Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:22:32 (8638)

2004-05-19 10:22:32# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:22]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Þær fregnir sem borist hafa um meðferð innrásarliðsins á stríðsföngum í Írak eru ógnvekjandi og óafsakanlegar. Það er ömurleg staðreynd að herinn sem hafði ætlað sér að frelsa íröksku þjóðina undan skelfilegum harðstjóra stundi niðurlægjandi pyndingar á Írökum í fangelsum Saddams Husseins. Þetta ásamt öðrum þeim atriðum sem fram hafa komið um ótraustar og villandi upplýsingar sem fram komu frá vestrænum leyniþjónustum og stjórnvöldum í bandalagsríkjum okkar og urðu tilefni til stríðsins eru áhyggjuefni.

Við höfum um áratuga skeið átt farsæl samskipti við Bandaríkjastjórn um öryggis- og varnarmál okkar. Ef það kemur á daginn, sem ýmislegt bendir til, að Bandaríkjastjórn hafi með villandi og ótraustum upplýsingum blekkt sína eigin þjóð til þátttöku í þessu stríði hlýtur það að vera okkur Íslendingum mikið áhyggjuefni og hafa áhrif á það hvernig við metum slíkar upplýsingar í framtíðinni.

Við höfum fram að þessu að miklu leyti reitt okkur á þessa bandamenn okkar í alþjóðamálum, enda eðli málsins samkvæmt ekki sjálf í aðstöðu til þess að afla upplýsinga eins og þær sem erlendar leyniþjónustur afla og hvernig stjórnvöld í bandalagsríkjum okkar túlka þær. Við höfum því treyst bandamönnum okkar að þessu leyti.

Þær fregnir sem nú hafa verið til umræðu hljóta því að vera okkur sérstakt áhyggju- og íhugunarefni. Við hljótum að fordæma það framferði sem átt hefur sér stað gagnvart föngum innrásarliðsins í Írak.