Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:10:54 (8679)

2004-05-19 15:10:54# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. hóf mál sitt á því að kvarta undan ómálefnalegum ræðum stjórnarandstæðinga í fyrri hluta umræðunnar. Ég mótmæli því eins og ég hef reyndar gert í ræðu minni fyrr í dag. Ræður okkar hafa verið málefnalegar. En ég þakka hv. þm. fyrir að vera nú það framarlega á mælendaskrá að við getum skipst á skoðunum við hann og ég sé að fleiri stjórnarliðar eru framarlega á mælendaskránni núna og er það vel.

Ég vil spyrja hv. þm. sem spyr hér með nokkurri vandlætingu hvernig hægt sé að taka mark á hinum og þessum þingmönnum? Það er lafhægt að snúa spurningunni við og spyrja: Hvernig er hægt að taka mark á þeim þingmanni sem nú talar með þeim hætti sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerir, þegar þingmaðurinn hefur haldið því fram jafnt í ræðu sem riti að viðskiptalífið eigi að fá frelsi til að þroskast og dafna án afskipta hins opinbera? Hv. þm. hefur jafnvel haldið því fram að afnema beri samkeppnislög því að markaðurinn muni sjálfkrafa leita jafnvægis. Nú spyr ég hv. þm.: Hvað hefur breyst? Hvernig rökstyður hv. þm. slík sinnaskipti?