Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:01:51 (8689)

2004-05-19 17:01:51# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að ræða í viðbót nokkur atriði þessa máls hér við 3. umr. sem hófst fyrr í dag, á öndverðum þessum degi, og á sjálfsagt eftir að standa enn um hríð ef að líkum lætur. Það hefði verið gaman að hafa viðstadda einhverja hæstv. ráðherra og hv. formann allshn. Sérstaklega áhugavert væri auðvitað að til svara væru hér af hálfu Framsfl. einhverjir ráðamenn í þeim flokki. Framsfl. er heilmikill örlagavaldur í þessu máli með stuðningi sínum við framlagningu frv. í byrjun og væntanlega stuðningi sínum, a.m.k. að uppistöðu til, við lögfestingu eða lögtöku þess hér á Alþingi einhvern tímann á næstu sólarhringum ef að líkum lætur. Þannig axlar auðvitað Framsfl. alla ábyrgð á þessu máli.

Ég ræddi lítillega áður en ég gerði hlé á máli mínu fyrir þingflokksfundarhlé framgöngu formanns Framsfl., Halldórs Ásgrímssonar, sem á á prenti alveg dæmalaust makalausa yfirlýsingu um efa sinn um það að málið hafi staðist stjórnarskrá eins og það var upphaflega fram borið af honum sjálfum, þingflokki hans, ríkisstjórninni og meiri hluta hennar á Alþingi. Það er með miklum ólíkindum að menn skuli gefa sjálfum sér og framgöngu sinni einkunn af því tagi sem hæstv. utanrrh. hefur þar gert. Ég trúi því að mörgum stuðningsmönnum Framsfl. sem verið hafa hingað til --- og kann nú að fara nokkuð fækkandi, spái ég --- þyki þetta athyglisverð yfirlýsing. Nú er vitað að það er mikil ólga í Framsfl. út af þessu máli. Það er andstaða við það að flokkurinn láti hafa sig í það og taki þátt í vinnubrögðum af þessu tagi. Fjölmörg framsóknarfélög hafa ályktað gegn málinu og krafist þess að það verði látið bíða. Nú síðast hafa framsóknarmenn í Reykjavík undir forustu leiðtoga síns, Alfreðs nokkurs, ályktað um það.

Þá er sennilega ekki gott, og má kalla salt í sárin hjá þessu fólki, að formaður Framsfl. lýsi því opinberlega yfir að hann hafi haft miklar efasemdir um að málið stæðist stjórnarskrána eins og það var upphaflega fram borið en telji að vísu að það fari skánandi og segir að sér líði talsvert betur orðið vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á málinu eða eru fyrirhugaðar til að það dragi úr líkunum á að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Hvað segir formaður allshn. um þessa yfirlýsingu formanns Framsfl.? Hafa þeir rætt þetta mál? Kom formaður Framsfl. til formanns allshn. og ræddi við hann um áhyggjur sínar af því að frv. í upphaflegri mynd sinni hefði sennilega brotið í bága við stjórnarskrána og útskýrt í hverju það fólst o.s.frv.? Ég verð að segja að ansi léttúðugt er umhverfið í þessu ef menn láta svona yfirlýsingu eins og vind um eyru þjóta.

Auðvitað er staðan sem Framsfl. er í í þessu máli öllu saman og öllu þessu samhengi með miklum endemum. Framsfl. er hér beygður í duftið aftur og aftur og þingmenn hans greinilega barðir til hlýðni, allir þeir sem láta sig hafa það. Þessir ofurkostir virðast allir sprottnir af því að formaður Framsfl. vill flest, ef ekki allt, til vinna að halda þessu ríkisstjórnarhripi saman fram yfir 15. september þannig að hann fái að setjast í stól forsrh. Dýr er sá stóll að verða metnaði Framsfl. Það er sem sagt allt gefið eftir, allt látið falt. Sjálfstæðismenn hafa auðvitað fundið inn á þetta, verið þefvísir á færin sem þetta skapar og menn hafa þóst greina það í framgöngu framsóknarmanna á mörgum öðrum sviðum að þeir séu ákaflega mjúkir í hnjáliðunum, svo það hugtak sé nú notað, þegar kemur að því að standa á sínu gagnvart Sjálfstfl. Hvernig stendur t.d. á því að hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson er í jafnhörmulega veikri stöðu og raun ber vitni að verja heilbrigðiskerfið? Getur hugsast að það sé m.a. vegna þess að sami óttinn læsi sig um hjörtu framsóknarmanna um leið og Sjálfstfl. ber í borðið, að stjórnarsamstarfið geti verið í hættu ef þeir ybba sig, ef þeir heimta peninga í Landspítalann? Þá leka menn niður. Þá gefa menn eftir og standa þar fyrir blóðugum niðurskurði, uppsögnum og þrengingum sem landsfrægar hafa orðið.

Framsfl. hefur á undanförnum árum látið hafa sig í hluti, eða kannski hefur honum ekki verið það svo óljúft, sem einhvern tíma hefði þótt saga til næsta bæjar að Framsfl. á Íslandi stæði fyrir. Hér hefur verið í gangi mikil markaðs- og einkavæðing samfélagsins á fjölmörgum sviðum. Hún hefur gengið svo langt að jafnvel sjálfum höfundunum, Davíð Oddssyni og félögum, hæstv. forsrh., er farið að blöskra. Þeir eru farnir að tala um það opinberlega að menn séu að misnota frelsið sem þeir hafi fengið. Á köflum virðist það vera þannig að Framsfl. hafi jafnvel minni efasemdir um nýfrjálshyggjusamfélagið sem hér hefur verið skapað í viðskiptalífinu en Sjálfstfl. Ég hygg t.d. að Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., hafi miklu oftar viðrað áhyggjur sínar af framferði manna í fjármálageiranum og hvernig stóru markaðsráðandi risarnir í viðskiptalífinu hegða sér en hæstv. viðskrh. Það má að sumu leyti kannski lesa það út úr athöfnum hæstv. viðskrh. sem hefur nánast í öllum tilvikum látið þessa hluti ganga afskiptalaust að Framsfl., hin nýja valdakynslóð, nýja forustan þar, hæstv. viðskrh., utanrrh., félmrh., sem talin eru mynda forustuþríeyki að sögn þeirra sem eru vel að sér í framsóknarfræðunum hafi bara í raun og veru engar áhyggjur af þessu. Þetta er sami hópurinn og leynt og ljóst vinnur að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, eins og kunnugt er, og þegar við tökumst t.d. á hér um eitt af stórmálum þessa vetrar, þ.e. markaðsvæðingu íslenska raforkugeirans þar sem á að feta í fótspor nýfrjálshyggjunnar í öðrum löndum og hefja markaðs- og væntanlega síðar einkavæðingu á ýmiss konar veitustarfsemi sem býr þó við náttúrulega einokun, hefur bara hreinlega komið á daginn að Framsfl. er hægra megin, ekki bara við Sjálfstfl., heldur meira að segja hægra megin við repúblikana í Bandaríkjunum, í Kaliforníu, í því máli. Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnrh., er mesta frjálshyggjumanneskjan í landinu þegar kemur að því að markaðs- og einkavæða t.d. raforkukerfið. Þetta er staðreynd. Gagnrýni sem hefur verið reidd fram, t.d. vitnisburði þingmanna frá Kaliforníu sem hér voru á ferð þar sem þeir vöruðu mjög við því að Íslendingar lentu í sömu ógöngum í gegnum einka- eða markaðsvæðingu á raforkustarfsemi sinni, lætur hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir eins og vind um eyru þjóta.

Kannski er einfaldlega Framsókn orðin að hinni löngu húsmennsku á höfuðbóli íhaldsins og hefur einfaldlega samsamað sig hugmyndafræðinni algerlega. Hún er svoleiðis runnin þeim í merg og blóð að efasemdir leita síður á þá, framsóknarmennina, en íhaldið sjálft sem hefur þrátt fyrir allt stundum efasemdir, eins og kunnugt er.

Þetta fjölmiðlamál hefur tekið mikið af tíma og orku Alþingis síðustu dagana og vikurnar og má segja að það hafi skekið þjóðfélagið af eðlilegum ástæðum, verið tilefni til meiri umræðu um framgöngu stjórnvalda og það hvernig menn fara með völd sín en lengi áður hefur verið uppi. Síðast í dag á fjölmennum mótmælafundi á Austurvelli komu saman þúsund manns eða meir, einfaldlega til þess að gefa stjórnvöldum rauða spjaldið, gefa ríkisstjórninni og meiri hluta hennar hér rauða spjaldið, vegna framferðis síns og vinnubragða ekki síður en efnis málsins, innihaldsins. Það er held ég það sem stendur alveg sérstaklega eftir, frú forseti, að vinnubrögðin í þessu máli öllu saman eru með þvílíkum endemum að jafnvel þótt menn hefðu viljað freista þess að reyna að taka einhvern þátt í efnislegri afgreiðslu málsins og hafa áhrif á það til góðs, sem menn gjarnan vilja reyna, hefur það bara ekki verið nokkur lífsins leið. Fyrir það fyrsta hefur ekki verið boðið upp á það. Það hefur ekki verið leitað eftir því. Það hefur eiginlega ekki verið hægt að koma nálægt þessu máli eins og stjórnarflokkarnir hafa hegðað sér í því. Fyrst og fremst tveir menn, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., sömu höfðingjarnir, hæstvirtu ráðherrarnir, og einhliða ákváðu að Ísland styddi Íraksstríðið sem hér var einnig til umræðu í dag, hafa ákveðið hvernig með þetta mál skuli fara. Málið var allt í einu rifið út úr allshn. áður en fagnefndir þingsins sem höfðu fengið það formlega til umsagnar höfðu haft tök á því að skila áliti sínu. Það var ekki leitað eftir samstöðu, spurt hvort menn hefðu einhverjar hugmyndir um breytingar eða hvort möguleiki væri á að ná einhverri samstöðu um málið. Nei, aldeilis ekki. Utan úr bæ komu tilbúnar brtt. og nefndarálit og á þeim grunni var málið rifið út og dreift á borð þingmanna nokkrum mínútum síðar, t.d. 6--7 blaðsíðna nefndaráliti meiri hlutans. Upp á þessi vinnubrögð horfði þingheimur. Þetta er þannig aðferðafræði, það er þannig í pottinn búið að það er alls ekki boðið upp á það að vinna að þessu máli eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri með venjubundnum hætti, hvað þá að einhver aðstaða sé til að hafa áhrif á framvindu málsins.

Þetta er mjög dapurlegt eins og margsinnis hefur verið endurtekið hér vegna þess að í upphafi voru engin sérstök tilefni til að ætla að þetta mál væri öðruvísi vaxið en önnur, að ekki mætti skoða það að vinna að því með því hugarfari að ná einhverri lágmarkssamstöðu um aðgerðir á þessu sviði. Eins og margoft hefur verið vitnað til fluttu fulltrúar fjögurra þingflokka af fimm í desembermánuði tillögu um tilteknar aðgerðir í þessum efnum þar sem m.a. spurningum um lagasetningu eða reglusetningu var velt upp og á útmánuðum flutti fimmti þingflokkurinn, Samf., tillögur um annars konar nálgun í þessum efnum. Það liggur fyrir að allir þingflokkar hér hafa talið þetta mál sem slíkt mikilvægt og verðskulda skoðun og aðgerðir. Þess þá dapurlegra er auðvitað að stjórnvöld í landinu, ríkisstjórn, meiri hluti hér á Alþingi og Alþingi í heild, skuli vera fangar vinnubragða af því tagi sem formenn stjórnarflokkanna þvinga upp á menn. Sá er veruleikinn í málinu. Málið er í heljargreipum formanna stjórnarflokkanna sem keyra með offorsi áfram og bjóða ekki upp á umræðu, skoðanaskipti eða viðleitni til að ná saman um eitt eða neitt, ganga út frá því eða hafna fyrir fram. Þeir loka dyrunum á það að eitthvað slíkt geti gerst. Það er auðvitað algerlega verið að loka dyrunum á að einhver samstaða myndist í landinu innan þings og utan um eitt eða neitt í þessum efnum með þessum vinnubrögðum. Það er verið að segja sundur friðinn.

Þetta verða auðvitað þeir að skilja úti í þjóðfélaginu sem sumir hverjir undrast t.d. að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs með okkar áherslur í þessu máli skulum ekki reyna að hafa einhver efnisleg afskipti af því hvernig þetta mál er hér meðhöndlað, jafnvel taka þátt í að reyna að breyta því og afgreiða það. Svarið er þetta: Þótt við værum öll af vilja gerð er það bara ósköp einfaldlega ekki í boði. Vinnubrögð formanna stjórnarflokkanna hafa gersamlega tekið þetta mál í gíslingu. Það er engin leið að komast að því á neinum þeim málefnalegu forsendum sem geri það kleift og fært að reyna að vinna að því eða lagfæra það. Það væri auðvitað æskilegt, hið eðlilega. Þegar því er síðan algerlega neitað að gefa málinu tíma, að gefa svigrúm til þess að skoða það vandlega og rækilega ofan í kjölinn, setja það í samhengi, taka á öðrum þáttum þess sem út af standa, er auðvitað ekki um neitt að tala um í þeim efnum. Það á að þvinga þennan afmarkaða gerning í gegn sem auðvitað nær á engan hátt utan um þetta fjölmiðlasvið í heild sinni. Það er algert gatasigti gagnvart því að ná markmiðunum í heild sinni fram í fjölmiðlum landsins, um fjölbreytta, óháða og öfluga fjölmiðlun þar sem allt er undir, opinbera fjölmiðlunin, eða Ríkisútvarpið, almenningsútvarpið, ljósvakinn, dagblöðin, tímaritin, netmiðlarnir, nýja tæknin og allt sem hér auðvitað þyrfti að vera undir og til skoðunar ef menn í alvöru og af einhverjum raunverulegum áhuga vildu takast á við þetta viðfangsefni í heild sinni og á breiðum grundvelli.

[17:15]

Svona er því miður í pottinn búið. Það segir heilmikla sögu um stjórnarfarið á Íslandi, frú forseti, um stöðu þingræðisins á Íslandi og um það hvernig menn eru farnir að umgangast hér vald sitt, sérstaklega þeir sem hafa lengi setið að miklum völdum, fyrst hérna handan Vonarstrætisins, í Ráðhúsinu sem þeir byggðu reyndar, og síðan hér inni á Alþingi í meira en 13 ár.

Menn hafa stundum nefnt til sögunnar og til samanburðar vinnubrögðin á þessu sviði í Noregi þar sem menn hafa verið með í undirbúningi í nokkur ár, fjögur ár held ég að ég hafi heyrt, breytingar á þeim reglum sem þar eru fyrir og í gildi og eru nokkurra ára gamlar. Það er ekki bara í því sem grundvallarmunurinn á vinnubrögðum og viðhorfum liggur, að þar taka menn sér rækilegan tíma í ítarlegt samráð innan þings og utan um málið, kalla til alla helstu hagsmunaaðila og áhugaaðila, heldur líka í því að í norska þinginu tekur þingið sjálft við málunum og meira og minna stýrir þeim, eins og reyndar er alsiða á mörgum öðrum sviðum í Noregi. Þingið mótar stefnuna til langs tíma með stefnumótandi afgreiðslum og samþykktum en ekki ríkisstjórnin með því að keyra sína hluti í gegn. Yfirleitt er á norska þinginu gengið frá stefnumótun af því tagi sem stundum leiðir svo til aðgerða á sviði laga og stundum ekki, með því sem Norðmenn kalla Stortingsmelding, þ.e. Stórþingssamþykkt, á sviði orkumála, á sviði fjölmiðlamála o.s.frv. Það er stefnumótandi afgreiðsla eða samþykkt þingsins með ítarlegum rökstuðningi sem er oftast gefin síðan út í þykkri bók og gildir til nokkurra ára í senn.

Nú segja menn auðvitað að ólíku sé saman að jafna af því að í Noregi sitji minnihlutastjórnir og þær þurfi að ná sínum hlutum í gegnum þingið, semja þær í gegn. Það er heilmikið til í því. Það þarf ekki að vera sá himinn og haf á milli vinnubragðanna, hvort sem minnihlutastjórnir sitja í einu landi og hefð er fyrir slíku eða því sem hér er, yfirleitt meirihlutastjórnir. Menn þurfa ekki að láta algerlega lönd og leið allt sem heitir samráð við Alþingi og eðlilega hlutdeild þess í ákvarðanatöku og stefnumótun af þessu tagi. Auðvitað er verið að gera það með því að keyra umdeilda hluti af þessu tagi í logandi andstöðu við allt og alla í gegn á örfáum dögum. Auðvitað er hverjum manni ljóst að Alþingi sem slíkt hefur engan frið, enga stöðu, til þess að taka málin í sínar hendur og vinna þau eins og mönnum væri skapi næst, með eðlilegum hætti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur hér endalaust upp og kvartar undan því ef nefndir eru ráðherrar á nafn í þessum sal og segir að það sé óvirðing við þingið, styður þó sjálfur þá ríkisstjórn sem meira en nokkur önnur sem ég þekki hefur valtað yfir þingið trekk í trekk og gerir enn. Það eru auðvitað mikil öfugmæli. Ef einhver ætti að hætta að styðja þessa ríkisstjórn og það í hvelli, helst í gær, væri það hv. þm. Pétur H. Blöndal ef hann tekur mark á eigin endalausu ummælum um að það eigi að virða sjálfstæði þingsins og ríkisstjórn komi ekki við hvernig mál séu afgreidd eftir að þau eru komin til þings. Hvar fæddust síðustu brtt. við frv.? Voru það ekki Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sem kokkuðu þær? Að vísu upplýsti forsrh. að þær hefðu verið samdar í þinghúsinu, þær hafa kannski verið skrifaðar á servíettu í ráðherraherberginu. Hver veit? Að minnsta kosti fæddust þær ekki í allshn. Svo mikið er víst.

Ég hef heilmikið velt því fyrir mér, frú forseti, auðvitað ekki bara af þessu tilefni, heldur mörgum öðrum, í raun og veru hvernig komið sé fyrir lýðræðinu og þingræðinu að mörgu leyti á Íslandi. Hvernig er komið fyrir þingræðinu á Íslandi? Ráðstefna var haldin um það uppi í háskóla í vetur í tengslum við 100 ára afmælið fræga og aldrei þessu vant fengu fleiri en útvaldir vinir að vera þar með. Við, fulltrúar þingflokka, vorum þar í pallborði, að vísu aftast á dagskránni sem var svo sem allt í lagi, búin að hlusta á alls konar spekinga segja okkur hvað Alþingi væri og væri ekki í 2--3 tíma þegar við loksins fengum að tjá okkur um það mál. Undir var á ráðstefnunni staða þingræðisins hér og ég held að ég sé ekki að leggja neinum þar orð í munn eða gera þeim upp skoðanir þótt ég dragi það saman þannig að það var nánast algerlega samdóma álit allra að þingræði á Íslandi væri mjög veikt. Það hefur þróast hraðbyri í óhagstæða átt. Ég held að það liggi í nokkrum þáttum samverkandi á löngum valdatíma mjög valdboðssinnaðra stjórnmálaforingja. Sú er kannski stærsta einstaka ástæðan. Í öðru lagi felst það í því að hér hafa setið að völdum um nokkurt árabil sterkar meirihlutastjórnir með það sterkan þingmeirihluta að þær hafa í raun og veru ekki þurft að hlusta á eitt eða neitt. Þó að einn og einn stuðningsmaður ríkisstjórna hafi verið með múður á umliðnum árum, og sé jafnvel enn, hefur oftast bara verið haldin sýnikennsla í því af hálfu forustumanna stjórnarflokkanna hvernig farið er með óþæga þingmenn. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, þá nýorðinn formaður Sjálfstfl., hélt sýnikennslu í því á sínu fyrsta kjörtímabili hvernig snúið var upp á handlegginn á, og jafnvel handleggirnir snúnir af, þingmönnum í Sjálfstfl. sem voru með einhverja óþekkt. Við munum hvernig það fór. Við munum hvaða örlög biðu þeirra hv. þm. sem voru með uppsteyt á köflum á árunum 1991--1995. (Gripið fram í: Þeir eru horfnir.) Þeir eru horfnir af vettvangi. Þeirra beið ekki mikill frami í Sjálfstfl., (RG: Friðrik Sophusson.) þingmanna eins og Inga Björns Albertssonar og fleiri góðra manna sem ég kannski sleppi að nefna hér. Hvernig fór með hæstv. fyrrverandi fjmrh., Friðrik Sophusson, sem ég heyri að einhverjir muna hér eftir? Hann var blár upp að olnbogum, það var búið að lemja svo oft á puttana á honum. Hann gaf ráðherrunum, samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórninni, belgvettlinga þegar hann kvaddi þá til þess að þeir gætu varið sig fyrir reglustikunni sem alltaf væri verið að lemja á puttana á mönnum með (RG: ... og hafði belgvettlinginn í fimmtugs ...) og var þó nokkur húmor í því. Það verður að segjast. Það má sá ágæti maður, núverandi forstjóri Landsvirkjunar, eiga þótt við séum ekki alltaf á eitt sáttir, að hann á það til að vera hinn besti húmoristi. Þetta var viðeigandi. Þarna hafði verið haldin sýnikennsla í því hvernig færi fyrir þeim sem væru með uppsteyt. Þetta er önnur mikilvæg skýring. Þessir menn hafa haft mikil völd lengi og þeir hafa haft næði til að lemja þingmenn undir boðvald sitt þannig að það gerist mjög sjaldan nú orðið að vart verði við nokkurn uppsteyt í þeim efnum.

Þannig gerist það auðvitað að þetta frv. fer í gegnum þingflokka stjórnarliðsins eins hroðalega úr garði gert og það var í byrjun og þeir nú sjálfir útmála með því að leggja áherslu á mikilvægi þess að því hafi verið breytt aftur og aftur, án nokkurs fyrirvara. Ég veit ekki til þess að nokkur þingmaður stjórnarliðsins hafi opinberað fyrirvara á stuðningi sínum við málið. Það ber mönnum að gera ef þeir eru stuðningsmenn ríkisstjórnar og taka þátt í að afgreiða stjórnarfrumvarp í gegnum þingflokka. Ef þeir ekki lýsa fyrirvara við þá afgreiðslu í þingflokknum eru þeir að segja að þeir séu tilbúnir til að styðja frv. þess vegna óbreytt. Að sjálfsögðu er ekki útilokað að það taki breytingum en menn eiga enga kröfu á að málið taki breytingum nema þeir lýsi fyrirvara við stuðning sinn á því óbreyttu strax og það er lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Þannig er það. Þetta geri ég ráð fyrir að menn hafi á hreinu. Ekki er það sökum kunnáttuleysis sem menn láta þetta rúlla í gegn andmælalaust. Okkur hefur a.m.k. ekki verið tjáð það eða við verið upplýst um að neinn þingmaður sem var viðstaddur afgreiðsluna hafi gert fyrirvara á, en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eins og við vitum var hins vegar strax frá byrjun ekki stuðningsmaður frv. Það hefur legið fyrir.

Það er tilefni til þess, virðulegur forseti, að velta þessum hlutum fyrir sér, líka vegna þess að sem oftar við aðstæður kannski að einhverju leyti sambærilegar hefur komið upp umræðan um það hvort hér sé að myndast slík gjá milli þess sem í vændum er af hálfu meiri hluta á Alþingi, fremur knapps meiri hluta að vísu, og þjóðarinnar, að það stefni í hreint óefni og jafnvel beri forseta Íslands að taka það mál til íhugunar. Sú umræða hefur sem sagt komið upp að mögulega muni forsetinn nota og þá í fyrsta sinn heimild stjórnarskrárinnar til að skjóta málinu í dóm þjóðarinnar. (KHG: Er það hin pólitíska grjótagjá?) Það er heilmikil grjótagjá, já, pólitísk. Sú hin eina og sanna hefur verið mjög heit undanfarna nokkra áratugi en er nú að vísu eitthvað að kólna þannig að menn eru jafnvel farnir að baða sig í henni. Hvað verður samt með þessa gjá skal ég nú ekki segja.

Ég vil bara segja að þau stjórnvöld sem líta þeim augum til valdsins að þau geti hvað sem tautar og raular trekk í trekk beitt því í augljósri andstöðu við yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar sem þau þó sækja umboð til hljóta að vera á miklum villigötum. Menn geta svo sem sagt að þær aðstæður geti komið upp að þeir telji sig verða að taka óvinsælar og erfiðar ákvarðanir sem þjóðin sé andvíg og þeir ætli þá að bera á því pólitíska ábyrgð og axla hana í formi kosninga þegar þar að kemur. Ég ætla ekkert að segja að slíkar aðstæður geti ekki komið upp. Það getur aldrei talist æskilegt. Það getur það ekki. Almennt séð er það gegn lýðræðishugsuninni að gera eitthvað, yfir höfuð hvað sem það er, í andstöðu við vilja meiri hlutans. Það er bara þannig. Ef það gerist hins vegar aftur og aftur að sömu stjórnvöld verða ber að því að meðhöndla vald sitt eða umboð hljóta menn að fara að hafa efasemdir um það hvernig menn nálgast málin.

[17:30]

Þessi ríkisstjórn er sannanlega ber að því. Það liggur algerlega fyrir að yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar var andvígur því að Íslendingar styddu stríðið í Írak. Hún var það, og er það. Það hlýtur að vera marktækt þegar vandaðar skoðanakannanir sýna endurtekið að milli 80 og 90% þjóðarinnar eru þeirrar skoðunar. Það er svo yfirgnæfandi meiri hluti að það er langt út fyrir öll skekkjumörk. Þetta vita auðvitað formenn stjórnarflokkanna. Hvorki sú vitneskja hefur dugað þeim né allar þær hörmungar sem í kjölfarið hafa siglt í því máli til þess að votti fyrir því að þeir telji að þeir eigi að endurskoða afstöðu sína. Þeir halda til streitu þeirri stefnu mánuðum og árum saman í andstöðu við vilja þjóðarinnar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Og þeir eru að gera það aftur hér. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Það þarf ekkert að fara lengi um á meðal almennings í landinu í dag til að skynja það að þjóðinni ofbuðu algerlega þessi vinnubrögð. Það á sér afar fáa formælendur hvernig formenn stjórnarflokkanna hafa haldið á þessu máli öllu saman í heild sinni og frá byrjun.

Þó að ég nefni þá oft til sögunnar, hæstv. ráðherrana Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, er ekki þar með sagt að engir aðrir beri neina ábyrgð. Ég vona að mönnum sé það öllum ljóst að hver einn og einasti þingmaður sem styður þá með atkvæði sínu í þessu máli ber fulla og óskoraða ábyrgð á þessu öllu saman. Það skiptir engu máli í hvorum stjórnarflokknum hann er. Það fríar Framsókn ekki undan einu einasta milligrammi af ábyrgð í þessu máli þó að menn útmáli það fyrir þjóðinni að þeir eigi í erfiðleikum, hafi efasemdir. Þeir eru nákvæmlega jafnábyrgir fyrir gerningnum að lokum ef þeir greiða honum atkvæði sitt. Má ég þá frábiðja mér það að menn komi hér með þau nauðungarrök að þeir séu í liðinu, af því að þeir séu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar verði þeir að láta sig hafa það. Það er ekki þannig. Það er þvert á móti algerlega öfugt. Menn eru skyldugir til að fylgja sannfæringu sinni. Og hvað er fólgið í stuðningi við ríkisstjórn, að vera stuðningsmaður ríkisstjórnar? Að skrifa upp á hvert einasta mál sem hún flytur? Nei. Aldeilis ekki. Þá hafa menn eitthvað misskilið þetta. Þá verða nýju þingmennirnir að fara aftur á námskeið fyrir nýja þingmenn. Það er ekki það sem fólgið er í stuðningi við ríkisstjórn, að skrifa upp á hvaðeina sem hún gerir. Það eina sem menn lofa þegar þeir taka þátt í því að mynda ríkisstjórn og lýsa sig stuðningsmenn hennar er að verja hana vantrausti. Komi fram vantrauststillaga á Alþingi ber þeim sem eru í stjórnarliðinu samkvæmt reglunum að greiða atkvæði gegn henni eða segja sig frá stuðningi við ríkisstjórnina ella. Svo einfalt er það mál. Þeir hafa hins vegar fullt sjálfstæði til að leggjast gegn hvaða málum sem svo ber undir, einstökum málum sem ríkisstjórnin flytur. Það eina sem þeim ber þá að gera er að láta vita af því að þetta eða hitt málið eða efnisþáttinn geti þeir ekki stutt.

Ég man eftir því þegar forseti neðri deildar, sem þá var Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, flutti ásamt mér frv. um rannsókn á embættisfærslu þáverandi menntamálaráðherra í tilteknu máli. Mönnum þótti nokkrum tíðindum sæta að stjórnarþingmaðurinn og forseti neðri deildar í umboði meiri hlutans flytti frv. um rannsókn á embættisfærslu ráðherra í ríkisstjórn sem hann studdi. Hann var sakaður um það m.a. að vera að bregðast stuðningi við ríkisstjórnina. Hinn reyndi og vellesni ágæti fyrrverandi hv. þm. Ingvar Gíslason. Það stóð nú ekki í honum að svara fyrir það. Hann gerði það nákvæmlega eins og ég gerði hér áðan. Hann sagði ósköp einfaldlega: Það er ekki þannig að ég hafi lofað að styðja hvaðeina sem þessi ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hennar gera eða allar þeirra embættisfærslur eða -afglöp. Það er nú aldeilis ekki, sagði hv. fyrrverandi þingmaður Ingvar Gíslason. Hann sagði: Ég hef engu lofað nema því að verja þessa ríkisstjórn vantrausti. Það er ekkert annað fólgið í stuðningsheiti mínu við hana.

Auðvitað er það svona. Stjórnarskráin gengur frá því að þetta er svona. Það er eins og þingmenn gleymi því almennt að þeir eru varðir af þessu ákvæði. Auðvitað vitum við að hinn veruleikinn er sá að menn óttast um áhrif sín og stöðu í flokkunum, alveg sérstaklega undir stjórn húsbænda eins og þeir hafa nú á stjórnarheimilinu, ef þeir standa á rétti sínum og sjálfstæði í málum af þessu tagi. Þá er það þægindaafstaða sem menn eru að taka, og ekkert annað. Það er bara þannig.

Ég ber ekki snefil af virðingu fyrir innantökum einhverra manna í grundvallarmáli af þessu tagi. Ef þeir láta hafa sig í að styðja gerninginn bera þeir á honum 100% ábyrgð, alveg nákvæmlega eins og höfundarnir sjálfir, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þannig er það.