Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:47:49 (8696)

2004-05-19 17:47:49# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ég taki kannski ekki svo djúpt í árinni að halda því fram að Morgunblaðið hafi drepið af sér önnur flokksmálgögn hefur það virkilega haft gífurlega sterka stöðu alveg þangað til núna að Fréttablaðið er farið að ógna stöðu þess. Ég er hins vegar ein af þeim sem hafa verið fremur hrifin af því hvernig Morgunblaðið breyttist og hef tekið hattinn ofan fyrir þeim ritstjórum sem gerðu þessar miklu breytingar. Ég hef jafnmiklar áhyggjur af því hversu gífurleg breyting hefur núna orðið í gamla farið. Áður las ég mörg Reykjavíkurbréf sem settu fram aðrar skoðanir en Sjálfstfl. og allnokkra leiðara þar sem Morgunblaðið fór beinlínis í blóra við Sjálfstfl. Nú gerist það ekki. Ekki í þessu máli. Leiðarar, Reykjavíkurbréf, skrif, birtingar á bréfum, allt sem kemur Sjálfstfl. vel í þessari stöðu kemur núna fram í Morgunblaðinu. Það hryggir mig.