Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:13:28 (8634)

2004-05-19 10:13:28# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ríkisstjórnin á að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að hafa hnýtt hana, að henni fornspurðri, í tagl innrásarherjanna í Írak. Ríkisstjórnin á líka að biðja íröksku þjóðina afsökunar á þeim miska sem innrásin hefur unnið henni.

Innrásin var röng, stuðningur okkar við hana var rangur og ég tel að hún hafi ekki verið lögleg af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar.

Það er sárt að vera Íslendingur og upplifa sig sem samábyrgan fyrir þeim hörmungum sem þessi innrás hefur leitt yfir íröksku þjóðina. Án siðferðilegs stuðnings okkar og annarra í hópi hinna svokölluðu staðföstu ríkja hefðu engir hermenn verið sendir til Íraks, Genfarsáttmálinn um meðferð á stríðföngum hefði ekki verið brotinn og vestrænir hermenn hefðu ekki misþyrmt og nauðgað unglingsbörnum eins og þeir hafa orðið uppvísir að.

Það er sárt að upplifa það í hjarta sínu að vera samábyrgur fyrir verknaði af þessu tagi. Það er þess vegna sem hæstv. utanrrh. á að biðjast afsökunar á þessari ákvörðun. Við þurfum, Alþingi, að láta umheiminn vita hvað okkur finnst um þessa síðustu atburði, hvað okkur finnst um það þegar þeir sem við sendum til þess að verja gerast árásarmenn gagnvart varnarlausu fólki og unglingsbörnum. Þess vegna verður Alþingi, áður en það hverfur héðan í sumarfrí, að samþykkja ályktun þar sem þessi verknaður er harðlega fordæmdur.

Ég verð þó að segja að mér finnst það mannsbragð af hæstv. utanrrh. að hann hefur mótmælt þessu og kallað til sín sendiherra Bandaríkjanna til að koma þeim mótmælum á framfæri. Ég tel þó að Alþingi Íslendinga verði að segja hug sinn í þessu og þess vegna mun stjórnarandstaðan leita eftir samstöðu með stjórnarliðinu á næstu dögum um að samþykkja slíka fordæmingu.