Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:18:45 (8685)

2004-05-19 15:18:45# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki undarlegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skuli vera viðkvæmur fyrir þessu atriði. Ég tel að það sé mikilsvert að útvarpsleyfin fái að renna út, vegna þess að annað hefði verið fáheyrt og óheyrilegt í þjóðfélagi sem byggir á lögum og reglu. Það hefði verið þannig til afspurnar að menn hefðu talið að núverandi stjórnvöld væru ekki í jafnvægi til þess að stjórna landinu, vegna þess að það er mikilvægt að atvinnulífið hafi ákveðinn stöðugleika til að búa við. Og það að fara fram með þeim hætti að svipta menn útvarpsleyfi til þess að þurfa ekki að láta skaprauna sér af fjölmiðlum sem eru þeim andstæðir með einhverjum hætti er náttúrlega mjög sérkennilegt. Ég tel líka að með frv. sé brotið blað að því leyti að þar er í fyrsta skipti einhverjum aðila á Íslandi bannað að gefa út dagblað. Það er algjörlega nýtt í 149 ára sögu prentfrelsis í landinu.