Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:40:55 (8692)

2004-05-19 17:40:55# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:40]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst hver er í nauðvörn í þessu máli. Ræður hv. þingmanns liggja skjalfestar fyrir, (Gripið fram í.) þáltill. þar sem sérstaklega er tekið fram að það þurfi að taka á eignarhaldi á fjölmiðlum hjá markaðsráðandi aðilum, hvorki meira né minna. Það sem hefur síðan gerst er að samþjöppunin hefur orðið miklu meiri, meiri en nokkurs staðar annars staðar gerist. Ef menn hlusta á ræðu hv. þingmanns reynir hann í nauðvörn sinni að tala um það að vinnubrögðin hafi verið með þeim hætti að ekki sé hægt að ná samstöðu. Hv. þm. var ekki að byrja á þingi í gær. Það liggur fyrir að í þessu máli hefur þingflokkur vinstri grænna verið á harðahlaupum undan eigin yfirlýsingum og reynt að passa sig á því að geta staðið fyrir utan þessa ákvarðanatöku. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir. Það sem liggur til grundvallar eru þeirra eigin orð fyrir nokkrum mánuðum.