Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:26:31 (8640)

2004-05-19 10:26:31# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:26]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Því er haldið fram hér að aðgerðirnar gegn Írak til að koma Saddam Hussein frá hafi verið ólögmætar. Það er marghrakið vegna þess að ályktanir SÞ, ekki ein, ekki tvær heldur fjöldi þeirra, hafa verið brotnar af einræðisherranum. Forsendur fyrir aðgerðum á vegum frjálsra þjóða voru því réttmætar.

Því er einnig haldið fram hér að í Bandaríkjunum sé mikil gagnrýni á Bush vegna Íraksstríðsins. Það vill þannig til að báðir frambjóðendur til forsetaembættisins í Bandaríkjunum, bæði Bush og Kerry, studdu stríðið og styðja það enn. Deilurnar um Bush eru allt annars eðlis og snúast aðallega um efnahagsmál þannig að þetta er vanþekking af hálfu þeirra sem hér hafa talað um þetta atriði.

Varðandi það að upplýsingar hafi borist um hræðilegar pyndingar í fangelsum bandamanna í Írak liggur það fyrir og hefur verið fordæmt af íslensku ríkisstjórninni, utanrrh. verið í fararbroddi þar, og öðrum þjóðum og forustumönnum bandalagsríkjanna. Sá er munurinn að þegar slíkt kemur fram, pyndingar af þessu tagi sem voru daglegt brauð fyrir þessar aðgerðir, þá eru þær rannsakaðar, þær fordæmdar og hinir seku dregnir fyrir rétt. Það var ekki gert fyrir þær aðgerðir sem framkvæmdar voru. (ÖJ: Verður Rumsfeld ...?) Ég tel reyndar að þeir aðilar sem hér í þessum sal tala fyrir því með beinum og óbeinum hætti að ástand í Írak skyldi vera óbreytt hefðu borið mikla ábyrgð ekki síður en þeir sem reyndu að bæta úr því ástandi. Það hlýtur að liggja fyrir.