Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:45:37 (8695)

2004-05-19 17:45:37# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað ákaflega áhugavert að ræða Morgunblaðið í þessu samhengi. Það hefur eðlilega, eins og reyndar framganga fleiri fjölmiðla, dregist af og til inn í umræðurnar þar sem við erum að fjalla um fjölmiðlafrumvarp. Þegar maður lítur til baka og horfir jafnframt til nútímans held ég að kannski hafi verið gert of mikið úr þessari breytingu sem var fólgin í því, kannski fyrst og fremst, að ritstjórar Morgunblaðsins hættu að sitja þingflokksfundi hjá Sjálfstfl. (Gripið fram í: Þeir eru byrjaðir aftur.) Það var það sem alltaf var vitnað til að væri til marks um það hversu óháð Morgunblaðið væri þarna orðið. Auðvitað er mjög margt vel um Morgunblaðið og þar er að mörgu leyti mikil fagmennska ástunduð í blaðamennsku. Það er í það heila áreiðanlegur fréttamiðill. Morgunblaðið er hins vegar mjög pólitískt í leiðurum sínum og í fréttavali, eins og við höfum rækilega séð nú upp á síðkastið. Það er alveg augljóst mál. Leiðarar Morgunblaðsins hafa aukinheldur þetta sérkennilega einkenni, sem og Reykjavíkurbréf og önnur slík skrif, að Morgunblaðið er ekki bara að bera blak af sínum mönnum og þeim sem eru í aðalatriðum á svipuðum slóðum í skoðunum, það er líka alltaf að sanna sjálft sig og vitna í sjálft sig. Þessi árátta sem ég dró samasemmerki á milli hjá Morgunblaðinu annars vegar og málflutningi hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hins vegar er að víst skuli allir vera sammála Morgunblaðinu.

Það á víst að vera þannig að allir eigi að styðja frv. ríkisstjórnarinnar, segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Af hverju? Jú, af því að menn hafa ekki útilokað að það kæmi til greina að setja lög um fjölmiðla. Þar með skulu menn vera sammála þessu. Ha? Svona er þetta. Mogginn skrifaði svona vegna þess að þingflokkar fluttu hér tillögur og voru tilbúnir til að skoða málin. Þar með hlytu þeir að vera sammála því að setja þessi lög sisona og vinna að lagasetningunni með þessum hætti. Auðvitað eru þetta ótrúlegar alhæfingar í röksemdafærslu sem ná ekki nokkru máli ef við ætlum að tala af virðingu um viðhorf hvers annars og eiga uppbyggilegar rökræður.