Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:09:44 (8616)

2004-05-18 19:09:44# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur legið fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er það tæki sem sjálfsagt á að nota í þessu sambandi. Hins vegar eru úthlutunarreglurnar samdar af stóru sveitarfélögunum þannig að það er þeirra vilji sem hefur ráðið mestu. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir móta sér sínar eigin skoðanir á því að það eru litlu sveitarfélögin sem verða fyrir tekjuskerðingu sem við þurfum að hjálpa. Það er raunverulega eina efnahagsvandamálið sem við eigum við að stríða á Íslandi. Hér er allt í miklum blóma en þetta er eina efnahagsvandamálið og við eigum að þora að taka forustuna í málinu. Sveitarfélögin sem hafa orðið fyrir tekjuskerðingu, sérstaklega landbúnaðarsveitarfélögin þar sem sauðfjárræktin er, eru í miklum vanda og við eigum að líta á það sérstaklega og við eigum auðvitað að hjálpa þeim, með peningum, með fólksfækkunarframlögum. Við getum myndað okkar eigin pólitík og þurfum ekki að vera háð vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga að því leyti, alls ekki.