Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 18:49:43 (8612)

2004-05-18 18:49:43# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað alveg rétt að afkoma sveitarfélaganna er misjöfn og það kom fram t.d. í orðaskiptum mínum og frammíköllum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson. En þó að við tökum bara meðaltalið og þó að við tökum heildarútkomuna á sveitarfélögunum tala skuldajöfnunartölurnar sínu máli. (Gripið fram í.)

Varðandi jöfnunarsjóðinn er það auðvitað ekki rétt að sveitarfélögin hafi það mál allt í sínum höndum eða fulltrúar þeirra. Það er félmrh. sem gefur út reglugerð sem er afgerandi um það hvernig framlögin fara út úr jöfnunarsjóði og jöfnunarsjóður hefur verið notaður til þess að velta yfir jöfnunarverkefnum sem áður fóru fram í gegnum ríkissjóð, t.d. meðan grunnskólinn var að hluta til verkefni ríkisins. (EOK: Samkvæmt tillögum þeirra.) Og peningarnir sem verið er að tala um að hafi verið settir yfir í jöfnunarsjóð eru tengdir við slíkan verkefnatilflutning þegar við skoðum það betur. (EOK: Nei.) Minnst af þeim, hv. þm., hefur verið til þess að bæta afkomu sveitarfélaganna. Það hefur verið vegna verkefna sem valið var að setja þangað inn sem tengist yfirfærslu á hlutum frá ríki til sveitarfélaga.

Varðandi launaþróunina þá skulum við fara yfir hana. Hvernig skyldi standa á því að launakostnaður sveitarfélaganna hefur hækkað talsvert undanfarin ár? Það tengist líka yfirfærslu grunnskólans. Stærsti launaútgjaldaliðurinn hjá sveitarfélögunum núna er grunnskólinn og hjá mörgum þeirra nánast öll launin sem greidd eru. (EOK: Hækkun taxta.) Af hverju hafa laun grunnskólakennaranna hækkað? Jú, það var vegna þess að hluti af kettinum eða einn af köttunum í sekknum voru væntingarnar sem allir vissu að voru í pípunum um verulega bætt kjör kennara þegar sveitarfélögin tóku við og þeim var enginn annar kostur en að koma til móts við það starfsfólk sitt og bæta kjör þess. Sveitarfélögin hafa metnað til þess að reka grunnskólann vel, manna hann með réttindafólki o.s.frv. og það hefur kostað launaútgjöld, það er alveg rétt, en að láta eins og það sé eitthvert algert sjálfskaparvíti sveitarfélaganna, eitthvert ábyrgðarleysi í fjármálum, því mótmæli ég.