Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:38:44 (8691)

2004-05-19 17:38:44# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alltaf sama ræðan hjá þingmönnum Sjálfstfl. Þetta er alltaf sama nauðvörnin hjá þeim. Ef menn hafa lýst sig reiðubúna til að skoða þetta mál, ef menn bara ekki í grundvallaratriðum segja sig frá því að það geti verið ástæða til að hafa einhverjar takmarkandi reglur eiga menn bara að vera skuldbundnir til þess að styðja þetta frv. ríkisstjórnarinnar og skrifa upp á öll þau vinnubrögð. Þetta er óskaplega ódýr og einföld röksemdafærsla og til marks um það í hvers konar rosalegri nauðvörn þessir ágætu hv. þm. Sjálfstfl. eru, sérstaklega hinir ungu þingmenn. Þeir koma hérna aftur og aftur og sarga á þessu sama atriði sem liggur svo ljóst fyrir að þarf ekki að rökræða um það. Ég er mjög stoltur af því og ánægður með það að menn vitni sem mest í ræður mínar og fjalli um þær tillögur sem við fluttum. Þær eru góðar. Ég hef nákvæmlega sömu grundvallarviðhorf til þessa máls í dag og ég hafði fyrir nokkrum mánuðum og fyrir tveim, þrem, fjórum, fimm árum. Þær eru í fullkomnu samræmi við grundvallarlífsskoðanir mínar og það sem ég hef talað fyrir og barist fyrir gagnvart viðskiptalífinu á Íslandi almennt. Ég ber ekki minnsta kinnroða fyrir því að svara fyrir það hvernig við höfum staðið að verki í þessum efnum.

Það dapurlega er auðvitað að þessi fautavinnubrögð forustumanna stjórnarflokkanna hafa gersamlega gert það ómögulegt að aðilum sem í byrjun hefði kannski mátt ætla að hefðu getað náð saman, jafnvel þinginu öllu, er enginn kostur á því. Það er ekki boðið upp á það, það er ekki fært. Þetta mál er í gíslingu formanna stjórnarflokkanna. Það er algerlega orðið ómögulegt að vinna það með neinum eðlilegum hætti eins og á því hefur verið haldið. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn Sjálfstfl. eða stjórnarliðsins að sarga hér með þessum hætti og reyna að segja mönnum einhverjar draugasögur í björtu. Þeir þekkja manna best hvernig formenn þeirra flokka hafa þjösnast áfram í þessu máli og hvers vegna það er í þeim ógöngum sem raun ber vitni.