Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:19:34 (8666)

2004-05-19 12:19:34# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hæstv. utanrrh. hafi miklar áhyggjur af markaðsráðandi fyrirtækjum. Hann rökstuddi það hér eða fór fyrst fram með það að fjölmiðlafyrirtækjunum ætti að banna með öllu, þau væru það hættuleg, að eiga hlut í fjölmiðlafyrirtæki, ljósvakafyrirtæki. Nú er komin 5% regla sem hefur ekki verið vel rökstudd en það sem ég er fyrst og síðast að beina sjónum mínum að er þetta óöryggi, virðulegi forseti. Hefur hæstv. utanrrh. virkilega engar áhyggjur af þessu óöryggi og þessum breytileika sem eignarhaldið mun sífellt hafa í för með sér? Ekki er bara óskýrt hvað markaðsráðandi staða þýðir og hvaða fyrirtæki eru skilgreind sem markaðsráðandi, eins og margoft hefur komið fram, heldur er líka um að ræða að það er sífelld hreyfing á eignarhaldinu. Menn þurfa að vera að losa sig við eignarhlut og geta síðan náð í hann aftur ef fyrirtækinu fer að ganga nógu illa. Það er þetta sem ég vil fyrst og síðast spyrja hæstv. utanrrh. um. Ég held að við náum ekki samkomulagi um það á hvern hátt eigi að takmarka aðgang markaðsráðandi fyrirtækja á ljósvakafyrirtækjum. Það erum við einfaldlega ósammála um.