Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 18:51:56 (8613)

2004-05-18 18:51:56# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í umræðunni. Það hefur margt verið sagt um hana og ég ætla ég ekki að fara mikið inn í frv. vegna þess að margt hefur verið sagt sem ég hefði viljað segja um sameiningu sveitarfélaga o.s.frv.

Ég vil taka undir það sem komið hefur fram eins og hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að sameining sveitarfélaga er ekki það sem er mest áríðandi hjá sveitarfélögunum í dag. Það er ekki mest áríðandi að mati sveitarstjórnarmanna heldur að fara yfir tekjumál þeirra og vænti ég þess að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fari ekki strax úr salnum vegna þess að ég ætla að taka undir margt sem hann sagði um tekjustofna sveitarfélaga en vildi helst ræða við hann um þann yfirgang sem ríkissjóður hefur beitt sveitarfélögin þar sem dregið hefur verið úr tekjum þeirra.

Virðulegi forseti. Aðaláhyggjuefni sveitarstjórnarmanna í dag snýst fyrst og fremst um tekjustofna sveitarfélaganna, snýst fyrst og fremst um það að sífellt er verið að draga úr tekjum þeirra og þau eru að missa allan mátt til að standa undir eðlilegri þjónustu. Ég get tekið undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að það eru sveitarfélög sem búa að mestu við landbúnað og hafa misst þar og þá nefni ég sérstaklega sauðfjárrækt en það eru engu að síður sveitarfélög sem hafa verið að missa frá sér kvóta og hafa sett niður vegna sjávarútvegsstefnunnar. Þau eru líka að missa miklar tekjur. Mér var þá hugsað til þess, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln., og stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar sem gengur svo harkalega fram gegn sveitarfélögunum, hvað á eftir að telja upp af sveitarfélögum landsins ef við tökum landbúnaðar- og sjávarútvegsveitarfélögin og förum hringinn í kringum landið og sneiðum fram hjá höfuðborgarsvæðinu og kannski nokkrum öflugustu byggðakjörnum landsbyggðarinnar sem þó eru í miklum tekjusamdrætti líka?

Svínaríið sem ríkisstjórnin hefur beitt sveitarfélögin með stuðningi hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar er algjört og það er að komið þannig, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um áðan, að við sjáum sveitarsjóði sem fara með 70--80, jafnvel 85% af tekjum sínum beint í grunnskólann. Hvernig eiga þau sveitarfélög að standa að einhverri þjónustu við íbúana? Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt? Eigum við að fara yfir það, virðulegi forseti, sem er breytingin úr einkahlutafélögunum yfir í eháeffið? Að mati Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands sveitarfélaga, borgarfulltrúa Sjálfstfl. í Reykjavík og flokksbróður hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, er verið að svína á sveitarfélögunum í landinu vegna þessara breytinga um 1 milljarð kr. (Gripið fram í.) Hvenær á að skila þessum peningum, virðulegi forseti? Mig langar að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson um þær sértæku aðgerðir sem hann talaði um að þyrfti að beita fyrir flestöll sveitarfélögin, ekki öll, ég er sammála því. (Gripið fram í: Húsaleigubæturnar?) Húsaleigubætur, eigum við að fara aðeins aftur í tímann? (Gripið fram í: Nei, ...) Ríkisstjórn Íslands beitti sér fyrir því á árum áður að ná peningum inn í hlutafélög landsins, almenningshlutafélög, með því að gefa skattafslátt og það voru biðraðir á gamlársdag áður fyrr hjá bönkum, sparisjóðum og öðrum við að kaupa hlutabréf. Hvernig var það fjármagnað? Með skattafslætti? Hver gaf eftir stóran hluta af skattafslættinum? Sveitarfélögin í landinu. Þannig má halda endalaust áfram að telja upp allar þær aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar sem hafa orðið til þess að sveitarfélögin í landinu eru komin á heljarþröm peningalega séð og safna skuldum. Ég kaupi það ekki, virðulegi forseti, að það sé eingöngu, eins og hv. þm. talar um, agaleysi vegna launa. Það er ekki svo. Ég þekki mjög vel til í mínu sveitarfélagi. Þar er vel haldið á hlutum og haldið aftur af hlutum og menn hafa verið að fækka störfum og draga úr þjónustu. Menn hafa hins vegar ekki komist upp með annað en halda áfram og taka þátt í því launamambói sem var gagnvart kennurum vegna þess að kennarar voru náttúrlega í þvílíku svelti meðan þeir voru ríkisstarfsmenn að þeir hafa fengið verulegar bætur launalega eftir að hafa farið frá ríkinu. Þetta vildi ég aðeins segja í þessu efni, virðulegi forseti, um tekjur sveitarfélaga sem eru aðaláhyggjuefni sveitarstjórnarmanna í dag.

Hitt atriðið er auðvitað atvinnumál og það að atvinna er sífellt að dragast saman. Tökum bara sjávarútveginn í dag. Tökum bara það mál sem við vorum að ræða í gær, dagabátana. Hvaða áhrif mun það hafa á fjölmörg sveitarfélög í landinu? Við í sjútvn. vorum að sjá fjölda báta skipt eftir sveitarfélögum í morgun og fáum vonandi gögn um það á morgun. Ég er voðalega hræddur um það, virðulegi forseti, að sú breyting muni fara mjög illa með mjög mörg sveitarfélög landsins. Ég óttast það. Það mun fara í gang ný söluherferð á kvóta hjá þeim sem fá krókaaflamark og þeir munu sjá sér hag í því frekar að selja sig út úr greininni og fá kannski 70--80 millj. fyrir sinn kvóta. Það verður þægilegra en að gera út og fá 11 millj. í tekjur á ári og kannski 1 milljón eftir þegar búið er að borga allan kostnað. Ætli það verði ekki til þess að samþjöppunin verði alger.

Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að klukkan er að verða sjö. En af því að bálið var kveikt, af því að neistinn varð að báli við að ræða meira um tekjustofna sveitarfélaga, atvinnumál og annað þá vildi ég taka þátt í því.

Tökum t.d. eitt atriði sem er að gerast í dag, bara hækkun á olíuverði, gengisskráning. Hvernig kemur það við fjölmörg byggðarlög landsins þar sem sjávarútvegur er aðalatvinnuvegurinn? Við þurfum ekkert að ræða um það. Sjávarútvegsfyrirtæki eiga mjög í erfiðleikum með rekstur sinn í dag út af þessum bátum. En það er ábyggilega mjög glæsilegt að vera innflytjandi og reka innflutningsverslun í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu, flytja inn gallabuxur eða eitthvað slíkt á fínu gengi. Ég þekki það frá því að ég var kaupmaður sjálfur. Þá voru oft dýrðartímar í þessu sem komu illa við landsbyggðarreksturinn vegna þess að við fengum minna fyrir afurðir okkar.

Ímyndum okkur hvernig það er að gera út, virðulegi forseti, rækjutogara í dag. Hrikalegt verðfall erlendis, hátt olíuverð, lítil veiði oft og tíðum. Þetta er í bullandi mínus. Hvað gerist ef fleiri fyrirtæki hætta að sinna rækjuveiðum og vinna rækju? Fjölmargir aðilar vítt og breitt í hinum ýmsu sveitarfélögum landsins munu missa vinnuna. Þannig getum við haldið áfram endalaust, virðulegi forseti, en ég vil ljúka máli mínu með því að segja að aðalatriðið er að hæstv. ríkisstjórn hefur verið fremst í flokki við að svína á sveitarfélögum, svína á tekjustofnum sveitarfélaga. Það er sama hvað maður fer langt aftur, annar eins bægslagangur og svínarí og hefur verið að gerast undanfarin ár af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í garð sveitarfélaga þekkist ekki. Það er þannig. Og við skulum ekki loka augunum fyrir því að á tyllidögum koma ráðherrar, stjórnarþingmenn og aðrir og tala um að bæta þurfi tekjustofna sveitarfélaga en ekkert er gert.

Rétt í lokin, virðulegi forseti, ef hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson getur svarað því og þá varðar mig ekkert um talið um 2.500 millj. kr. í jöfnunarsjóðinn, þá blóðpeninga sem þar koma inn og eru settir sem fólksfækkunarframlög o.s.frv. Tekjustofnar sveitarfélaga eiga ekki að þurfa að vera bundnir af einhverjum duttlungum í hæstv. fjmrh. eða félmrh., hvort þeir láta af hendi 400 millj. eða 500 millj. á síðustu dögum þingsins fyrir jól sem einhverja jólagjöf vegna fólksfækkunarframlaga eða þess háttar hluta. Tekjustofnar fyrir sveitarfélögin eiga að vera þannig að þau geti rekið sig, að öll sveitarfélög og sérstaklega litlu sveitarfélögin úti á landi geti veitt íbúum sínum fullkomna og góða þjónustu sama hvort það er í leikskóla eða grunnskóla. Það er nútímakrafa fólks í dag og það sættir sig ekki við mismunun, t.d. í skólahaldi hvort sem það er leikskóli eða grunnskóli. Það sættir sig einfaldlega ekki við það. Fólk úti á landi í litlum sveitarfélögum veit hvernig skólar eru reknir á höfuðborgarsvæðinu og það vill fá nákvæmlega sömu þjónustu en sveitarfélögin geta ekki veitt hana, virðulegi forseti.