til hliðar vinnubrögðum sem voru alsiða og var hefð hér í þinginu að við undirbúning ýmissa mikilvægra mála af þessu tagi var yfirleitt leitað eftir því og keppt að því að fá fulltrúa allra með í vinnuna og menn trúðu því, miðað við þau viðhorf sem voru uppi fyrir 10--20 árum eða hvað það var, að það væri eftirsóknarvert og mikilvægt að standa þannig að málum. Ég nefni t.d. hvernig meiri háttar framkvæmdaáætlanir eins og vegáætlun, langtímaáætlanir á því sviði o.s.frv., voru yfirleitt undirbúnar á því árabili sem ég vitnaði til. Það var ófrávíkjanleg regla að leita eftir fulltrúum frá öllum þingflokkum til að leggja grunn að slíkri vinnu og hafa þá með í undirbúningsstarfinu og menn trúðu því að það væri líklegra til að skapa samstöðu um málaflokkinn. Þær tillögur sem litu dagsins ljós ættu sér stuðning og þær ættu sér málsvara í öllum flokkum. Menn fylgdust með vinnunni, menn væru upplýstir á hverjum tíma í gegnum fulltrúa sína og það væri minni hætta á pólitískum skotgrafahernaði og annarri slíkri óáran sem gæti skotið upp kollinum ef öðruvísi væri að málum staðið. Ég held að menn hafi mengast svo, frú forseti, af þeirri tilhugsun sinni eða trú að þeir væru komnir til valda í eitt skipti fyrir öll og þeirra biði aldrei framar það hlutskipti að þurfa að taka tillit til annarra sjónarmiða en sinna eigin. Það er auðvitað ekki góður hugsunarháttur. Fyrir það fyrsta mun stjórnmálasagan, vonandi og örugglega hér eftir sem hingað til, sanna að þetta er rangt. Það koma breytingar í pólitík og þeir sem fara með völdin og telja sig kannski fasta í sessi geta vaknað upp einn góðan veðurdag allt í einu í minni hluta og kunna þá að naga sig í handarbökin og sjá eftir því að hafa meðhöndlað vald sitt með þeim hætti að gera ekkert með sjónarmið þeirra sem á öðrum tíma voru í minni hluta og ekki við völd.

Það er kannski ekki aðalatriði málsins heldur hitt að mér finnst þetta beinlínis ólýðræðisleg og óskynsamleg hugsun. Þetta er einhvers konar valdhroka- eða stærðarhrokahugsun sem því miður ber víða á og örlar víða á, meira að segja víðar en í stjórnarherbúðum, að menn verða svo uppteknir af stærðarhlutföllum eða einhverju slíku að þeir missa alveg sjónar á því eðli lýðræðislegra skoðanaskipta og skoðanafrelsis sem byggir á því að mönnum sé tryggt jafnræði til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og tala fyrir sínum málstað og þá er auðvitað mikilvægasta grundvallarreglan að allir standi í þeim efnum jafnfætis, að öll vel rökstudd og ígrunduð sjónarmið eigi jafnan rétt á því að fá að koma fram. Á því nærist lýðræðið, á því byggir lýðræðið. Og þegar við fjöllum um grundvallarleikreglur af þessu tagi eins og sveitarstjórnarstigið er, það mikilvæga sjálfstæða stjórnsýslustig sem sveitarstjórnarstigið er, sem má auðvitað segja að sé mikilvægara á Íslandi en víðast hvar annars staðar þar sem hér eru einungis tvö stjórnsýslustig í staðinn fyrir þrjú eða jafnvel fjögur eða fleiri sums staðar annars staðar, þess þá heldur ber að reyna að vanda slík vinnubrögð og laða fram sem mesta samstöðu um þau.

[18:00]

Það sem ég tel sérstaklega ábótavant og áfátt í undirbúningi málsins hvað varðar áformin um sameiningu sveitarfélaga í sérstökum tengslum við verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga, sem er yfirlýstur tilgangur þessarar sameiningar að verulegu leyti, þ.e. að fækka þurfi sveitarfélögum og stækka þau sem þar með verða til og þá eru menn auðvitað sérstaklega að tala um landsbyggðina til þess að geta flutt fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga, það sem er auðvitað að við þá aðferðafræði og þá hugsun í ljósi aðstæðna eins og þær eru nú um stundir er að sveitarfélögin eru ekki í neinu ástandi til þess að taka við meiri verkefnum. Ég botna satt best að segja ekkert í því hvernig í ósköpunum mönnum dettur í hug að fara í hlutina í þessari röð, að ætla fyrst að ákveða sameiningu sveitarfélaga í þessum tilgangi, færa þeim síðan verkefni og reyna svo að sjá til með tekjurnar til þess ekki bara að standa undir nýju verkefnunum, heldur koma sveitarfélögunum á réttan kjöl vegna þeirra verkefna sem þau eru með í höndunum nú þegar í dag.

Það er athyglisvert og það er virðingarvert að hér situr formaður félmn., hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Hann er borgarfulltrúi í Reykjavík og fer þar oft mikinn og talar um skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. (Gripið fram í.) Ég veit að nú gleð ég hv. þm. alveg óendanlega með því að nefna þetta hér. Hvernig stendur þá á því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, trúnaðarmaður meiri hlutans í sveitarstjórnarmálum eða félmn., skuli ekki beita sér fyrir því að tekið sé til í fjármálum sveitarfélaganna fyrst og þetta látið bíða á meðan? Því hvað svo sem sjálfstæðismenn þenja sig í Reykjavík um slæma fjármálastjórn þar þá þýðir auðvitað ekkert fyrir þá að neita því að hér er við almennan vanda að glíma sem er mjög víða til staðar og má heita almenn regla í fjármálum og rekstri sveitarfélaganna. Það er þannig. (Gripið fram í: Nei.) Það er þannig og þó finna megi dæmi um nokkur vel stödd sveitarfélög, sérstaklega þau sem búa við mjög hagstæðar aðstæður í nágrenni höfuðborgarinnar, njóta góðs af ýmissi opinberri þjónustu sem þar er, njóta góðs af sambúðinni við hið stóra sveitarfélag Reykjavík og komast upp með og stæra sig jafnvel af því að þurfa ekki að leggja á útsvör. Ég er að tala um ýmsa nágrannabæi við Reykjavík þar sem er bláleitur litur á sumum hverjum og menn hafa hrósað sér mikið af því að þurfa jafnvel ekki að leggja á eins mikil útsvör og aðrir. Á því eru auðvitað ýmsar skýringar og ekki bara sú ein að þar séu menn svona miklu betri við að stjórna fjármálum en annars staðar. Það er auðvitað ekki svo, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það er barnalegur málflutningur að halda slíku fram.

Ef við færum yfir það hvernig afkoma sveitarfélaga vítt og breitt í landinu er og hefur þróast í gegnum tíðina með tengingu við einhverja meiri hluta og minni hluta þar, þá spái ég hv. þingmanni því að það sé algerlega ómögulegt að finna neina fylgni milli þess hverjir hafa setið þar í meiri hlutum og minni hlutum á hverjum tíma. Ég þekki a.m.k. allt of mörg dapurleg dæmi, því miður, um fjárhag sveitarfélaga sem sjálfstæðismenn voru búnir að stjórna einir eða með öðrum um árabil eða jafnvel áratuga skeið þar sem fjárhagurinn er í rjúkandi rúst. En það hefur aldrei hvarflað að mér að reyna að reiða það fram sem skýringu að það væru einhver náttúrulögmál í því að það hvernig mönnum tækist til við að stjórna fjármálum sveitarfélaga sinna færi eitthvað eftir flokkspólitískum skoðunum. Það er bara eins og hvert annað kjaftæði og er auðvitað ekki svo og sagan mun auðvitað sýna okkur það og allur samanburður mun sýna okkur það. Auk þess er það auðvitað svo og við verðum að hafa það í huga að sveitarfélögunum eru afar takmarkaðir möguleikar búnir til þess að ráða sér sjálf. Tekjustofnar þeirra eru ákveðnir á Alþingi. Aðstæður þeirra markast af ýmsu sem er alveg utan þeirra áhrifasviðs. Sumt kemur frá löggjafanum, sumt kemur í formi tilskipana frá Evrópusambandinu og enn annað ræðst af ýmsum aðstæðum í atvinnulífi og byggðamálum sem sveitarstjórnarmenn ráða lítið við. Hverju ráða sveitarstjórnarmenn í litlum sjávarbyggðum um sviptingarnar sem frjálst framsal veiðiheimilda í kvótakerfinu býður upp á? Auðvitað engu. Sveitarfélögin hafa þar í mörgum tilvikum engan aðgang að málinu og ekkert bolmagn til þess að ráða niðurstöðu mála þar þegar stóru risarnir í sjávarútvegsmálunum svipta hlutunum á milli sín. Allar þessar aðstæður marka því auðvitað mjög möguleika á stöðu sveitarfélaganna.

Niðurstaðan er sú, frú forseti, að afkoma sveitarfélaganna hefur verið algerlega óviðunandi um langt árabil. Þau hafa safnað skuldum sem slík í heild, ef menn taka bara meðalafkomu þeirra, svo nemur tölum af stærðargráðunni 2--4 milljörðum um árabil. Afkoma fjölmargra sveitarfélaga í landinu er slík að það er ekkert eftir þegar búið er að greiða rekstur málaflokka og borga afborganir af skuldum þannig að allar framkvæmdir, allar fjárfestingar verður að taka að láni. Þetta er mjög algengur veruleiki sveitarstjórnarmanna vítt og breitt í sveitarfélögum landsins. Þó að kannski hafi heldur rofað til á þessu ári og hinu síðasta hvað fjármálin snertir veit ég ekki betur en að skuldasöfnunin hafi haldið áfram þótt að vísu hafi dregið úr henni. Það eru þá nýjar fréttir ef afkoman að meðaltali er orðin jákvæð, hún var það ekki síðast þegar ég skoðaði tölur um það efni.

Það er auðvitað svo að sveitarfélögin, í þeirri stöðu sem þau eru, draga yfirleitt styttra stráið í samskiptunum við ríkið. Við erum með langa lista frá sveitarstjórnarmönnum, frá samtökum sveitarstjórnarmanna, yfir klögumál á ríkið vegna samskipta við það undanfarin ár þar sem sveitarfélögin verða af tekjum eða fá á sig aukin verkefni vegna einhliða ákvarðana ríkisvaldsins. Hvað má þar nefna til? Jú, það má t.d. nefna að skattkerfisbreytingar, sem hafa gert það mjög fýsilegt og hvetjandi fyrir einkaaðila að stofna um sjálfa sig og sinn rekstur einkahlutafélög, hafa fjölgað slíkum fyrirbærum gríðarlega og valdið því að sveitarfélögin hafa orðið af gríðarlegum útsvarstekjum. Þau hafa enga leiðréttingu fengið á því. Sannarlega er hér um háar fjárhæðir að ræða. Það má t.d. benda á að sveitarfélögin hafa mátt sæta því í samskiptum við ríkið á fjölmörgum sviðum þar sem þessir aðilar eiga að deila með sér kostnaði, eins og í greiðslu húsaleigubóta, eins og við eyðingu refa og minka og annað í þeim dúr, að ríkið segir við sveitarfélögin: Jú, við ætlum að vísu að greiða 60% eða 50% af kostnaðinum en það eru ekki meiri peningar en svo á fjárlögum að það dugar bara fyrir 30%. Sveitarfélögin mega þá sitja uppi með skellinn og taka viðbótina á sig. Þegar kemur að framkvæmdum í framhaldsskólum notar ríkið norm sem eru svo óraunhæf (Gripið fram í.) að þó að lögin geri ráð fyrir 60% kostnaðarþátttöku ríkisins í verkefninu, ef ég man rétt, duga normin ekki nema fyrir eins og 40% af kostnaðinum. Þá segir ríkið: Því miður, það verður bara að vera ykkar hausverkur. Þannig má nefna dæmin hvert á fætur öðru.

Allt þýðir þetta að sveitarfélögin búa við enn þrengri fjárhag en ella. Fyrir nú utan að ég held að það sé alveg morgunljóst að afkoma sveitarfélaganna er slík að það verður einfaldlega að bæta stöðu þeirra til að sinna sínum lögbundnu verkefnum eins og þau eru. Þau eru að missa allt of hátt hlutfall af tekjum sínum beint í rekstur málaflokka lögbundinna verkefna sem þau eru skyldug til að sinna og eiga að uppfylla ákveðnar kröfur þannig að sveitarstjórnarmenn hafa í sjálfu sér ekkert val þar. Þeir eiga samkvæmt lögum að tryggja tiltekna hluti. Hlutfall sem var algengt fyrir u.þ.b. 10--15 árum, og hér inni eru vanir sveitarstjórnarmenn sem ég geri ráð fyrir að geti staðfest það að þá var alls ekki óalgengt að sjá tölur á bilinu 70--75% af tekjum í rekstur málaflokka, afganginn höfðu menn í afborganir af lánum og fjárfestingar og framkvæmdir, það hlutfall er núna iðulega á milli 80 og 90%. Ég man ekki hvert meðaltalið er núna nákvæmlega en ekki fyrir löngu var það talið vera 83--84%, (Gripið fram í: Yfir 90.) Komið yfir 90% nú, segir gamalreyndur bæjarstjóri hér í hliðardyrum. Ef menn eru komnir með 90% af tekjunum beint í reksturinn verður ekki mikið gert þegar afgangurinn, 10%, á að dekka allt hitt.

Það sem ég vil leggja áherslu á hér, frú forseti, og mér finnst vera algjörlega öfugt í málinu og illa að unnið, er að fara ekki í þann málaflokk fyrst. Auðvitað áttu félmrh. og fjmrh. að byrja á því að klára viðræður við sveitarfélögin um núverandi tekjuleg samskipti og koma þeim hlutum á hreint. Þá var hægt að leggja af stað í næsta leiðangur sem var þá áform um yfirfærslu frekari verkefna til sveitarfélaganna og tekjur í viðbót til að standa undir því. Svo kemur á daginn að nefndarstarfið er ekki betur skipulagt en það --- svo voru menn að hælast hér um og hrósa þessu öllu saman fyrr í umræðunni, eins og hv. 9. þm. Norðaust., Birkir Jón Jónsson, sem var alveg að rifna úr monti yfir því hvað þetta væri allt saman gott hjá sér og hæstv. félmrh., flokksbræðrunum, talaði þar í öðru orðinu sem fyrrv. aðstoðarmaður félmrh. og í hinu sem þingmaður og það var ekki lítil ánægjan með þetta allt saman --- það var ekki betur að því staðið en svo, frú forseti, að það er bullandi ágreiningur milli málsaðilanna um hvert sé verksvið tekjustofnanefndarinnar sem er í gangi. Sveitarstjórnarmennirnir trúðu því og hafa vísað í pappíra um það að verkefni nefndarinnar væri alveg sérstaklega það að athuga núverandi tekjustofna sveitarfélaga og kanna hvort þeir séu í samræmi við lögskyld og venjubundin verkefni sveitarfélaganna, þ.e. þeir hafa lagt áherslu á að fyrsta verkefni þessa starfshóps eigi að vera að kanna núverandi verkefnastöðu sveitarfélaganna og tekjustofnanna sem eiga að standa undir þeim. Nei, félmrh. hefur sent út pappíra, erindisbréf, og kynnt verkefnið á fundum með glærum, sem ég er hér með ljósrit af, þar sem ekkert er á þetta minnst, þar sem reynt er að þrengja verksvið starfshópsins niður í það að hann eigi eingöngu að tala um framtíðina, hann eigi eingöngu að tala um tekjustofna vegna fyrirhugaðs verkefnaflutnings yfir til sveitarfélaganna og ekki koma nálægt núverandi vanda, núverandi fjárhagsþrengingum sveitarfélaganna.

Hvað á þetta að þýða, frú forseti? Þarna er augljóslega verið að byrja á algerlega öfugum enda málsins. Ef kviknar í húsi hlaupa menn ekki inn í hús neðar í götunni og fara að kanna hvernig ástandið á reykskynjurunum er þar. Menn byrja á því að reyna að slökkva eldinn þar sem hann er uppi hverju sinni. Mönnum finnst þetta kannski óviðeigandi líking en hún skilst vonandi. Það má alveg segja að það sé slíkt ástand uppi hjá mörgum sveitarfélögum í landinu sem eru í hengjandi vandræðum og hafa mátt sæta því að búa við slíkar þrengingar undanfarin ár að þau hafa verið neydd til að selja eignir sínar til að fleyta sér milli ára. Það er staðreyndin.

[18:15]

Sveitarfélög á Vestfjörðum voru meira og minna að komast í þrot og hetjurnar þaðan, þ.e. þingmennirnir úr stjórnarliðinu, voru ekki hugumstærri en svo að þeir létu hafa sig í það að koma með frumvörp til þess að sveitarfélögunum á Vestfjörðum væri bjargað með því að selja frá sér kannski einhverja verðmætustu og álitlegustu framtíðareign sína sem var sjálfstætt orkufyrirtæki í fjórðungnum. Þar með fóru þaðan allir þeir möguleikar sem í því gátu verið fólgnir að eiga slíkt öflugt fyrirtæki með góða afkomu sem hefði getað veitt fjármuni í skyld verkefni og verið bakhjarl ýmiss konar atvinnuuppbyggingar á komandi árum og áratugum í þeim landshluta eins og sterku orkufyrirtækin eru annars staðar. Dæmi: Hitaveita Suðurnesja sem hefur staðið á bak við margs konar stórátök í atvinnuuppbyggingu þar, Bláa lónið og hvað það nú er. Þó að menn hafi misjafnar skoðanir á því hversu álitleg sum verkefnin eru sem Orkuveita Reykjavíkur er að ráðast í er þó verið að reyna eitthvað þar. Það er þó verið að leggja fjármuni í áhættuverkefni, nýsköpunarverkefni, þróunarverkefni í atvinnulífi sem liggja ekki á lausu annars staðar eins og þeim hlutum er fyrir komið hjá hæstv. ríkisstjórn. Í iðnn. höfum við verið með það í höndunum að það er alger þurrð á nýju nýsköpunarfjármagni, áhættufjármagni til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Nýsköpunarsjóður er tómur, hann er fullfjárfestur, getur í mesta lagi reynt að verja núverandi eignir sínar í félögum, hefur enga nýja peninga. Og sama sagan er meira og minna yfir línuna þannig að þar eru smámunir á ferð. Auðvitað munar sveitarfélögin um það ef þau eiga öfluga mótora í baklandi sínu sem geta stutt við bakið á einhverju nýju. Frá Vestfjörðum fór einhver álitlegasti kostur þeirra í þeim efnum þegar orkubúið var tekið þaðan.

Mörg önnur sveitarfélög í landinu hafa neyðst til þess að selja kannski einhverjar ábatasömustu og mikilvægustu eignir sínar á umliðnum árum og áratugum, gjarnan veitufyrirtæki eða veiðiheimildirnar í sjávarútveginum til að halda sér á floti. Þannig er það. Sveitarfélögin hafa rúið sig inn að skyrtunni, sérstaklega minni og meðalstór sveitarfélög á landsbyggðinni, til að halda sér á floti, selt veiðiheimildirnar til að byggja íþróttahús eða byggja við skólann til að þau gætu sinnt lögbundnum þjónustuskyldum við íbúa sína. Við þekkjum öll dæmin um þetta, hv. þingmenn, og svo láta menn eins og það sé allt í himnalagi, hægt sé að fara í næsta leiðangur, færa meiri og kostnaðarsöm verkefni til sveitarfélaganna án þess að klára fyrst það sem út af stendur í tekjulegum samskiptum þessara aðila. (Gripið fram í.) Ég skil ekkert í því, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að menn skuli láta bjóða sér þetta, hvorki þingmenn sem ættu að hafa einhverjar tilfinningar fyrir málefnum sveitarfélaganna í umdæmum sínum né heldur forustumenn sveitarfélaganna. (Gripið fram í.)

Ég er aldeilis undrandi á því, herra forseti, hversu viljugir forustumenn sveitarfélaganna, Sambands sveitarfélaga, eru í enn einn leiðangurinn í ljósi reynslunnar af þeim sem á undan eru gegnir. Eru þeir ekkert hræddir við að reynslan endurtaki sig einu sinni enn, þeir kaupi köttinn í sekknum? Menn deila um það hvort grunnskólanum hafi fylgt nægilegt fé eða ekki. Mér finnst það í raun og veru blasa við hverjum manni í ljósi afkomunnar hjá sveitarfélögunum eins og hún hefur þróast á þeim tíma frá 10. áratugnum þegar þau tóku endanlega við grunnskólanum. Þau hafa safnað skuldum og safnað skuldum og það er algert jafnvægisleysi ríkjandi í tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga þegar við horfum til þess, sem út af fyrir sig er gott, að ríkissjóður hefur á þeim tíma greitt niður skuldir, að vísu aðallega með því að selja eignir og það verður ekki gert nema einu sinni í hverju tilviki.

Hafandi sagt þetta, frú forseti, vil ég segja til þess að það misskiljist ekki og hér er verið að gauka að mér gagnlegum upplýsingum um frekari eignir sem sveitarfélög hér og þar í landinu eru núna að velta fyrir sér að þau neyðist til að selja, ráði ekki við að hafa, ekki vegna þess að menn vilji ekki gjarnan eiga sínar veitustofnanir sem eru afar mikilvæg þjónustufyrirtæki við íbúana, heldur einfaldlega vegna þess að menn eiga fátt eftir til að láta. Fjölskyldusilfrið er allt saman að verða búið í sveitarfélögum landsins og auðvitað veit íhaldið hvað það er að gera. Það er að neyða sveitarfélögin, þröngva sveitarfélögunum til að selja eignirnar þannig að þær fari á einkamarkað og reka sveitarfélögin út í að ráðast í nýjar framkvæmdir á grundvelli einkafjármögnunar. Og Framsfl. kyngir því auðvitað eins og venjulega, mokar flórinn, veður flórinn alveg upp að hnjám fyrir íhaldið og er í raun og veru að hjálpa til við þá einkavæðingu sem menn eru að koma bakdyramegin inn í gegnum það að halda sveitarfélögunum í fjárhagslegri spennitreyju þannig að þau geti ekkert gert, ekkert hreyft sig, ekkert fjárfest nema fara einkafjármögnunarleiðina sem verður svo dýrari þegar upp er staðið. Það viðurkenna allir. Þegar reikningurinn er greiddur eftir 25 ár eða hvað það nú er í hverju tilviki þegar byggður er leikskóli eða hús eða eitthvað annað í einkaframkvæmd, þá er auðvitað búið að borga allan reksturinn plús arðinn til eigandans og jafnvel á hann svo húsnæðið eftir og hefur kverkatök á sveitarfélaginu í framhaldinu sem verður auðvitað að semja við hann um áframhaldandi leigu eða þjónustu. Rafveita Sauðárkróks, Hitaveita Blönduóss, Hitaveita Dalamanna og Hitaveita Ólafsfjarðar eru nokkur dæmi sem kannski eru næst á listanum yfir fyrirtæki sem sveitarfélög neyðast til að láta frá sér (Gripið fram í.) eða búið er að selja í sumum tilvikum.

Ég vil, frú forseti, ekki að það misskiljist vegna þessa pistils sem ég hef flutt um fjárhag sveitarfélaganna að ég er að sjálfsögðu talsmaður þess og stuðningsmaður og það erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að sveitarstjórnarstigið sé eflt, að það sé öflugt. Það er ákaflega mikilvæg nærþjónusta sem þar fer fram við íbúana og ég hef alltaf viljað nálgast það pólitískt. Ég vil að það sé pólitískt inntak á bak við það ef menn eru í aðgerðum af því tagi eins og að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Ef stækkun sveitarfélaganna er í yfirlýstum, jákvæðum pólitískum tilgangi, sem sagt þeim að efla velferðarþjónustuna í sveitarfélögunum, þá er ég jákvæður gagnvart slíku en ekki ef það er meðhöndlað eins og tæknilegt verkefni og fyrst og fremst aðferð til að skera niður, slátra grunnskólunum, litlu einingunum úti á landi, þrengja að mönnum. Þá er þessi leiðangur ekki til góðs. Það sem ég hef alltaf talið að vantað hafi inn í umræðuna hér öfugt við t.d. Svíþjóð þegar menn fóru í hin miklu átök í Svíþjóð að stækka sveitarfélögin á 7. og 8. áratugnum, ef ég man rétt, þá var það í yfirlýstum pólitískum tilgangi. Það var liður í uppbyggingu velferðarkerfisins í Svíþjóð. Verið var að efla þjónustuna við íbúana í gegnum sterkari sveitarfélög og lagðir voru fjármunir í það. En það er ekki það, því miður, sem mönnum gengur aðallega til hér eða eingöngu. Á bak við er sú hugsun að nota sameininguna sem aðferð til þess að skera niður, færa ákvarðanatökuna fjær íbúunum í stærri einingum og láta menn glíma við það í stærri sveitarfélögum að slátra einingum og leggja niður hluti sem menn vörðu alveg fram í rauðan dauðann í sínu litla sveitarfélagi, einingar eins og grunnskóla byggðarlagsins o.s.frv. Menn nálgast þetta ískalt og kaldrifjað sem tæknilegt verkefni, sem aðferð til að ná pólitískum markmiðum fram sem eru a.m.k. félagslega og byggðarlega ekki mjög kræsileg.

Lausnarorðið er sameining sveitarfélaga sem ég hef farið jákvæðum orðum um vegna þess að þegar rétt er að þeim hlutum staðið getur það verið mjög gagnleg og góð aðgerð, enda sé forritið rétt, pólitíkin á bak við sé rétt, það sé myndarlega að því staðið og landfræðilegar og lýðfræðilegar aðstæður mæli með því að það sé gert. Ég held að það hættulegasta í sambandi við það að trúa á sameiningu sveitarfélaga sem eitthvert einfalt lausnarorð, bara sem slíkt, að það leysi vandann að sameina sveitarfélög, sé að menn horfi fram hjá þeim landfræðilegu og lýðfræðilegu aðstæðum sem breytast ekki neitt í strjálum byggðum landsins með því að sameina víðlend og fámenn sveitarfélög. Einhver nefndi fyrr í umræðunni Grímsey. Það er ágætt dæmi. Hverju breytir það fyrir hið dagsdaglega líf í Grímsey í sjálfu sér þó að Grímsey sé sameinuð einhverju fjarlægu sveitarfélagi? Er hún ekki og verður hún ekki áfram sama samskiptaeiningin sem þarf í raun og veru að geta séð um sig og tekið sínar ákvarðanir sjálf ef eitthvert vit á að vera í hlutunum? Jú, það held ég. Ég sé því ekki að það vinnist mikið við að færa forræðið yfir þeim málum sem eru þó þar til að taka ákvarðanir um og þá litlu þjónustu sem þar er þó veitt af samfélaginu, ríki og sveitarfélagi, og færa þær ákvarðanir eitthvað annað. Eða tökum t.d. strjálbyggð svæði eins og suðurhluta Vestfjarða eða norðausturhorn landsins. Breytast aðstæðurnar sem menn eru að glíma við þar eitthvað við það þó að 4--5 fámennir hreppar séu sameinaðir í einn og í staðinn fyrir kannski dagsdagleg samskiptasvæði búi menn til stór landsvæði með mörg hundruð kílómetra vegalengdum sem eru á engan hátt samskiptaleg eining?

Þá komum við líka að því sem reyndar hefur einnig verið nefnt fyrr við umræðuna og það eru samgöngur og aftur samgöngur. Auðvitað á að hafa þessa hluti í takti við þær samgöngur sem menn hafa til að eiga samskipti. Í Norður-Þingeyjarsýslu segja menn ósköp einfaldlega þegar þessa hluti ber á góma: Komið með samgöngurnar fyrst. Komið með samgöngur sem gera þetta svæði þannig að það geti unnið saman, verði ein samskiptaleg heild, og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að skoða sameiningu eins og öðrum svæðum í landinu eftir því sem það mundi henta og við teldum okkur hagstætt. En að trúa á sameiningu sem slíka, sem eitthvert lausnarorð ef ekkert er gert að öðru leyti til að auðvelda mönnum að glíma við slíkar aðstæður, auðvelda mönnum að veita nauðsynlega þjónustu við þær aðstæður og þar býr fátt fólk á stóru svæði, það er ekkert lausnarorð. Má þá ekki alveg eins hugsa sér að nálgast hlutina með öðrum hætti og segja: við komum til móts við einingarnar sem eru að glíma við þessar erfiðu aðstæður með pósitífum hætti, horfumst í augu við þær, eins og að halda að þetta leysist bara allt saman með því að slengja hlutunum saman? Ég hef mjög miklar efasemdir um það. Það getur jafnvel orðið til þess að menn haldi, einblínandi á meðaltölin, að með því einu sé málið leyst og þá er jafnvel verr af stað farið en heima setið.

Frú forseti. Það er því að mjög mörgu að hyggja í þessum efnum. Staðreyndin er auðvitað sú að umræðan er öll dálítið sérkennileg í ljósi þess að 80--90% íbúa landsins búa nú þegar í því sem menn kalla stór sveitarfélög og málið snýst um mjög lítinn hluta íbúa landsins sem býr í hinum fámennari og fyrst og fremst strjálbýlu sveitarfélögum, kannski í raun og veru fyrst og fremst um 3--5% íbúa landsins. Og eru þá ekki ýmsar aðrar leiðir sem kæmu til greina til að takast á við þá hluti ef vilji er fyrir hendi að styðja við íbúana sem þar búa og tryggja að þeir njóti sambærilegrar undirstöðuþjónustu í landinu og aðrir? Jú, auðvitað eru margar aðrar leiðir færar í þeim efnum. Ég hef oft spurt hvers vegna ekki séu einhverjir sérstakir liðir í fjárlögum eða gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga umfram þá sem þar eru núna, og er ég þá ekkert að gera lítið úr jöfnunarhlutverki hans, sem koma með beinum pósitífum hætti til stuðnings þeim sveitarfélögum sem halda uppi lögbundinni þjónustu við þær aðstæður að þar býr fátt fólk á víðlendum landsvæðum sem eru auðvitað algerlega ósambærilegar á allan hátt við þau lögmál sem ríkja í stórum þéttbýlissveitarfélögum. Það væri kannski á sinn hátt miklu einfaldari aðferð en sú sem menn eru alltaf að berjast við hér, að meðhöndla sveitarfélögin öll eins og þau væru einsleit, láta að öllu leyti gilda sömu reglur um Reykjavík og Raufarhöfn, og berjast svo um á hæl og hnakka með bólginn jöfnunarsjóð og alls konar æfingar af þessu tagi í staðinn fyrir að ríkið eins og auðvitað gerðist í gegnum þá málaflokka og gerir enn í gegnum þá málaflokka sem ríkið er með að verulegu leyti, sjóðurinn okkar allra, taki á sig þá jöfnun sem í því er fólgin að tryggja þjónustuna við ólíkar aðstæður þar sem hún verður augljóslega dýrari í ýmsum tilvikum þegar verið er að veita fáu fólki hana við svona aðstæður.

Fyrst á að koma afkomu sveitarfélaganna í dag í lag. Þá er fyrst tímabært að setjast niður yfir framhaldið og ræða tekjustofna og verkefni sem skynsamlegt geti verið að færa til sveitarfélaganna og öfugt því auðvitað á liður í þessu líka að vera sá í sumum tilvikum að svara spurningum af því tagi: Eru kannski vissir hlutir sem að hluta til eða öllu leyti eru hjá sveitarfélögum í dag þegar allt kemur til alls jafnvel betur komnir hjá ríkinu eða einfaldlega sem samstarfsverkefni þessara aðila? Ég hef aldrei verið í þeim hópi sem hefur tekið undir þann voðalega róg um að samstarfsverkefni séu svo ægilega skaðleg og hættuleg og að verkaskiptingin eigi að vera ákaflega hrein. Það eru ein trúarbrögðin eða trúarbragðakennda nálgunin í umræðunni að það sé svo óskaplega mikilvægt að hafa það sem menn kalla hreina verkaskiptingu.

[18:30]

Erum við ekki öllsömul ein þjóð í einu landi? Er það ekki svo að þessir aðilar eru sífellt í samstarfi um hlutina og háðir hvor öðrum, ríkisvaldið og löggjafinn sem setja lögin og ákveða fjárlögin, setja kröfurnar, setja hin faglegu viðmið, ákveða stefnuna, t.d. kröfurnar sem gerðar eru í skólakerfinu og í velferðarþjónustunni og svo sveitarfélögin sem annast um framkvæmd tiltekinna hluta af þessu? Jú, auðvitað. Og hin endalausu ræðuhöld um nauðsyn hinna hreinu verkaskipta eru auðvitað út í loftið þegar betur er að gáð. Það geta beinlínis verið mjög margir neikvæðir þættir því samfara að klippa alveg á milli ábyrgðar á málaflokknum, rekstrarins og kostnaðarins, og ákvarðanatöku og stefnumótunar hins vegar, eins og ég tel að við sjáum nú þegar vísi að t.d. í skólamálunum. Það er voðalega auðvelt að vera metnaðarfullur menntmrh. og gera miklar kröfur í málaflokki sem sveitarfélögin eiga að borga. Þá er fínt að gefa út fína námskrá og slá um sig og segja: Við ætlum að gera þetta rosalega vel og af miklum metnaði, og senda svo öðrum reikninginn. Ég hélt að það þætti ekki góð latína í slíkum samskiptum, að þeir sem taka ákvarðanirnar um útgjöldin þyrftu helst að hafa einhverja tengingu við reikninginn líka. Ég veit ekki hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir um það. (EOK: Það kemur að því.) Skyldi það ekki vera að það gæti líka haft sína ókosti að hafa þennan algera aðskilnað sem menn eru oft að tala um?

Ég vil svo að síðustu aðeins nefna þá málaflokka sem nefndir hafa verið í tengslum við það mál allt saman, að færa til ríkisins. Þar hafa menn aftur vakið upp þá hugmynd að flytja málefni fatlaðra. Nú vill svo til að ég tók mikinn þátt í umræðum um það mál á sínum tíma, var þá nefndarmaður í félmn., og þekki vel á hverju það allt saman strandaði. Ég segi bara að menn eru býsna kjarkaðir að ætla að leggja strax af stað aftur í þann leiðangur því það kom í ljós og kom á daginn að það var ekki alveg eins og að drekka vatn að sippa þeim málaflokki yfir á þeim forsendum og með þeim hætti sem menn ætluðu að gera þar vegna þess hversu aðstaða sveitarfélaganna er þar gífurlega ólík, vegna þess að það var óútkljáð hvernig menn ætluðu að fara með sérhæfðu stofnanirnar og sérhæfðu úrræðin og margt fleira í þeim dúr.

Nú eru menn að tala þar um í viðbót jafnvel málaflokka eins og heilbrigðisþjónustuna, þ.e. heilsugæsluna, og jafnvel rekstur minni sjúkrahúsa. Ég held að ég muni það rétt að á mikilli ráðstefnu í Bláa lóninu var talað um að fara með þetta allt saman, nema stóru sjúkrahúsin, og umönnun aldraðra og ýmislegt sem tengist þeim málaflokki. Ég verð að segja alveg eins og er að þá finnst mér aftur komið að því að sveitarstjórnarmenn eru ekki kjarklitlir ef þeir henda sér út í laugina og taka við því sisona því hvaða málaflokkar eru þetta? Jú, það eru þeir málaflokkar sem við öll vitum að munu vaxa hvað mest að umfangi og útgjöldum á komandi árum. Það er óumflýjanlegt þó ekkert annað kæmi til en lýðfræðilegar breytingar þar sem hlutfall aldraðra mun á kannski 30--50 árum nær tvöfaldast, ef við notum viðmiðunina 67 ára og eldri, og fara úr einhverjum 12--15% í 30, eða hvað það nú er. Ég er ekki með þær prósentur alveg við höndina en af þeirri stærðargráðu er þetta, virðulegur forseti. Þessir málaflokkar eru því ávísun á aukið umfang, á aukin útgjöld ár frá ári langt inn í framtíðina. Hvernig ætla menn þá að stilla af þær formúlur sem tryggja sveitarfélögunum jafnt og þétt auknar tekjur til að ráða við þau útgjöld og færslu tekjustofna væntanlega þá frá ríki til sveitarfélaga eða upptöku nýrra jafnt og þétt? Hvernig hefur það gengið hingað til? Ég held að það sé mikið viðfangsefni að sjá fyrir sér hvernig á að leysa úr því og vildi sjá meira á blaði áður en menn fara kannski mikið lengra hvernig þeir hafa hugsað sér að ná utan um það, virðulegur forseti.

Þrátt fyrir að frv. sé á ýmsan hátt jákvætt hvað það snertir að það er viðleitni til að nálgast málið á uppbyggilegum forsendum eins og þeim að markmiðið sé að efla sveitarstjórnarstigið í þágu betri þjónustu við íbúana sem þar búa og undir það tökum við að sjálfsögðu, eru þarna líka ýmis óútkljáð vandamál og mjög margt sem menn ættu að huga betur að. Undirbúningi málsins er áfátt og það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að ágreiningur skuli vera uppi um það hvað sé verið að skoða og hvað ekki í mikilvægustu nefndinni af þeim öllum, þ.e. þeirri sem á að fara yfir tekjustofnamálin.

Að síðustu um kosningar í því sambandi þegar íbúar sveitarfélaganna standa frammi fyrir tillögum nefndarinnar sem fengin eru mikil völd til að ákveða hvaða tillögur um sameiningu sveitarfélaga skuli lagðar í dóm íbúanna, þá verð ég að segja alveg eins og er að þó að kannski grófustu hugmyndunum sem fyrst voru viðraðar um að telja ætti öll atkvæðin upp úr einum potti í viðkomandi sveitarfélögum og það væri nóg að einfaldur meiri hluti íbúa í mörgum sveitarfélögum samþykkti óháð því hvernig atkvæði féllu í hverju og einu, hafi verið ýtt til hliðar sem á mannamáli auðvitað þýddi að stærstu sveitarfélögin í hverju tilviki gætu ákveðið þetta ein, þá stendur eftir að það orkar mjög tvímælis frá lýðræðislegum grundvallarsjónarmiðum séð að hér sé gengið frá málunum með verjandi hætti. Þá á ég auðvitað við að andi frv. er allur sá að þvinga fram tiltekna niðurstöðu, að þvinga það fram að menn samþykki þá sameiningu sem sameiningarnefndin gerir tillögur um. Hvernig er þetta útfært, frú forseti? Jú, það er Evrópusambandsleiðin, að ef menn ekki skila réttri niðurstöðu í fyrstu umferð er kosið aftur og enn aftur því gert er ráð fyrir að íbúar sumra sveitarfélaga geti þurft að sæta því að kjósa ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar heldur þrisvar sinnum á örfáum mánuðum um að sameinast öðrum sveitarfélögum jafnvel þó að þeir kolfelli það að gefa eftir sjálfstæði síns sveitarfélags í fyrstu umferð. Því það er þannig að ef tillaga sameiningarnefndar hlýtur ekki samþykki íbúa í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum en meiri hluti þeirra sem afstöðu taka í atkvæðagreiðslu lýsir sig þó fylgjandi sameiningu, þ.e. meiri hlutinn í öllum sveitarfélögum talið saman, skal greiða atkvæði að nýju innan sex vikna í sveitarfélögunum þar sem tillagan var felld. Það þarf ekki að kjósa aftur í hinum sem samþykktu, heldur aðeins ef niðurstaðan verður á annan veginn og það þurfa að vísu tvö af þeim hópi sveitarfélaga sem í hlut eiga að samþykkja.

Við skulum segja að það komi tillaga frá sameiningarnefndinni um að sameina öll sveitarfélög við Eyjafjörð og við skulum segja að Akureyri og Hrísey samþykki en öll hin felli, þá skal samt kjósa aftur hvað sem tautar og raular um tillöguna í öllum hinum sveitarfélögunum innan sex vikna. Þó svo að fyrir liggi að einhver hópur sveitarfélaga á þessu svæði eða annars staðar hafi allt aðrar hugmyndir um samstarfsmálin, vilji kannski búa til sameinað sveitarfélag en minna og landfræðilega afmarkað þá hafa þau ekkert val um það. Þau hafa enga möguleika á að koma þeim sjónarmiðum að, hafa áhrif á um hvers konar tillögu yrði kosið í annarri umferð. Nei, þau yrðu neydd samkvæmt lagatextanum til að kjósa aftur um sömu tillöguna, og ég segi alveg eins og er, frú forseti, að mér finnst þetta furðulegt. Mér finnst þetta ekki lýðræðislegur frágangur málsins. Þetta er aðferðin sem Evrópusambandið notaði í Írlandi. Þegar Írar felldu Nice-samninginn afdráttarlaust í fyrri umferð var settur í gang atgangur mikill og það var legið í Írum, þeim var hótað, þeir voru dregnir upp og gerðir ábyrgir fyrir því að þeir væru hvorki meira né minna en að stoppa sjálfa sameiningu eða stækkun Evrópusambandsins og lamið og barið á þeim í eitt og hálft ár þangað til að talið var að þeir væru orðnir það meyrir að nú væri óhætt að kjósa aftur og þá marðist niðurstaðan í gegn eins og kunnugt er. En höfundar þessa frv. ætla að ganga enn lengra því þeir ætla að hafa þann möguleika tiltækan að kjósa í þriðja skiptið skv. d-lið 7. gr. frv. En þar stendur, frú forseti:

,,Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu.``

Ég spurði sérstaklega í nefndinni hvort skýra bæri þetta svo að það gilti um þau sveitarfélög sem hefðu fellt í fyrstu umferð, hefðu kosið eftir sex vikur og fellt aftur og svarið var já. Þau geta lent í því að sameiningarnefndin komi með nýja tillögu og þau verði látin kjósa í þriðja sinn til þess að reyna að þvinga fram þá niðurstöðu að þau sameinist. Og segjum að hér eigi í hlut t.d. í einhverjum tilvikum meðalstórt, nokkuð vel statt og öflugt sveitarfélag sem í raun og veru gengur ekkert annað til en að vilja halda sjálfstæði sínu á grundvelli gildandi sveitarstjórnarlaga. Ef það er langt yfir lágmarksmörkum þess íbúafjölda sem þar stendur og ef afkoma þess er í lagi og íbúarnir ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá, er þetta þá eðlileg framkoma við íbúa í sjálfstæðu sveitarfélagi á sjálfstæðu stjórnsýslustigi? Samrýmist þetta í raun og veru t.d. grundvallarhugsuninni í sveitarstjórnarsáttmála Evrópu þar sem segir að löggjafanum og framkvæmdarvaldinu beri að virða sjálfstæði sveitarfélaga? Ég er ekki viss um það, frú forseti. Ég held að þarna séu menn á ansi tæpu vaði gagnvart þeim lýðræðislegu grundvallarprinsippum. (Gripið fram í.)

Nú heyri ég að menn eru orðnir svo órólegir í salnum að ég er að hugsa um að fara að ljúka máli mínu. Ef ég veld mönnum hugaræsingi er rétt að hafa það í hófi, enda hef ég farið yfir það sem ég ætlaði, frú forseti, að gera sérstaklega að umtalsefni. Við höfum sem sagt ýmsa fyrirvara á varðandi samþykki málsins eins og ég vona að ég hafi náð að gera ágætlega grein fyrir. Það er alls ekki vegna þess að við séum ekki jákvæð og hlynnt því að sveitarstjórnarstigið sé eflt þar sem það hentar og vilji íbúanna stendur til að gera það í og með í gegnum stækkun og sameiningu sveitarfélaga, heldur vegna þess hvernig að málinu er staðið, vegna þeirrar óútkljáðu og óleystu deilumála sem fyrst á að leiða til lykta, eins og ég hef farið yfir, og nokkurra fleiri þátta sem varða ýmis efnisatriði frv. og framkvæmdina eins og að henni hefur verið staðið af hálfu hæstv. fjarstadds félmrh. og framkvæmdarvaldsins.