Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:08:13 (8677)

2004-05-19 15:08:13# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu sinni á dögunum sagði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að honum þætti það aðfinnsluvert og í raun mjög hættulegt gagnvart lýðræðislegri umfjöllun í landinu að foringjar stjórnarflokkanna tækju upp á sitt eindæmi ákvörðun um með hvaða hætti setja ætti lög sem hér eru til umræðu. Ekki eru til neinar samþykktir um þessi mál, hvorki hjá Sjálfstfl. né Framsfl. Ég vil í því ljósi upplýsa hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að í mínum flokki, Frjálsl., dytti okkar ágæta formanni aldrei í hug að koma fram með slíka hluti og skipa svo eftirleiðis öðrum hv. þm. fyrir hvaða leið þeir eigi að fara í málinu. Þetta segir okkur hvernig komið er fyrir lýðræðinu í landinu. Það staðfestir sá fjöldi sem mætti á Austurvöll í hádeginu. Það er traðkað á lýðræðinu af stjórnarflokkunum. Það er traðkað á lýðræðinu innan Alþingis. Og það er traðkað á lýðræðinu í landinu sem við búum í, Íslandi. (Forseti hringir.) Því spyr ég hv. þm.: Var því svona farið hjá þingflokki Sjálfstfl. í þessu máli?

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða tímann þegar hann er svo skammur.)