Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 14:06:48 (8672)

2004-05-19 14:06:48# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur verið upplýst hver það var sem talaði svona hart og örugglega um að setja yrði ströng lög um það að slíkir aðilar, eins og stórir aðilar í verslun sem hér er sagt sérstaklega og í bankaviðskiptum, geti ekki átt fjölmiðlana. Svo var bætt við. Í framhaldi af þessum setningum stóð, með leyfi forseta:

,,Mér finnst það liggja þó nokkuð öðruvísi við hvernig eignarhaldi og ráðandi áhrifum manna á slíkum fjölmiðlum er ráðið til lykta vegna þess að það er auðvitað hægt að misnota vald sitt ef menn eru stórir eignaraðilar og fá ráðið slíkum upplýsingaveitum sem dagblöðin og ljósvakafjölmiðlarnir eru á degi hverjum. Vissulega er freistandi í baráttunni fyrir hagsmunaaðila að nota sér slíka stöðu.``

Hvernig í ósköpunum stendur á því að þegar loksins er brugðist við til þess að leysa þennan vanda og þessar áhyggjur hv. þm. þá skuli hann leggjast þver gegn málinu? Hvaða skýringu getur hann gefið sínum umbjóðendum á því að hafa snúist svona rosalega í málinu? Hvers vegna í ósköpunum getur hann veist að okkur sem erum að reyna að bregðast við þeim kröfum sem hv. þm. gerir og reyna að koma í veg fyrir að misnotkun af þessu tagi geti átt sér stað? Hvers vegna hefur þá hv. þm. ekki komið með neinar tillögur um það hvernig eigi að gera þetta?

Nú er það svo að hv. þm. talar um að hérna geti fundist sátt. Nú er búið að breyta frumvarpinu til móts við gagnrýnendur í átta atriðum í þessum lotum. Allar þessar breytingar eru til bóta. Það er viðurkennt. Ekkert af því hefur hreyft við hv. þingmanni að koma nú og standa með okkur. Hvernig stendur á því? Hverra hagsmuna er hv. þm. að gæta, þeirra sem hann var að vara við eða einhverra annarra?