Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:09:38 (8678)

2004-05-19 15:09:38# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Spurt var um lýðræði innan stjórnarflokkanna. Ég vil fyrst segja um það að ég get ekki svarað neinu um hvaða vinnubrögð eru viðhöfð innan Framsfl. og mér er nokk sama hvaða viðbrögð eru viðhöfð innan Frjálsl. Ég get bara lýst því að vinnulagið sem á sér stað innan Sjálfstfl. og þingflokks Sjálfstfl. er mjög lýðræðislegt. Það er fráleitt að halda því fram að mönnum sé skipað út og suður til þess að gera einhverjar breytingar. Ég veit ekki betur en við höfum setið á mörgum fundum, óbreyttir þingmenn Sjálfstfl., hlustað á sjónarmið allra þeirra aðila sem komu fyrir nefndina og lagt fram brtt. við frv. Ætlar hv. þm. að halda því fram að við hv. þingmenn í allshn. höfum ekkert haft um það að segja hvers efnis þær brtt. eru sem við höfum (Forseti hringir.) sjálfir gert við frv.? Það er algjörlega fráleitt.