Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 18:45:30 (8610)

2004-05-18 18:45:30# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir að vekja athygli á því og það er rétt að ég var að flytja eina af mínum ræðum um fjárhagsvanda sveitarfélaganna og ég mun halda áfram að gera það á meðan stjórnarliðar, ríkisstjórnin og meiri hlutinn, eru svo miklar lyddur að taka ekki til í þeim málum. Það fer í taugarnar á mér og ég held að ekki þýði að kenna þar um einhverri óráðsíu sveitarfélaganna að þau hafi keyrt út af í launamálum. Ég hef engar tölur séð um það t.d. að launakostnaður sveitarfélaga sérstaklega stingi í augu eða skeri sig úr þróuninni hjá ríkinu. Ætli hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde sé ekki alveg eins ábyrgur fyrir þeirri þróun og ætli veitt hafi af í sumum tilvikum að bæta kjör þess fólks sem vinnur við þessa mikilvægu þjónustu eða hvernig gekk á árum áður að manna ýmis störf í skólunum, í heilbrigðisþjónustunni o.s.frv.? Ætli við verðum ekki að horfast í augu við þann veruleika, hv. þm., að við viljum halda þessu fólki í landinu og ekki missa það allt til útlanda út af bágum kjörum. Menn stóðu frammi fyrir því með hjúkrunarfræðinga, kennara og ýmsar fleiri stéttir.

Ég er að gagnrýna það og ég mótmæli því að myndarlega hafi verið gert við að reyna að koma til móts við þau sveitarfélög sem hv. þm. réttilega nefndi og lentu í sérstökum erfiðleikum vegna tekjusamdráttar, breytinga í atvinnulífi, byggðamálum og öðru slíku. Eða hvað gerði ríkisstjórnin fyrir þremur árum síðan? Hún tók af viðbótartekjujöfnunarframlögin og fólksfækkunarframlögin upp á 700 millj. sem voru sérstakur stuðningur við þau sveitarfélög sem voru í mestum vanda vegna skyndilegs tekjufalls og vegna fólksfækkunar. Það var höggvið af og mér er það mjög minnisstætt vegna þess að það gerðist akkúrat árið sem Raufarhöfn lenti í mestu hremmingunum og það munaði það sveitarfélag um verulegar fjárhæðir sem það hefði fengið áfram ef þau framlög hefðu ekki verið tekin út þannig að sagan er ekki öll mjög glæsileg, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og landsbyggðarþingmenn stjórnarliðsins verða að horfast í augu við það.