Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 14:10:09 (8674)

2004-05-19 14:10:09# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Frú forseti. Þessi umræða um hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp er orðin býsna löng og ítarleg. Þrátt fyrir það hefur hún nú ekki á öllum stundum verið mjög málefnaleg af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa sett meira púður í það í þessari umræðu að ræða form málsins en skautað þeim mun meira fram hjá efni þess þrátt fyrir að það örli á því í sumum ræðum að efni frumvarpsins sé rætt.

Málefni forseta lýðveldisins og meintur málskotsréttur hans til þjóðarinnar hefur einnig komið til umræðu, nú síðast hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur sem ræddi um þann meinta málskotsrétt. Ég ætlað í sjálfu sér ekki að ræða um forsetann og stöðu hans í málinu í þessari ræðu og um meintan málskotsrétt. En ég held að ástæða sé til að víkja aðeins að því úr því að hv. þm. gerði það í sinni ræðu. Hún varpaði fram þeirri kenningu sem hefur reyndar verið sett á flot að forseti Íslands eigi sérstakan málskotsrétt sem hann geti notað til þess að vísa málinu til þjóðarinnar og væri það þá rökstutt með því að á ferð væri svo ofboðslegt mál að ekki væri hægt að treysta þjóðþinginu fyrir því heldur yrði þjóðin sjálf að koma að málinu.

Nú er það reyndar þannig ef maður les stjórnarskrána að ekkert er mælt um málskotsrétt forsetans heldur um synjunarvald. Við skulum kannski láta það liggja á milli hluta en mér finnst rétt að vekja athygli hv. þm. á þessu.

Þessi kenning sem ég vék að er einkennileg eins og best sést á því að í sögu lýðveldisins hafa deilumál eins og þau sem hér voru nefnd aldrei þótt réttlæta slíkt inngrip í þingræðisregluna. Það verður vissulega að skoða synjunarvald forsetans í samhengi við þau mál þar sem forseti hefur hafnað því að málavextir geti réttlætt það að hann gangi gegn þingræðinu. Þegar litið er til þeirra mála sem ekki þóttu réttlæta synjun forseta og þau svo borin saman við hugsanleg lög um starfsumhverfi fjölmiðla þá sést vel hve hugmyndin um synjun nú er fjarstæðukennd.

Ég leyfi mér að nefna það að varnarsamningurinn við Bandaríkin var ekki slíkt deilumál að hann réttlætti synjun forsetans. Aðildin að EFTA var ekki mál sem réttlætti synjun forseta. Álverssamningarnir við Alusuisse voru ekki mál sem réttlætti synjun forseta. Kvótakerfið í sjávarútvegi var ekki slíkt deilumál að það réttlætti synjun forseta. Aðildin að hinu Evrópska efnahagssvæði var ekki mál sem réttlætti synjun forseta. Gagnagrunnur á heilbrigðissviði var ekki mál sem réttlætti synjun forseta. Heimildin til byggingar Kárahnjúkavirkjunar var ekki slíkt deilumál í samfélaginu að það réttlætti synjun forseta og lög vegna dóms Hæstaréttar í svokölluðu öryrkjamáli voru ekki slík deilumál að það réttlætti synjun forseta.

Ég leyfi mér að segja það, frú forseti, að það sama á við um fjölmiðlafrumvarpið ef það verður að lögum. Þeir sem vilja ekki una þeirri ákvörðun löggjafans verða þá annaðhvort að leita til dómstóla eða þess þings sem næst verður kjörið. Sameiningartákn þjóðarinnar svokallað getur ekki hlaupið þar undir bagga. Andstæðingar frumvarpsins geta ekki ætlast til þess að Ólafur Ragnar Grímsson sláist með þeim í baráttuna. Þessi barátta verður eins og aðrar að fara fram án hans liðveislu. Mér þótti rétt að þessi sjónarmið kæmu fram hér úr því að hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vék að þeim í upphafi ræðu sinnar.

Ég ætla nú að víkja að efni frumvarpsins og meðferð þess á hinu háa Alþingi. Fyrir liggur að allir þeir sem að málinu hafa komið, hvort sem það eru fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sitja á þingi, eigendur fjölmiðlafyrirtækja eða starfsmenn þeirra, eru sammála um að það beri að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Þetta liggur fyrir og er mikilvægt í umræðunni. Það eru allir sammála því meginprinsippi að við núverandi kerfi verði ekki búið.

[14:15]

Í þeirri umræðu sem skapast hefur um þetta frv. hafa stjórnarandstaðan og þingmenn þeirra flokka gagnrýnt fyrst og fremst þá málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð. Málshraðinn hefur verið gagnrýndur. Því hefur verið haldið fram að verið sé að keyra málið í gegnum þingið með óhæfilegum hraða. Þrátt fyrir það liggur fyrir að við erum búin að ræða þetta mál í einar 3--4 vikur, held ég. Fjölmiðlanefnd sem var skipuð í desember á síðasta ári tók málið til umfjöllunar og það hefur raunar verið rætt miklu lengur en í þessa tilteknu mánuði.

Það hefur líka verið gagnrýnt að frv. sé sértækt, þetta séu ekki almenn lög heldur sértæk sem beinist gegn einu fyrirtæki. Ég hef mótmælt því að frv. sé sértækt, gerði það við 2. umr. um þetta mál. Ég hef spurt, og ekki fengið nein svör við því, að ef við gefum okkur að frv. sé sértækt og beinist gegn einu fyrirtæki hvað valdi því þá að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa tekið pólitíska U-beygju varðandi slíka löggjöf? Þá er ég að gefa mér að löggjöfin sé sértæk.

Ég hef vísað til þess að í febrúar var til umræðu svokallað SPRON-mál. Sú löggjöf var sértæk, hún var eins sértæk og hún gat orðið. Hún beindist gegn einu fyrirtæki, raunar gegn einum löggerningi. (Gripið fram í: Sem Einar Oddur beitti sér fyrir?) Sú löggjöf var sértæk.

Ég spyr í ljósi þess að allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna að einum undanskildum, Helga Hjörvar, greiddu atkvæði með þeirri löggjöf. (ÖS: Ekki ég.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var reyndar fjarverandi en hann gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina á því máli. Hann kallaði ekki eftir lögfræðilegum umsögnum frá Evrópuráðinu eða vestan úr háskóla eða frá Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík við þá málsmeðferð. (ÖS: Ég var hagsmunaaðili.)

Hv. þm. gerðu enga athugasemd við það að sú löggjöf væri keyrð í gegnum Alþingi á tveimur sólarhringum. Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi þess: Hefur orðið algjör stefnubreyting þessara stjórnmálaflokka varðandi sértæka löggjöf eða skiptir máli að hvaða fyrirtæki sú löggjöf beinist?

Ég óska eftir því að fá upplýsingar um það frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvort það skipti máli að hvaða fyrirtæki slík löggjöf beinist, (ÖS: Það skiptir ...) eða er um algjöra pólitíska kúvendingu að ræða varðandi sértæka löggjöf? (ÖS: Það skiptir máli fyrir forsrh.)

Ég held því fram að þetta frv. beinist ekki að einu fyrirtæki heldur að það sé almennt. Við höfum líka bent á að allar þær reglur í öðrum löndum sem vikið er að í fjölmiðlaskýrslunni séu þess eðlis að það er alveg sama hvort einhver þeirra hefði verið tekin upp, menn hefðu alltaf getað haldið því fram að slík löggjöf væri sértæk. Það er alveg sama hvort við tækjum upp norsku regluna, dönsku, þýsku, frönsku eða hvaða reglu sem er. Þessar reglur hefðu allar bitnað einna helst á fyrirtæki sem heitir Norðurljós. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að markaðshlutdeild þessa fyrirtækis er svo mikil. Það er alveg sama hvort menn miða við áhorf, veltu eða aðrar tölur. Markaðshlutdeild þessa fyrirtækis er svo mikil að það er alveg sama hvaða reglu við hefðum tekið upp, alveg sama hvaða land við hefðum miðað okkur við, menn hefðu alltaf haldið því fram að löggjöfin væri sértæk.

Það er sérkennilegt í ljósi þess að allir þeir aðilar sem að málinu hafa komið hafa lýst því yfir að setja þurfi reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Það að einhver löggjöf beinist gegn einhverju fyrirtæki eða fyrirtækjum þýðir ekki endilega það að löggjöfin sé sértæk. Löggjöf um hátekjuskatt hittir t.d. hátekjumenn fyrir en það þýðir ekki að slík löggjöf sé sértæk. Hún er almenn, hún er ekkert persónuleg gagnvart þeim sem hátekjuskatturinn beinist að en hún hittir þá fyrir sem falla undir þær skilgreiningar sem löggjöfin kveður á um.

Ef við víkjum þá að efni frv. (Gripið fram í: ... öryrkjalöggjöf ...) er það óumdeilt að efni frv. hefur verið breytt mjög verulega frá því frv. var lagt fram. Þessar breytingar eru afar góðar að mínu mati. (Gripið fram í.) Því hefur reyndar verið haldið fram að meiri hluti hv. allshn. og ríkisstjórnin hafi ekki hlustað á þá gagnrýni sem fram hefur komið á efnisatriði frv., þar á meðal frá fræðimönnum á sviði lögfræðinnar, starfsfólki Norðurljósa hf. og fleiri aðilum sem hafa tjáð sig um málið.

Fyrirliggjandi breytingar sem nú hafa verið lagðar fram fyrir 3. umr. og þær sem lagðar voru fram fyrir 2. umr. málsins sýna að sú gagnrýni er engan veginn á rökum reist. Því hefur reyndar meira að segja verið haldið fram, þar á meðal í fjölmiðlum, að þessar breytingar séu sáralitlar. Ég tel hins vegar að slíkur málflutningur sé í besta falli fráleitur. Mjög verulegar breytingar hafa verið gerðar á frv. eins og það var lagt fram hér í upphafi, miðað við það hvernig það liggur fyrir núna. (Gripið fram í.) Það er ekkert hægt að þræta fyrir það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. (SJS: Það hefur þá ekki verið gott í byrjun.)

Ef við skoðum þá bara meginreglu frv. eins og hún er núna gengur hún út á það að fyrirtæki mega eiga allt að 35% í ljósvakamiðlum. Á þeirri reglu er gerð sú undantekning að þeim fyrirtækjum sem eru í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta og velta yfir tveimur milljörðum króna á ári er einungis veitt heimild til að eiga 5% í slíkum miðlum.

Þá er meginreglan sú að þau útvarpsleyfi sem veitt hafa verið munu halda gildi sínu og renna út miðað við þær forsendur sem leyfin voru veitt á. Það sem meira er, frv. er ívilnandi að því leyti að útvarpsleyfi, t.d. útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar sem að óbreyttu hefði runnið út nú um áramót rennur ekki út fyrr en 1. júní 2006. Frv. eins og það liggur fyrir núna felur beinlínis í sér ívilnun gagnvart þeirri útvarpsstöð og Norðurljósum. Svo leyfa menn sér að halda því fram að þessar breytingar séu sáralitlar. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að þær séu sáralitlar. Þetta er grundvallarbreyting á þeim reglum sem kynntar voru í upphafi, þær eru verulegar og þær eru mjög ívilnandi.

Hvernig stendur á því að framkomnar brtt. hafa verið lagðar fram og hver er ástæða þess að gerðar hafa verið breytingar á frv.? Það liggur fyrir að ríkisstjórnin og allshn. hafa fengið fjölmargar ábendingar frá fræðimönnum, frá þingmönnum, þar á meðal þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna, um að rétt væri að gera tilteknar breytingar á frv. eins og það var í upphafi.

Gagnrýnin á efni frv. eins og það var í upphafi skiptist í rauninni í tvennt, a.m.k. vildu fræðimenn sem komu fyrir allshn., þar á meðal Björg Thorarensen, Ragnhildur Helgadóttir og Sigurður Líndal, meina það. Annars vegar voru gagnrýndar efnisgreinar frv. og hins vegar bráðabirgðaákvæðið. Það var nú þannig og það geta hv. þm. sem sitja í hv. allshn. staðfest að megingagnrýnin laut að bráðabirgðaákvæðinu eins og það var og því atriði sérstaklega að þau leyfi sem að óbreyttu hefðu runnið út á síðari árum, 2007, 2008 og 2009, jafnvel 2010 eins og dæmi eru um, yrðu afturkölluð 1. júní 2006. Því var haldið fram að þetta ákvæði og þessi regla bryti m.a. gegn atvinnufrelsisákvæðum og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Meiri hluti allshn. hefur orðið við athugasemdum eins og þessum í öllum meginatriðum. Við höfum lagt fram brtt. sem mæla fyrir um það að þau leyfi sem þegar hafa verið veitt renni út og verði ekki afturkölluð. Eins og ég sagði áðan höfum við meira að segja gengið svo langt að framlengja um eitt og hálft ár þau leyfi sem að óbreyttu hefðu runnið út nú um áramót. Í ljósi þessa skilur maður ekki hvers vegna þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna og aðrir þeir sem að málinu hafa komið fagna ekki þessum viðamiklu breytingum, af hverju þeir taka ekki undir þessar breytingar sem þeir sjálfir kölluðu eftir hér í þingsalnum við 1. umr., eins og ég mun koma að síðar í ræðu minni.

Sjónarmið starfsmanna fjölmiðlafyrirtækjanna, þar á meðal Norðurljósa, hafa einnig náð eyrum okkar þingmanna stjórnarflokkanna. Ég leyfi mér að nefna þá breytingu að leyfa útgefnum útvarpsleyfum að renna út. Eins og ég sagði áðan gerði upphafleg regla ráð fyrir því að öll leyfi mundu renna út þann 1. júní 2006 ef eigendur fyrirtækjanna hefðu ekki lagað sig að þeim skilyrðum sem fram koma í frv. Með þeirri breytingu sem við erum að leggja til nú liggur fyrir að t.d. útvarpsleyfi Stöðvar 2 rennur ekki út fyrr en í ágúst árið 2007 í stað 1. júní 2006. Útvarpsleyfi Stöðvar 3 mun ekki renna út fyrr en í október 2010 og útvarpsleyfi Sýnar í júlí 2007. Ég hef áður vikið að þeirri breytingu sem snýr að Bylgjunni.

Þetta eru grundvallarbreytingar, frú forseti, og þær eru til þess fallnar að gera þann ótta starfsmanna Norðurljósa sem fram hefur komið um starfsöryggi sitt og lífsviðurværi til framtíðar að engu, að mínu mati.

Það er gömul saga og ný, eins og ég vék að í ræðu minni við 2. umr., að stjórnendur fyrirtækja beita starfsmönnum sínum fyrir sig í þeirri viðleitni sinni að ná fram eigin markmiðum. Þetta er gömul regla og gömul taktík sem menn hafa notað á vinnumarkaði um áratuga skeið. Við sáum að þegar þetta frv. var lagt fram lágu þeir ekki á liði sínu. Það komu yfirlýsingar frá stjórnendum Norðurljósa um að fyrirtækið mundi fara á hausinn, það yrði bútað í sundur og Norðurljós mundu fara á hausinn. Því var haldið fram að þau lán sem fyrirtækið hefði tekið yrðu gjaldfelld. Því var einnig haldið fram að öllum starfsmönnum Norðurljósa yrði sagt upp. Það sem meira er, fréttastofa Ríkisútvarpsins tók þessar yfirlýsingar hráar og trúði þeim eins og nýju neti og flutti fréttir um það að 700 starfsmönnum Norðurljósa yrði sagt upp. Eftir því sem ég best veit hefur þessi frétt reyndar ekki verið borin til baka af fréttastofu útvarpsins eða gerðar á henni nokkrar leiðréttingar.

Ef maður skoðar nú hvað er hæft í þessum yfirlýsingum stjórnenda Norðurljósa og veltum fyrir okkur hversu réttmætar þær eru leyfi ég mér að efast um að Norðurljós muni fara á kúpuna eins og haldið hefur verið fram, eða haldið var fram í upphafi þessarar umræðu. Forsvarsmenn þess fyrirtækis héldu því fram á fundum sínum fyrir hv. allshn. að blaðaútgáfan gæti staðið undir sér og undir þau orð tók Jón Ásgeir Jóhannesson í viðtali sínu við Viðskiptablaðið nú nýverið. Því var einnig haldið fram að sjónvarpsreksturinn gæti staðið einn og sér en það kynni að koma til einhvers samdráttar í útvarpsrekstrinum.

Í ljósi þessara yfirlýsinga hlýtur maður að spyrja sig: Hvernig er hægt að halda því fram að Norðurljós fari beina leið á kúpuna ef þetta frv. verður að lögum, ég tala nú ekki um miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið?

Því var einnig haldið fram að lán Norðurljósa yrðu gjaldfelld, einn, tveir og þrír. Ég hef ekki séð neinar yfirlýsingar frá Landsbankanum sem er helsti lánardrottinn Norðurljósa um að til slíkra aðgerða verði gripið. Það er raunar þannig að þegar fyrirtæki komast í kröggur og geta ekki staðið undir lánaskuldbindingum sínum er það ekki þannig að lánardrottnarnir keyri fyrirtækin í kaf, gjaldfelli lán og keyri þau í gjaldþrot. Menn leita leiða til að halda rekstrinum áfram til að tryggja hagsmuni sína. Það er engin undantekningarregla frá því sem gildir um Norðurljós. Þar fyrir utan hefur ekkert komið fram í umræðunni sem styður fullyrðingar um að þessi lán yrðu gjaldfelld. Það væri ágætt ef einhverjir hv. þm. gætu upplýst mig um hvort svo væri.

Eins og ég sagði er það líka rangt að öllum starfsmönnum Norðurljósa verði sagt upp þrátt fyrir að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi haldið því fram. Ég leyfi mér að benda á að félmrn. hefur ekki verið tilkynnt um það enn þá að gripið verði til hópuppsagna eins og gefið var í skyn við upphaf þessa máls. Ekki hafa komið neinar tilkynningar til félmrn. um það eins og er þó lögbundið samkvæmt lögum um hópuppsagnir.

Það kom líka fram á fundum allshn. að engum starfsmanni Norðurljósa hefði verið sagt upp síðan frv. kom fram. Það var spurt sérstaklega út í það á fundum nefndarinnar. Síðast í gær kom fram hjá stjórnendum Norðurljósa að engum starfsmanni hefði verið sagt upp eða yrði sagt, heldur mundi fyrirtækið gefa í í rekstri sínum og auka hann. Maður veltir fyrir sér hvers vegna í ósköpunum allar þessar yfirlýsingar hafi verið gefnar í upphafi. Og hvar var formaður Blaðamannafélagsins þegar þessar yfirlýsingar stjórnenda Norðurljósa voru gefnar? Hann er með grein í Morgunblaðinu í dag, Róbert Marshall, formaður Blaðamannafélagsins, sem áður hefur látið að sér kveða í þessari umræðu, og segir, með leyfi forseta:

,,Allra nýjustu breytingarnar á fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar duga ekki til að draga úr þeirri óvissu sem blasir við starfsmönnum Norðurljósa um afkomu þeirra og lífsviðurværi í framtíðinni.``

[14:30]

Hvar var fréttamaður Stöðvar 2 þegar stjórnendur Norðurljósa gáfu yfirlýsingar sem ganga þvert á þessar yfirlýsingar formanns Blaðamannafélagsins og starfsmanns Norðurljósa sem fram koma í Morgunblaðinu í dag? Hvar var hann þegar þessar yfirlýsingar voru gefnar? Hvernig í ósköpunum á maður að taka menn eins og formann Blaðamannafélagsins alvarlega þegar hann heldur svona löguðu fram, þvert ofan í það sem hans eigin yfirmenn hafa lýst yfir? Nei, það er rétt sem komið hefur fram, að framganga hans í málinu á fyrri stigum hefur ekki gert það að verkum að hann sé sérstaklega trúverðugur. En þessar yfirlýsingar bæta ekki stöðuna hvað hann varðar.

Á fundi allshn. komu starfsmenn og starfsmannafélög Norðurljósa og hinn vörpulegi íþróttafréttamaður og Húsvíkingur, Arnar Björnsson, íþróttafréttamaður á Sýn og Stöð 2, sagði að starfsmenn Norðurljósa hefðu verið neyddir til að taka afstöðu til þessa frv. Ég held að þessi orð Arnars Björnssonar séu hárrétt og í þeim felist mikill sannleikur. Með yfirlýsingum stjórnenda fyrirtækisins voru starfsmenn að sjálfsögðu neyddir til að taka afstöðu til frv. Þeir voru neyddir til þess að taka afstöðu gegn frv. vegna þess að miðað við þær yfirlýsingar áttu allir starfsmenn Norðurljósa, þar á meðal starfsmenn fyrirtækisins BT-tölvur, sem selur tölvubúnað og sjónvörp, það á hættu að missa starf sitt.

Því var líka haldið fram að fyrirtækið færi á hausinn. Það er alveg rétt sem Arnar Björnsson segir, að starfsmennirnir voru neyddir til þess að taka afstöðu í málinu og afstöðu gegn frv. En það var ekki á neinum málefnalegum forsendum eins og ég hef rakið í ræðu minni. (ÖS: Heldur hverju?) Maður hlýtur einnig að vissu leyti að kenna í brjósti um þá starfsmenn og blaðamenn sem starfa á miðlum sem þetta fyrirtæki rekur. Hvernig geta starfsmenn þessara fjölmiðla fjallað af hlutleysi um málið sem hér er til umræðu í ljósi yfirlýsinga stjórnenda félagsins? Hvernig er það hægt? Þeim er algjörlega stillt upp við vegg með yfirlýsingum yfirmanna sinna.

Ég tel, frú forseti, að með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á frv. hafi verið komið til móts við sjónarmið þessa fólks, þar á meðal sjónarmið starfsmanna Norðurljósa sem hafa lýst yfir áhyggjum af framtíð sinni og framtíð starfa sinna. Þær breytingar sem við höfum gert á þessu frv. fela í sér að þau útvarpsleyfi og sú starfsemi sem þeirra störf byggja á breytast ekki heldur munu halda gildi sínu eins og ákveðið var þegar þessi leyfi voru veitt.

Ég vék áðan að dularfullri og óvæntri stefnubreytingu stjórnarandstöðuflokkanna til þess sem kallað hefur verið sértæk löggjöf, með vísan til SPRON-málsins. Spurningum mínum um þessa stefnubreytingu hefur í sjálfu sér ekki verið svarað, hvorki í þessari umræðu eða hinum fyrri. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom reyndar upp í andsvar og lýsti því yfir að hann teldi að SPRON-lögin og SPRON-málið hefði ekki falið í sér sértæka löggjöf. Ég tel reyndar að þegar menn skoða það mál og rifja upp umræðuna sem átti sér stað í tengslum við það mál sé morgunljóst að sé til einhver löggjöf sem hefur verið sértæk þá hafi svo verið í SPRON-málinu.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samf., kom einnig upp í andsvar við mig í 2. umr. og skýldi sér á bak við það að hún hefði ekki verið á þingi þegar það mál kom hér til umræðu, varaformaður næststærsta stjórnmálaflokksins á Alþingi, sem hefur nú ekki legið á liði sínu við það að stýra stefnu flokksins varðandi einstök þingmál eða mál sem lúta að pólitískri umræðu. Auðvitað saknar maður þess að fá ekki svör við því frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna hvað olli þessari stefnubreytingu, hvort hún snýr að sértækri löggjöf almennt eða hvort það skipti máli að hvaða fyrirtækjum hún beinist.

Ég hef leitt að því rök sem ekki hafa verið hrakin að það skipti máli, varðandi afstöðu Samf. til sértækrar lagasetningar, að hvaða fyrirtæki slík lagasetning beinist. Það gefur augaleið. Samf. er alveg sama um það þótt að hér séu sett lög um SPRON. En þeim er ekki sama þegar slík löggjöf snýr að öðrum fyrirtækjum.

Það er líka athyglisvert og í raun sorglegt að sjá þá kúvendingu sem átt hefur sér stað varðandi afstöðu einstakra þingmanna Samf. til efnisatriða þessa máls og þeirra fyrirtækja sem oft eru nefnd í þessari umræðu. Sú kúvending er algjörlega augljós. Ég get nefnt hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formann Samf. sem dæmi um það. Frægt er bréf hans til stjórnenda Baugs þar sem hann hellti úr skálum reiði sinnar yfir það fyrirtæki og þá sem því stjórna.

Einnig eru fræg ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar héðan af Alþingi, frá 22. janúar 2002, þar sem hv. þm. sagði, með leyfi forseta:

,,Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.``

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sparaði ekki stóru orðin í það skiptið. En núna, þegar það hentar hagsmunum hans, þá er ekkert að því að mesta samþjöppun sem um getur í heiminum eigi sér stað á fjölmiðlamarkaði. Það skiptir engu máli að það fyrirtæki sem hann lét þessi orð falla um gegni lykilhlutverki í þeirri samþjöppun.

Það er líka athyglisvert að sjá hvaða efnislega breyting hefur orðið á afstöðu þingmanna Samf. til þess máls sem hér er til umfjöllunar. Ég leyfi mér að rifja upp að fyrir nokkrum árum lögðu tveir þingmenn, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Lilja Guðmundsdóttir, þá þingmenn Þjóðvaka, fram þáltill. um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun. Lilja Guðmundsdóttir sat þá sem varamaður og er horfin af þingi, en Ásta Ragnheiður situr enn á þingi fyrir Samf.

Hvað ætli þær hafi nú sagt í greinargerð með tillögu sinni, með leyfi forseta:

,,Því er oft haldið fram að vald fjölmiðla hafi aukist í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að þeir eru mikilvægasti gluggi samfélagsins, bæði okkar eigin samfélags og annarra fjarlægari. Víst er að notendum fjölmiðla og tölvutækni fjölgar stöðugt, hvort heldur er til afþreyingar, fræðslu eða tjáskipta. Fjölmiðlaþróunin býður upp á gífurlega möguleika, en hún á sér einnig neikvæðar hliðar. Virk fjölmiðlastefna getur því skipt sköpum ef við viljum hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum.

Eignasamruni og samþætting fjölmiðlafyrirtækja og stýring fjölmiðla í hvaða formi sem er getur haft hættuleg áhrif á tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði í samfélaginu. Því hlýtur að vera verkefni hins opinbera að tryggja að fjölmiðlar bjóði upp á fjölbreytt efni. Huga þarf að eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja og koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaðnum að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað. Jafnframt ber að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki sem augljóslega gæti haft áhrif á tjáningarfrelsið.``

Hvar eru þessir þingmenn nú? Þeir hlaupast undan fyrri orðum sínum. Það er ekkert að marka það sem þessir hv. þingmenn sögðu hér í eina tíð. Nú eru þeirra eigin orð dauður bókstafur og ómerk.

Ég leyfi mér að vísa til þess sem fram kom á Alþingi fyrr á þessu ári þegar ég og hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson fjölluðum hér um frumvarp sem miðar að því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og einkavæða það. Hver voru þá helstu mótrök stjórnarandstöðuflokkanna, sérstaklega hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, gegn því frv.? Jú, þau voru að það mætti ekki einkavæða Ríkisútvarpið, eins og við höfum lagt til í þingmáli okkar, vegna þess að hætt væri við því að annar fjölmiðlarisi, Norðurljós, mundi gleypa Ríkisútvarpið og standa einn að rekstri ljósvakamiðla hér á landi. Nú liggja fyrir tillögur um að tryggja dreifða eignaraðild að fjölmiðlum og þá heyrist ekki múkk í þessum höfðingjum.

Hvernig er hægt að trúa því sem þessir stjórnmálamenn segja? Hvernig er hægt að taka það fólk alvarlega sem hagar málum sínum með þessum hætti? Ég get að það ekki a.m.k. ekki.

Ég sagði fyrr í ræðu minni að meiri hluti allshn. hefði tekið tillit til þeirra ábendinga og athugasemda sem fram hafa komið af hálfu fræðimanna og ekki síður þingmanna í umræðu um málið. Í 1. umr. um þetta mál sagði hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálsl., með leyfi forseta:

,,Ég held að fjöldamargt þurfi að skoða í málinu. Það er ekki hægt að tala um það með þeim hætti sem hér er upp sett, um það verður ekki sátt. Þar með er ég ekki að segja, hæstv. forseti, að ekki megi ná einhverri lendingu um eignarhald á fjölmiðlum og einhverri takmörkun í kringum það.``

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði jafnframt:

,,Er skynsamlegt að leggja upp með frv. eins og það er í pottinn búið, að aðilar sem með einhverjum hætti eru með markaðsráðandi stöðu í einhverri starfsemi megi ekki eiga krónu í útvarpsfjölmiðlun ...?``

[14:45]

Hv. formaður Frjálslynda flokksins bætti síðan við, með leyfi forseta:

,,Það hlýtur líka að verða að spyrja þeirrar spurningar hvort uppsetningin á 1. gr., einkanlega a-liðnum, teljist eðlileg eins og hún er sett fram. Að fyrirtæki, þó þau eigi markaðsráðandi stöðu í einhverri starfsemi hér á landi, megi ekki eiga nokkurn hlut í fjölmiðlum. Einnig er áleitin spurning hvort tvö ár séu eðlilegur aðlögunartími í því sambandi þegar ætlast er til þess að fyrirtæki sem nú eiga í frjálsri fjölmiðlun hér á landi fari algjörlega út úr þeirri starfsemi. Ég tel að slík umgjörð í lagasetningu sé ekki ásættanleg og ekki eðlileg framsetning á málinu.

Ef niðurstaða manna við yfirferð og skoðun á málinu verður sú að nauðsynlegt sé að breyta eignarhaldinu verulega frá því sem nú er tel ég að í fyrsta lagi þurfi lengri aðlögunartíma og í öðru lagi sé órökrétt að banna fyrirtækjum, þó stór séu og markaðsráðandi, að eiga aðild í útvarps- og sjónvarpsrekstri. Mér finnst að skoða þurfi vandlega hvaða reglur menn ætla að setja í því sambandi og ítreka að eins og frv. er fram sett tel ég það óásættanlegt og of harkalega að verki staðið og hef að mínu mati ekki fengið sannfærandi rök fyrir því að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki með neinum hætti eiga í útvarpsrekstri.``

Þetta sagði Guðjón A. Kristjánsson, frú forseti. Maður skyldi nú ætla að Frjálslyndi flokkurinn og formaður hans mundi taka undir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu ef hægt er að taka eitthvað mark á umræðum og ummælum hv. þm. við 1. umr.

Hann nefnir tvö atriði. Hann nefnir það að hann telji óeðlilegt að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki eiga neitt í ljósvakafjölmiðlum og að það sé óaðgengilegt að veitt útvarpsleyfi verði afturkölluð með svo stuttum fyrirvara. Nú hafa verið gerðar grundvallarbreytingar á þessum tveimur ákvæðum sem hv. þm. nefndi sérstaklega að hann teldi að væru frumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi til vansa. Maður hlýtur að spyrja: Er ekki hægt að taka mark á því sem hv. þm. sagði við 1. umræðu og eru þær breytingar sem nú hafa verið kynntar ekki í fullkomnu samræmi við þessar athugasemdir sem hv. þm. gerði við 1. umr.

Hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon er annar þingmaður, og formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem hefur látið sér kveða í þessari umræðu, þar á meðal í 1. umr. um málið. Sá hv. þm. hefur gefið sig sérstaklega út fyrir að vera málefnalegur stjórnmálamaður þó svo að það hafi kannski aðeins verið varpað skugga á þá ímynd nú á síðustu dögum og deila megi um það hversu málefnaleg hans framganga í þessu máli hafi verið á stundum. En sá hv. þm. hefur gefið sig út fyrir að vera málefnalegur og að treysta megi hans orðum eins og nýju neti. Við 1. umr. um þetta mál sagði hv. þm., með leyfi forseta:

,,Hvernig viljum við hafa reglurnar til lengri tíma litið? Við þurfum að svara spurningunni um hvort það felist hættur í ástandinu eins og það er eða gæti orðið. Þá er mitt svar já.

Ég held því hiklaust fram að það felist hættur í að leyfa ótakmarkaða samþjöppun og hafa engar reglur sem komi í veg fyrir að stóraðilar á öðrum sviðum viðskipta geti þess vegna lagt alla einkareknu fjölmiðlana í landinu undir sig.

Áfram hélt hv. þm., með leyfi forseta:

,,Það er mikill barnaskapur að sjá ekki að aðstæðurnar sem hér hafa verið að skapast bjóða upp á tortryggni. Þær bjóða tortryggni heim.``

Síðar í ræðu sinni kemur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að kjarna gagnrýni sinnar á frumvarpið eins og það var þegar það var lagt hér fram 28. apríl síðastliðinn. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég tel að það gangi mjög langt að segja að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta megi ekki eiga eina einustu krónu í fjölmiðlafyrirtæki, í ljósvakamiðli. Það er stór spurning hvort menn eiga að fara þá leið að segja bara núll prósent.``

Áfram heldur hv. þm., með leyfi forseta:

,,Þarna er spurning um hvort setja mætti þak sem miðaðist við tiltölulega lága prósentu, hvort það væri ekki sanngjarnara og raunhæfara.``

Á þessi sjónarmið höfum við í meiri hluta allsherjarnefndar fallist. Við höfum fallist á gagnrýni hv. þm. sem fram kom í 1. umr. um málið.

En það var annað atriði, frú forseti, sem hv. þm. gagnrýndi. Hann sagði við lok sinnar ræðu, með leyfi forseta:

,,Að síðustu vil ég segja, herra forseti, um gildistöku\-ákvæði frumvarpsins að þau tel ég alls ekki ganga eins og þau eru úr garði gerð. Mér finnst lágmark að þegar útgefin útvarpsleyfi haldi gildi sínu og lagaskilin séu með þeim hætti að menn hafi hið minnsta tveggja til þriggja ára aðlögunartíma óháð þeim leyfum sem þeir hafa í höndunum en til viðbótar gildi öll þegar útgefin útvarpsleyfi þar til þau renna úr gildi og þarf að endurnýja þau, þá á grundvelli hinna nýju reglna.``

Út á hvað gengur sú breytingartillaga sem lögð hefur verið fram nú fyrir 3. umr. þessa frumvarps? Hún gengur út á nákvæmlega það sem hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon sagði í 1. umr. um málið, nákvæmlega það sem hann hélt fram. Og svo er því haldið fram í sölum Alþingis að það sé ekki tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram koma meðal annars frá stjórnarandstöðunni varðandi efnisatriði þessa máls. Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi þessara ummæla sem ég hef hér rakið orðrétt með tilvitnun í hv. þm. hvort hann telji ekki rétt í ljósi þess sem hann hefur þegar sagt og í ljósi þess hversu mikið hann gerir úr því að hann sé málefnalegur stjórnmálamaður og að trúa megi hans orðum eins og nýju neti, hvort ekki megi gera ráð fyrir því að hv. þm. styðji þessar breytingartillögur sem fram hafa komið af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar og eru í algeru samræmi við það sem hann hefur sagt í þessari umræðu. Ég tel að sé hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon samkvæmur sjálfum sér ætti hann og þingflokkur hans að styðja frumvarpið eins og það liggur fyrir nú því að eins og sjá má og ég hef rakið þá höfum við þingmennirnir í meiri hluta allsherjarnefndar tekið fullt tillit til þeirra athugasemda sem hann færði fram við 1. umr. Það verður athyglisvert að fá skýringar hv. þm. á því ef svo verður ekki. (SJS: Þær skaltu fá.)

Fleiri liðsmenn úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa látið sig þetta mál varða þrátt fyrir að þeir séu kannski ekki allir þingmenn á hinu háa Alþingi. Katrín Jakobsdóttir sem hvorki er meira né minna en varaformaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Sverrir Jakobsson sagnfræðingur sem er reyndar bróðir Katrínar og gegnir meðal annars trúnaðarstörfum fyrir R-listann í Reykjavík hafa nýlega fjallað opinberlega um fjölmiðlafrumvarpið og ástand á fjölmiðlamarkaði. Varaformaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs segist í grein sinni á vefsíðunni Múrnum hafa gaman af því sem hún kallar bræði Samfylkingarinnar og bætir svo við í sinni grein, með leyfi forseta:

,,Væri tónninn ekki annar ef Berlusconi væri til umræðu en ekki Baugur? Vissulega er gaman að því að Baugur skuli velgja ráðamönnum undir uggum en færi gamanið ekki að kárna ef fjölmiðlarisi í sömu aðstöðu styddi ríkjandi stjórnvöld? Hvað yrði þá um gagnrýna umræðu í þjóðfélaginu?

Því er nauðsynlegt fyrir skynsamt fólk að missa ekki sjónar á málefnagrundvelli þessa frumvarps. Það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða eignarhald fjölmiðla, réttindi og skyldur þeirra og fleira þvíumlíkt. Sú umræða má ekki hverfa ofan í skotgrafir þar sem fólk er annaðhvort með Davíð eða á móti, með Norðurljósum eða á móti.

Fjölmiðlar hafa mikilvægri skyldu að gegna sem fjórða valdið --- aðrar en fyrirtæki, segjum í tískugeiranum eða á matvælamarkaði --- fjölmiðlar hafa upplýsandi og gagnrýnið hlutverk gagnvart stjórnvöldum og almenningi.``

Það er ekki oft sem ég er sammála varaformanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs en ég get ekki betur séð en að í þessu greinarkorni sem ég vitnaði í að hluta sé hún að taka undir þau sjónarmið sem við í stjórnarliðinu höfum haldið hér fram um málflutning stjórnarandstöðunnar.

Grein Sverris Jakobssonar sagnfræðings gæti ekki síður orðið ýmsum þingmönnum til upplýsingar, ekki síst flokksfélögum hans sem af óútskýrðum ástæðum virðast ætla að hlaupa frá margítrekaðri afstöðu sinni til samþjöppunar og náinna eignatengsla og fyrri ummæla um það frumvarp sem hér er til umræðu eins og ég hef rakið. Sverrir Jakobsson skrifaði nefnilega grein um fjölmiðlalög og mannréttindayfirlýsingu Evrópu í þetta sama vefrit, Múrinn, þann 28. apríl 2004. Ég ætla að lesa það upp sem Sverrir segir þar vegna þess að hér í salnum eru tveir flokksfélagar hans, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, með leyfi forseta:

,,Í umræðu um nýtt fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefur heyrst það sjónarmið að sérstök löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum sé óþörf enda dugi samkeppnislög til þess að koma í veg fyrir fákeppni. Þetta viðhorf er nokkuð á skjön við þá umræðu sem nú er efst á baugi í hinum vestræna heimi. Hér á eftir verður stuðst við samantekt Þorbjörns Broddasonar um ,,[r]eglur um eignarhald á fjölmiðlum í nokkrum löndum`` en upplýsingar sem þar er að finna eru einkum fengnar úr ritinu World Press Trends 2003.

Þá er fyrst að benda á að í 10. grein mannréttindayfirlýsingar Evrópu er ákvæði sem leggur ríkjum á herðar skyldu til að vernda og efla ,,margradda fjölmiðlun``. Þetta merkir að ríkisvaldið er gert ábyrgt fyrir því að fjölbreyttar skoðanir heyrist og upplýsingar nái til almennings. Jafnframt virðist ríkja einhugur um að samkeppnislög dugi ekki ein og sér þar sem þau taki ekki á kröfunni um menningarlega fjölbreytni.

Til að bregðast við 10. grein mannréttindayfirlýsingarinnar settu Norðmenn lög um eignarhald á fjölmiðlum þar sem kemur fram að einstaklingur eða lögaðili megi helst ekki ná yfirráðum yfir þriðjungsstöðu á markaði tiltekins fjölmiðils (dagblaða, útvarps eða sjónvarps) án opinberra afskipta með uppkaupum eða sameiningu miðla. Í Danmörku eru lög um að aðili sem rekur ljósvakamiðil megi ekki stunda nokkurn annan rekstur. Reglur í Svíþjóð gera það að verkum að ólíklegt er að blaðaútgefandi geti fengið leyfi til að reka sjónvarpsstöð. Í Finnlandi hafa stjórnvöld verið treg til að veita blaðaútgefendum leyfi til að reka ljósvakamiðla. Í þessum löndum eru hins vegar engar sérstakar reglur um eignarhald á blöðum.

Á hinn bóginn hafa reglur til að takmarka fákeppni verið rýmkaðar í Bretlandi, markaðshlutdeildarþröskuldur hefur verið afnuminn og bann við að sami aðili geti rekið tvær sjónvarpsstöðvar í London var afnumið. Rupert Murdoch hlýtur að una glaður við sitt.

Í Frakklandi má sami aðili reka tvennt af fjóru, jarðnetssjónvarp, kapalsjónvarp, útvarp og dagblöð. Sami aðili má ekki hafa yfir 30% hlutdeild á dagblaðamarkaði.

Í Bandaríkjunum gildir sú meginregla að sjónvarpseigandi megi ekki eiga fleiri en eina sjónvarpsstöð á sama svæði og enginn má ráða yfir meira en 35% af sjónvarpsmarkaðnum á landsvísu. Þá má enginn eiga blað og sjónvarp á sama svæði og útlendingum er bannað að eiga nema fjórðungshlut í ljósvakamiðli.

Á Ítalíu eru umfangsmiklar reglur um blaðaútgáfu en fákeppni ríkir á sjónvarpsmarkaði þar sem sjónvarpsstöðvar í eigu Silvio Berlusconis ráða yfir 60% af auglýsingamarkaði. Hann er jafnframt forsætisráðherra og nýtur þingmeirihluta, en þingið skipar stjórn ítalska ríkisútvarpsins. Þannig má ætla að forsætisráðherra ráði yfir 90% af því sjónvarpi sem Ítalir horfa á. Þess má geta að dagblaðalestur er lítill á Ítalíu en 82% landsmanna fá fréttir eingöngu úr sjónvarpi.``

Að lokum segir Sverrir:

,,Af framansögðu má ráða að löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi væri í samræmi við það sem tíðkast í flestum ríkjum hins vestræna heims.``

Í samræmi við það, frú forseti, sem tíðkast í flestum ríkjum hins vestræna heims.

,,Þar má hins vegar benda á nokkrar undantekningar, einkum Bretland og Ítalíu. Athyglisvert er að í þessum löndum eru áhrif ,,fjölmiðlakónga`` á borð við Rupert Murdoch og Silvio Berlusconi einna mest og geta þeir beitt þeim óspart til að hafa áhrif á almenningsálitið og torvelda lagasetningu.``

Ég ætla að lesa þessa lokasetningu aftur upp fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon (Gripið fram í.):

,,Athyglisvert er að í þessum löndum eru áhrif ,,fjölmiðlakónga`` á borð við Rupert Murdoch og Silvio Berlusconi einna mest og geta þeir beitt þeim óspart til að hafa áhrif á almenningsálitið og torvelda lagasetningu.``

Ég held að þetta hafi verið holl lesning fyrir hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon (SJS: Það er búið að lesa þetta reyndar.) vegna þess að þarna lýsa þessir tveir frammámenn í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í raun yfir stuðningi við það frumvarp sem hér er til umræðu með þeim breytingum sem komnar eru fram á því. Ég sé að hv. þm. Þuríður Backman hefur bæst við í salinn líklega vegna þess að lestur minn og síteringar í þessa tvo liðsmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa vakið sérstakan áhuga hennar. (ÞBack: Það má segja það.)

Ég held, virðulegi forseti, að með vísan til þess sem þessir frammámenn í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sögðu og með vísan til þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði við 1. umr. um þetta fjölmiðlafrumvarp hljóti Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og þingmenn þess stjórnmálaflokks að styðja þær breytingar sem fram hafa komið á frumvarpinu. Það verður mjög athyglisvert að heyra þær útskýringar sem fram koma hjá hv. þingmanni ef svo er ekki.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri en ég tel að í henni hafi ég fært veigamikil rök fyrir því að þær breytingar sem gerðar hafa verið í meðförum allsherjarnefndar á þessu frumvarpi eru mjög verulegar og þær koma til móts við þau sjónarmið og þær athugasemdir sem fram hafa komið frá fræðimönnum, frá þingmönnum hvort sem þeir eru úr stjórnarflokkunum eða stjórnarandstöðuflokkunum, frá þeim sem reka fjölmiðla á ljósvakamarkaði, úr þjóðfélaginu og frá starfsmönnum þessara fyrirtækja. Ég leyfi mér að hafna því alfarið að þessar breytingar séu sáralitlar og ekki raunverulegar. Þær eru þvert á móti verulegar og þær fela í sér mikla breytingu á því frumvarpi sem lagt var fram þann 28. apríl síðastliðinn.

Ég tel að með frumvarpinu eins og það liggur fyrir nú sé fjölbreytni í fjölmiðlun og eignarhaldi tryggt. Ég tel að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir sé verið að taka undir þau sjónarmið sem ég reifaði í ræðu minni í 2. umr. og sem fram koma í grein Sigurðar Líndals um stjórnarskrá og mannréttindi þar sem Sigurður víkur að því að það sé mjög mikilvægt í umræðunni um mannréttindi, af því að hún hefur verið mjög mikil á hinu háa Alþingi í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið, að það verði að líta á mannréttindin almennt en ekki sértækt. Með mannréttindaákvæðum og mannréttindayfirlýsingum verður að tryggja réttindi og mannréttindi almennings, tryggja lýðræðið í þjóðfélaginu. Menn mega ekki skáka í skjóli mannréttindanna fyrst og fremst í þágu sérhagsmuna einstakra aðila.

Ég leyfi mér í lok þessarar ræðu að gera orð míns gamla kennara, Sigurðar Líndals, að mínum lokaorðum. Ég leyfi mér að gera þessi orð að mínum sem fram koma í hans ágætu grein um stjórnarskrá og mannréttindi. Þau eiga svo ljómandi vel við í þeirri umræðu sem hér á sér stað um þetta fjölmiðlafrumvarp og ýmsir, sérstaklega þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna, ættu að velta þeim fyrir sér vegna þess að í þessari umræðu hefur óneitanlega borið nokkuð á þeim sjónarmiðum sem Sigurður víkur að í þessari grein sinni. Ég ætla nú að lesa þau upp og gera að mínum lokaorðum, með leyfi forseta:

,,Afleiðing þessa misvægis hagsmuna verður þá sú að þeir sem láta sig mannréttindi almennt varða missa heildarsýn og ganga sérhagsmunahópum á hönd, vitandi og óafvitandi, en tækifærissinnaðir stjórnmálamenn elta hópana á víxl í von um stundarfylgi. Þannig þoka almannahagsmunir smám saman fyrir sérhagsmunum og ríkisvald sem á að gæta almannaheilla missir mátt til að verjast þessum ágangi og miðla málum milli hinna ólíku hagsmuna, ekki síst að rétta hlut þeirra sem minnst eiga undir sér. Almenn mannréttindi verða sérréttindi þeirra sem hafa völd og áhrif; mannréttindin snúast upp í andhverfu sína.``

Það er akkúrat þetta sem við erum að tryggja sem stöndum að þeim breytingartillögum sem gerðar hafa verið á þessu frumvarpi og sjónarmið þeirra sem leggja þetta frumvarp fram, það er að segja ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, eru að tryggja hagsmuni almennings, tryggja lýðræðislega umræðu, tryggja aðgang allra að ljósvakamiðlunum og rekstri fjölmiðla og tryggja það að sjónarmið allra fái að heyrast í þjóðfélagsumræðu.