Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:01:09 (8614)

2004-05-18 19:01:09# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EOK
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Sveitarfélögin og staða þeirra er mjög mismunandi á Íslandi. Þróun teknanna hefur verið þannig að í heild hafa tekjur sveitarfélaganna síst verið minni en hjá ríkinu en það er mjög mikil misskipting í þessum tekjum. Mörg sveitarfélög, eins og ég hef farið yfir áður í dag, eru að missa tekjur, þar er fólki að fækka, þau eiga við gríðarlega erfiðleika að etja og það er rétt og skylt að ríkið komi og aðstoði þau með sértækum aðgerðum. Það hefur verið reynt og ég tek það fram aftur að það hefur verið reynt. Sannarlega hefur það ekki dugað til og það þarf að gera betur.

Hins vegar á langmestur hlutinn, þar sem íbúafjöldinn er mestur á Íslandi, ekki við þessi vandamál að stríða. Mjög mörg sveitarfélög hafa haft gríðarlega tekjuaukningu að undanförnu. Ég hef bent á það og ég ætla að fara yfir það aftur að öll gögn um þróun launa liggja fyrir. Enginn vefengir þau gögn. Enginn. Það liggur á borðinu að sveitarfélög hafa hækkað laun verulega umfram ríkið og það liggur líka á borðinu að ríkið hefur hækkað laun verulega umfram hinn almenna markað. Það er alveg sama hversu gott fólkið er sem vinnur hjá ríki og sveitarfélögum, það er alveg sama hversu samviskusamt það er, hversu duglegt það er eða vel menntað, starfsmenn hins opinbera geta aldrei vænst þess og mega ekki gera þá kröfu að launaþróun þeirra geti verið önnur en launaþróun fólksins sem vinnur í framleiðslunni. Það er framleiðslan sem stendur undir öllum lífskjörum og það er geta framleiðslunnar til að borga verkafólki laun sem á að ráða þróuninni. Þeir sem vinna önnur störf geta ekki krafist þess að fá meiri hækkanir en verkafólkið. Það er grunnsannleikurinn sem menn verða að tileinka sér. Sveitarfélög, eins og það hefur gengið fyrir sig á undanförnum árum, hafa sannarlega verið að hækka laun sinna ágætu starfsmanna. Ég er ekki að segja að þeir hafi haft of mikið, langt í frá, en þau hafa hækkað launin umfram launaþróun verkamanna. Það getur ekki gengið. Það er útilokað og þeirri þróun verður að ljúka. Sveitarfélögin og ríkið verða að hafa sameiginlega launastefnu og tryggja að þau komi saman til vinnumarkaðarins.

Þó að sveitarfélögin séu margs góðs makleg og gríðarlegur fjöldi fólks um land allt leggi sig fram um mjög góða vinnu þar og margt sé þar vel gert, þá er það svo að við verðum að krefja hið opinbera, við verðum að krefja ríkið um aðhald með skattpeningana. Við eigum að gera það og eigum að gera það meira og meira því að sannarlega eru vanhöld á því. Það er nákvæmlega eins með sveitarfélögin og ríkið. Við verðum að krefja sveitarfélögin um aga í meðferð peninga. Og þó að vandamálin séu mörg og margt hafi orðið til þess að hækka útgjöld sveitarfélaga þá fullyrði ég að hækkun launa hjá sveitarfélögunum umfram hækkun hjá ríkinu, ég tala nú ekki um ef við berum hana saman við hækkunina á almennum markaði, er langmesta hækkunin sem um er að ræða. Það er því við þau sjálf að tala. Það er sjálfsagt að sveitarfélögin geri kröfu til ríkisins, það getur vel verið að eitthvað vanti þar upp á og sjálfsagt að fara ofan í þá hluti en sveitarfélögin verða líka að gera kröfu til sjálfra sín. Það hefur stórlega vantað á það. Þau verða að átta sig á því. Þau geta gert kröfu til ríkisins en þau eiga líka gera kröfu til sjálfra sín. Það er stóra málið og við megum ekki rugla með þær staðreyndir.

Úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er úthlutað samkvæmt reglugerð félmrn. og sú reglugerð félmrn. er nákvæmlega að tillögu sveitarfélaganna, nákvæmlega farið eftir henni. Hún er þeirra eigið handaverk. Það er því langt frá því að félmrn. segi sveitarfélögunum fyrir verkum, þetta eru þeirra eigin tillögur.

Það er sjálfsagt að endurskoða tekjuskiptinguna og vera alltaf með hana í endurskoðun en þar hefur mjög oft verið farið með rangt mál. Fullyrðingar t.d. um að fjmrn. sé að svíkja sveitarfélögin í hinu og þessu eru ekki réttar. Húsaleigubæturnar sem menn tala oft um eru samkvæmt samningi sveitarfélaganna við fjmrn. (Gripið fram í: Ríkið er nú alltaf ...) Það þýðir ekkert að koma og segja að það séu svik, þegar menn semja um eitthvað fara menn eftir samningnum og ef farið er eftir samningnum er ekki nokkur leið að kalla slíkt svik. Það er allt í lagi að taka samninginn upp og reyna að endurskoða hann, það er sjálfsagður hlutur, en að kalla það svik er rangt. Ég segi því, virðulegi forseti, að það er mjög slæmt þegar menn ala sí og æ á því, eins og síðasti hv. ræðumaður, að ríkið sé vitandi vits að sparka í sveitarfélögin, farandi rangt með og svíkja þau og pretta. Það er alls ekki rétt. Það eru ósannindi og hann getur ekki fundið orðum sínum stað.