Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:55:02 (8700)

2004-05-19 17:55:02# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁF
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Frv. til laga um breytingu á útvarpslögum er hér til 3. umr. Eins og öllum er kunnugt hefur margt og mikið verið sagt um frv. fram til þessa. Fyrst af öllu ætla ég aðeins að beina sjónum mínum að tilefni frv.

Margir hafa haft á orði að tilefnið sé sumpart persónulegt. Fram hefur komið að ástæður frv. hafi með samskipti stjórnvalda við tiltekin fyrirtæki að gera. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það. Þó er ljóst að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hefur orðið, um það er ekki deilt. Á síðustu 12--18 mánuðum hefur orðið meiri samþjöppun á þeim markaði en oftast áður en samþjöppun er ekki í sjálfu sér saknæm. Hún er óheppileg en ekki háskaleg. Hún verður ekki háskaleg fyrr en hún hindrar virka samkeppni og kemur í veg fyrir nýliðun greinarinnar. Það er sama og með markaðsráðandi stöðu sem er hugtak sem ég mun koma að síðar. Markaðsráðandi staða er ekki ólögleg eða háskaleg fyrr en henni er misbeitt. Það sama á við hér. Samþjöppun verður ekki háskaleg fyrr en hún hindrar virka samkeppni og kemur í veg fyrir nýliðun greinar. Ég vil minna á hagfræðikenningar þess efnis að öll samkeppni leiði til fákeppni því að krafan um hagkvæmni leiði sífellt til þess að fáir, stórir keppa. Oft er litið á fákeppni sem þróaða samkeppni. Þess vegna hafa menn alltaf skoðað, a.m.k. í stærri hagkerfum, þröskuldinn fyrir nýliðunina. Möguleika nýrra aðila til að ryðja sér braut inn á markað.

Þegar við skoðum fjölmiðlamarkaðinn hér á landi og stöðu hans kemur í ljós að hin háskalegu einkenni samþjöppunar sjást hvergi. Sú skýrsla sem sögð er liggja til grundvallar frv. fjallar um það og hún segir að sjaldan hafi fjölbreytni verið meiri í íslenskri fjölmiðlun en nú um stundir, bendir sérstaklega á að þeir fjölmiðlar sem starfa í dag séu fjölbreyttari, veiti meiri og fjölbreyttari þjónustu en oftast áður. Í þeirri skýrslu segir líka að fjárhagslega standi þessi fyrirtæki traustari fótum en oftast áður. Af því má ljóst vera að hvað það varðar sjást ekki háskaleg einkenni samþjöppunar.

Ef við skoðum markaðinn frekar kemur í ljós að samkeppni á fjölmiðlamarkaði er mjög virk. Má ég benda t.d. á eitt atriði varðandi samkeppni blaða. Í áraraðir hefur samkeppni blaða á smáauglýsingamarkaði verið í mjög föstum skorðum. Ég vil ekki segja að það hafi verið samráð en það var a.m.k. þegjandi samkomulag milli blaðanna að síðdegisblaðið hefði smáauglýsingar, Morgunblaðið hefði fasteignaauglýsingar. Þetta var óbreytt í áraraðir. Með tilkomu Fréttablaðsins er þetta fyrirkomulag, sem þjónaði alls ekki neytendum, svo fjarri, brotið upp og í dag eru alls konar smáauglýsingar í Morgunblaðinu og fasteignaauglýsingar eru í öllum blöðum. Þetta er afleiðing virkrar samkeppni sem hefur brotist fram á síðustu missirum.

Skoðum nýliðun í greininni. Á síðustu 2--3 árum hefur orðið umbylting á blaðamarkaði. Það er farið að skyggja á turninn í íslenskri prentsögu, blaðasögu, Morgunblaðið. Upp úr engu hefur orðið til blað sem hefur meiri útbreiðslu og er að verða viðmiðunin í lestri fólks hér á landi. Það er ekki hægt að segja að þröskuldarnir séu háir fyrir nýja aðila á markaði sem svona er.

Tökum annað dæmi. Sjónvarpsstöð í einkaeigu nær að ryðja sér braut í samkeppni við einn risa sem er í einkaeigu og síðan Ríkisútvarpið. Það nær að ryðja sér braut og fer að ná markaðshlutdeild eða áhorfi á höfuðborgarsvæðinu upp í 15--20% og jafnvel enn meira í eftirsóttum markhópum. Það er ekki hægt að segja að þröskuldurinn sé hár þarna. Það má því segja að staðan á fjölmiðlamarkaði sé áþekk stöðunni á mörgum öðrum mörkuðum hér á landi þegar horft er til samþjöppunar og áhættunnar af henni.

Skoðum flugsamgöngur. Lengst af síðustu 60 ár hefur eitt flugfélag verið allsráðandi í flugsamgöngum okkar til annarra landa. Af og til hafa ný félög komið fram og nú síðast lággjaldaflugfélag, og ég óska því að sjálfsögðu velfarnaðar en minni á að þarna er einvörðungu um tvo aðila að ræða. Hvað með skipasamgöngur? Það eru tvö félög sem dómínera þann markað. Olíudreifing, þrjú félög, nýverið fjögur. Tryggingastarfsemi 3--4. Fjármálastarfsemi. Við sjáum að alls staðar í okkar litla hagkerfi verða til 2--3 stórir aðilar, síðan einhverjir minni. Byggingarvöruverslanir, tvær keðjur. Dagvöru- og smávöruverslanir, 2--4 keðjur.

Fjölmiðlamarkaðurinn er ekki að neinu leyti frábrugðinn. Það er því ljóst að tilefni frv. er ekki óvenjumikil samþjöppun í samanburði við aðrar atvinnugreinar og heldur ekki vegna þess að í ljós séu komin háskaleg einkenni fákeppni. Tilefnið er því ekki viðskiptalegt. Öðrum fyrirtækjum er ekki ógnað og tilefnið er heldur ekki brýnt. Tilefnið er miklu frekar að tiltekinn þáttur í starfi fjölmiðla, þ.e. flutningur frétta, hefur veruleg áhrif á starf stjórnmálamanna. Margoft hefur komið í ljós eftir að frv. leit dagsins ljós að stjórnarherrar una illa hvernig fjölmiðlar skipta sér af störfum þeirra. Tilefnið er því ekki að starfsskilyrði fjölmiðlafyrirtækja séu þröng vegna fákeppni heldur að ráðherrar og stjórnarmeirihlutinn una ekki þeim starfsskilyrðum sem fjölmiðlar setja þeim.

Yfirlýst markmið frv. er að stuðla að fjölbreytni í dagskrá fjölmiðla og það er mjög mikilvægt að standa vörð um það markmið og ég held að um mikilvægi þess deili enginn. Ég vil þó vegna ítrekaðra tilvitnana í blöð í útlöndum hvað þetta varðar minna á að þar eru þessar reglur miklu oftar settar til að tryggja menningarlega fjölbreytni frekar en pólitíska fjölbreytni. Ástæðan er einföld. Í fjölmörgum þjóðríkjum í kringum okkur búa fjölmennar þjóðir, ólík menningarsamfélög, og verið er að tryggja að fjölmiðlar endurspegli sem flesta þætti í þeirri menningu sem þrífst meðal þeirra sem búa innan þess ríkis. Þar er ekki þessi mikla áhersla á hinn pólitíska þátt og hinar pólitísku forsendur sem liggja að baki hér á landi.

Hvað varðar grunnhugsunina á bak við frv. þá liggur hún í því að eignarvald fjölmiðla geri að engu ritstjórnarvald og þankagangur þeirra sem setja frv. fram er að það þurfi að veikja eignarvaldið og með einhverjum dularfullum hætti eigi það að auka fjölbreytni í dagskrá.

Andstaða mín við frv. á sér ýmsar rætur en fyrst og fremst byggir hún á því að ég er sannfærður um að frv. leiðir ekki til fjölbreytni heldur þvert á móti. Frv. takmarkar möguleika til fjármögnunar, útilokar líklegustu fjárfestana, minnkar kaupendahópinn. Það kemur að öllum líkindum í veg fyrir að ljósvakafyrirtæki geti skráð sig í Kauphöllinni sem er heppilegastur og æskilegastur farvegur fyrir fjármögnun fyrirtækja. Pípur fjármagns til fjárfestinga í atvinnugreininni eru þrengdar verulega sem er afar óheppilegt þar sem tækni- og afþreyingargreinar kalla á háar fjárfestingar. Auk þess hindrar frv. eðlilega framþróun atvinnugreinarinnar, viðheldur sögulegri aðgreiningu prent- og ljósvakamiðla þó svo að ný tækni hafi sameinað þá miðla fyrir hálfum öðrum áratug. Frv. veikir stoðir einkarekinna fjölmiðla og dregur úr mætti þeirra til að halda úti fjölbreyttri dagskrá. Þá mismunar frv. fyrirtækjum í sömu starfsgrein þegar strangari skilyrði eru sett um fjárfestingar í ljósvakamiðlum en í prentmiðlum. Ég sé engin vitsmunaleg rök fyrir þeirri mismunun. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvort eignarvald yfir prentmiðlum og stafrænum miðlum sé eitthvað síður hættulegt en eignarvald yfir ljósvakamiðlum. Þetta er grundvöllur andstöðu minnar við þetta frv. og ég mun gera betur grein fyrir því. En ég vil á þessum stað í ræðu minni benda á að frá upphafi umræðunnar hefur Samf. bent á aðrar leiðir til að tryggja fjölbreytni fjölmiðla. Við getum farið yfir það í stuttu máli: Það er að styrkja og efla RÚV, tryggja gagnsæi í eignarhaldi og tryggja sjálfstæði ritstjórna en að því mun ég koma betur síðar.

Nú ætla ég að ræða aðeins frv. sjálft og fara í einstök efnisatriði þess. Í b-lið 1. gr. frv. kemur fram að útvarpsleyfi eru háð skilyrðum um tegund og gerð eigenda en engin skilyrði eru sett um eigendur prentmiðla eða stafrænna miðla. Öll rök fyrir því að tryggja fjölbreytni fjölmiðla með því að segja til um hverjir megi eiga hversu mikið í ljósvakamiðlum falla um sjálf sig þegar stjórnvöld reyna ekki með neinum hætti að stjórna því hverjir megi eiga prentmiðla eða þá stafræna miðla. Ef tilefni er til að ráðskast með ljósvakamiðlana, af hverju er þá ekki átt við aðra miðla? Þau rök duga ekki í svo veigamiklu máli, þau praktísku svör að slíkt sé flókið í lagasetningu, að af því að útvarpslög séu til sé auðveldara að takmarka eignarhald á ljósvakamiðlum. Slík rök duga engan veginn í svona veigamiklu máli.

Síðan kemur fram í öðru lagi að óheimilt sé að veita útvarpsleyfi nema fyrirtæki hafi fjölmiðlarekstur að meginmarkmiði. Um þetta hef ég engar athugasemdir.

Í þriðja lagi segir að óheimilt sé að veita útvarpsleyfi til fyrirtækis ef meira en 5% félags er í eigu aðila með markaðsráðandi stöðu og eru stærri en sem nemur 2 milljörðum kr. í ársveltu. Eitt atriði til umhugsunar er: Af hverju er verið að taka út markaðsráðandi? Af hverju eru markaðsráðandi fyrirtæki gerð svona mikilvæg? Af hverju eru ekki sett takmörk á hagsmunasamtök? Mega þau eiga ljósvakamiðla? Má LÍÚ eiga ljósvakamiðil? Ég spyr. Af hverju er fókusinn á markaðsráðandi aðila? Og hvaða lógík er á bak við það að ef markaðsráðandi aðili á fjölmiðil dragi það úr fjölbreytni í dagskrá? Ég get ekki með neinum hætti séð rökræn tengsl þarna í milli.

[18:15]

Síðan spyr maður sig aftur: Af hverju eru þessi tveggja milljarða mörk sett? Af hverju mega stór fyrirtæki ekki vera kjölfestufjárfestar í ljósvakamiðlum? Hvernig stendur á því? Ég hef ekki fengið svör við því. Ég veit ekki af hverju hægt er að draga þá ályktun að ef stórt fyrirtæki er kjölfestufjárfestir í fjölmiðli þá leiði það til þess að dagskráin verði fábreytt. Þetta sé ég ekki.

Þá kemur að því að skoða betur þessa 5% takmörkun, að séu aðilar markaðsráðandi þá megi þeir ekki eiga virkan eignarhlut. Þeir mega eiga eitthvert smáræði, láta aðra um ábyrgðina af ávöxtun þeirra fjármuna en mega ekki taka virkan þátt í því sjálfir. Það er það sem þetta ákvæði þýðir, 5% ákvæðið þýðir einfaldlega að öðrum er látin eftir ábyrgðin á þessu fé.

Heppilegt hefði verið að skoða í undirbúningi þessa frv. hvaða afleiðingar þetta ákvæði hefði fyrir fjárfestingar í atvinnugreininni. Hve mikið takmarkar þetta í raun fjárfestingar? Hversu mikið þrengir þetta pípur fjárstreymis inn í þessa atvinnugrein?

Ein leiðin til þess að skoða það er sú sem ég leyfi mér að styðjast við hér, með leyfi forseta. Frjáls verslun gefur út bók sem heitir ,,300 stærstu fyrirtæki landsins``. Þar er á bls. 76 listi yfir þau fyrirtæki sem högnuðust mest á síðasta ári. Það er eðlilegt að skoða þau fyrirtæki, með leyfi forseta. Þetta eru fyrirtæki sem högnuðust, hafa peninga og fjármuni og gætu hugsanlega fjárfest í öðrum starfsgreinum, dreift áhættunni sem er eðlilegt og æskilegt fyrir framþróun atvinnulífs. Hér eru 90 fyrirtæki.

1. Efst á lista er Baugur. Það ástæðulaust að nefna hann, hann er örugglega markaðsráðandi.

2. Landsvirkjun, markaðsráðandi reikna ég með.

3. Eimskipafélag Íslands, markaðsráðandi.

4. Íslandsbanki, jú talið er að stóru bankarnir hér á landi séu allir í markaðsráðandi stöðu.

5. Pharmaco, sem núna heitir Actavis ef ég man rétt. Vafalaust á einhverju sviði með markaðsráðandi stöðu.

6. Kaupþing, sem heitir KB banki í dag. Jú, markaðsráðandi.

7. Flugleiðir, markaðsráðandi staða.

8. Alcan á Íslandi. Það má svona velta því fyrir sér með þessi álfyrirtæki sem verða senn þrjú en það má búast við því að niðurstaðan verði sú að það teljist markaðsráðandi.

9. Orkuveita Reykjavíkur. Ekki veit ég um mikla samkeppni á þeim markaði sem það fyrirtæki starfar á.

10. Búnaðarbankinn, hefur sameinast frá því í fyrra Kaupþingi.

11. Síðan kemur fjárfestingarfélag sem heitir Ker. Jú, það kæmi til greina, en hins vegar mætti ætla að bakhjarlar þess félags væru aðilar að markaðsráðandi fyrirtækjum og því væri það a.m.k. skoðunar virði.

12. Landssími Íslands. Markaðsráðandi.

13. Landsbanki Íslands. Markaðsráðandi.

14. Samherji. Loksins í 14. sæti fann ég eitt fyrirtæki sem hefur ekki markaðsráðandi stöðu. Það er í sjávarútvegi þar sem reyndar er með lögum sett kvótaþak þannig að þau fyrirtæki eiga ekki kost á slíkri stöðu. Þarna fann ég eitt.

15. Fyrirtæki númer tvö sem má örugglega eiga fjölmiðil, það er Grandi, sjávarútvegsfyrirtæki.

16. Bakkavör Group. Það kemur til greina. Hins vegar gæti einhver sagt sem svo að þeir séu of áhrifaríkir í KB banka. Þeir eru einir helstu eigendur þar og fara fyrir og einhverjir mundu gera athugasemdir þar.

17. Olíuverslun Íslands. Markaðsráðandi.

18. Skeljungur. Markaðsráðandi.

Síðan koma nokkur sjávarútvegsfyrirtæki: Útgerðarfélag Akureyrar, Síldarvinnslan, Þormóður rammi, Eskja, Haraldur Böðvarsson. Þar er ég kominn í 24. sæti og svona get ég talið áfram og við þessa upptalningu kemur í ljós að af þeim 90 fyrirtækjum sem högnuðust hvað mest á síðasta ári er ljóst að um 60 þeirra hafa annaðhvort markaðsráðandi stöðu eða þá að mikið álitamál er hvort svo sé. Nær öll þessi fyrirtæki velta meira en tveimur milljörðum þannig að sá fyrirvari sem settur er breytir engu varðandi möguleika þessara fyrirtækja á virkri fjárfestingu.

En þegar við skoðum þessi fyrirtæki, þessi 30 eða svo sem mega eiga. Hvað kemur þá í ljós? Þetta eru nær allt sjávarútvegsfyrirtæki. Þá spyr ég: Er það markmið þessara laga, að kvótakóngar og fyrirmenn í sjávarútvegsfyrirtækjum séu þeir einu sem megi fjárfesta og eiga virkan hlut í íslenskum ljósvakafyrirtækjum?

Á þessum stað í ræðu minni vil ég undirstrika það að ljósvakamiðlar eru engin smáfyrirtæki. Varðandi þá samsteypu sem oft er nefnd í þessari umræðu, Norðurljós, þá er ekkert áhlaupaverk að gerast þar leiðandi fjárfestir. Fyrirtækið skuldar um 5 milljarða kr. Það þýðir vaxtagreiðslur á ári upp á nærri 300 millj. kr. þannig að afgangurinn af rekstri þarf að vera a.m.k. 300 millj. kr. svo að fjárfestirinn sé ekki beinlínis að tapa peningum. Við erum að tala um verulega fjármuni. Líklegustu fjárfestarnir í svo stóru fyrirtæki hljóta að vera stærstu fyrirtækin í atvinnulífi okkar.

Helsta niðurstaðan af þessari einföldu athugun er sem sagt sú að svo virðist sem nær einvörðungu sjávarútvegsfyrirtæki megi vera leiðandi í rekstri á ljósvakamiðlum, eiga allt að 35%. Hvort þetta voru hin duldu markmið þessa frv. veit ég ekki, en svona birtist þetta.

Þá er að skoða ákvæðið um að óheimilt sé að einn aðili eða samsteypa eigi yfir 25% í útvarpsrekstrarfélagi. Þarna er á ferðinni hugmynd sem óhætt er að segja að hafi verið mjög vinsæl á níunda áratugnum og fram á tíunda áratug síðustu aldar, þ.e. að fyrirtæki ættu að vera í sem dreifðastri eignaraðild, að eigendur ættu að vera margir og enginn ætti að hafa þar afgerandi forustu. Sá hugsunarháttur var mjög ríkjandi og hefur oft verið haldið á lofti hér á landi, einkum og sér í lagi í Morgunblaðinu.

Eitt mál sem kennt er við Enron í Bandaríkjunum varð svo eiginlega endahnúturinn á þeim draumi. Ef við skoðum nýjustu tilmæli Verslunarráðs varðandi stjórnarhætti í fyrirtækjum og það sem heitir á ensku ,,Corporate Governance`` eða eitthvað álíka þá er þar lögð höfuðáhersla á að koma í veg fyrir að hinir ráðnu stjórnendur fyrirtækjanna fari sínu fram óháð vilja eigenda. Enron-dæmið var dæmið sem þar er gengið út frá. Þar náðu stjórnendur yfirtökum, ef svo má segja, en eigendur misstu tökin á fyrirtækinu. Það var engin skýr forusta í þeirra hópi og stjórnendur náðu yfirráðum. Þessi hugmyndafræði um að ekki megi vera leiðandi fjárfestar, ég a.m.k. set spurningarmerki við hana.

Aðalatriðið í þessu samhengi er hversu stór hluti íslenskra fyrirtækja fær ekki að komast í þá stöðu að vera virk og leiðandi í ljósvakamiðli, gefa allt sitt í að byggja upp slíkt fyrirtæki.

Þá er komið að ákvæði sem í raun tryggir að ljósvakafyrirtæki komist ekki í Kauphöllina, nái ekki því að vera skráð á hlutabréfamarkað. Þar segir:

,,Skylt er þeim aðilum sem útvarpsleyfi hafa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um allar breytingar sem verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum sem kveðið er á um í a- og b-lið.``

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Ef svona ákvæði gilti um fyrirtæki í Kauphöllinni þýddi það að stöðugt þyrfti að fylgjast með, í fyrsta lagi markaðsráðandi stöðu viðkomandi fyrirtækis og í öðru lagi veltu. En þetta eru breytilegar stærðir og þyrfti heila stofnun, margfalda Samkeppnisstofnun, í að fylgjast stöðugt með því í hvert skipti sem einhver hreyfing yrði á bréfum í slíku fyrirtæki og hvort aðilar séu þar að gera eitthvað sem ekki má. Markaðsráðandi staða getur breyst á einum degi. Keppinautur getur farið á hausinn. Fyrirtæki er með 25% eign í einhverju félagi og verður að selja einn, tveir og þrír, nauðungarsölu, á verði sem einhverjir opinberir aðilar ákveða hvað verður. Það eina sem gerðist var að viðkomandi stóð sig vel í samkeppni á öðrum vettvangi og keppinautur hans ákvað að verja tíma sínum og fjármunum í annað.

[18:30]

Hvað gerist ef vel gengur og veltan fer allt í einu upp fyrir þessa tvo milljarða?

Fyrirtæki sem búa við slík skilyrði eiga mjög erfitt með að vera skráð í Kauphöll. Þar gilda sérreglur og að mínum dómi er þetta ljósvakafyrirtæki útilokað frá hlutabréfaþingi, frá Kauphöll. Kauphöll er farsælasta og heppilegasta leið fyrir fyrirtæki til að fjármagna fjárfestingar sínar. Auk þess gerist það við skráningu að fyrirtækið þarf að uppfylla fjölmörg skilyrði sem eru mjög heppileg hvað varðar skil á ársreikningum, upplýsingar um eignarhald o.s.frv.

Það er sem sagt verið að segja að í þessari grein sem ég leyfi mér stundum að kalla grein hugvits, tækni og framtíðar sé verið að segja nei. Nei, þið fáið ekki þennan verkfærakassa sem Kauphöllin er.

Þetta er ekki til þess fallið að styrkja þessa atvinnugrein.

Þá vil ég gera aftur að umtalsefni það atriði að útgefendur blaða megi ekki eiga í útvarpsrekstrarfélögum. Það hefur margoft komið fram að þetta ákvæði hindrar tækniþróun og kemur í veg fyrir mögulegar hagræðingar. Í ljósi nýrrar tækni er það líka arfavitlaust vegna þess að skilin á milli prentmiðla og ljósvakamiðla eru söguleg. Stafræna tæknin sem við höfum búið við í 15 ár hefur eytt þessum mun. Ég vil bara benda hér á nokkur dæmi.

Bónus getur á morgun opnað sjónvarpsfréttastofu og sent út fréttir á breiðbandi Landssímans. Það brýtur ekki þessi lög vegna þess að slík starfsemi er ekki háð útvarpsrásum, breiðbandsútsendingar eru ekki leyfisskyldar. Ég get opnað fréttastofu sjálfur, sett upp hljóð- og myndskrár á vefsíðu og allir þeir sem hafa háhraðatengingar geta keyrt útsendingar mínar upp á skjáinn sinn og fylgst með þessu. Ef eitthvað er gerir þetta starfandi fyrirtækjum í fjölmiðlun erfiðara fyrir að takast á við þetta. Hitt væri heppilegra. Auk þess, bara einfalt dæmi: Prentmiðillinn Morgunblaðið gæti fengið sér hugbúnað sem les blaðið og sent það út á netinu sem hljóðskrár, sem útvarp. Þetta er mögulegt í dag.

Það sem ég er að benda á er að þetta er mjög undarlegt ákvæði í dag. Það er sögulegt og víðast hvar erlendis þar sem takmarkanir af þessu tagi eru eru þær oftast líka jafnframt bundnar svæðum en útiloka ekki alveg möguleika fyrirtækja á að þróa sig beggja vegna.

Við þessa athugun mína sem, eins og ég sagði áðan, hefði frekar átt að vera unnin af fagmönnum og unnin áður en þetta frv. var smíðað varð niðurstaðan tær. Sá hópur kaupenda sem er líklegur til að fjárfesta í ljósvakamiðlum er skorinn niður. Eftirspurnin minnkar. Fjárfesting í ljósvakafyrirtækjum verður annars flokks. Verðmætin rýrna. Þetta er eins og húseign sem er í miðbænum og eigandinn flytur hana þangað sem einungis þriðjungseftirspurn er, og hvað gerist? Hún lækkar í verði.

Í dag fjárfesta menn til að selja síðar með hagnaði. Þetta er hinn nýi tími í íslensku atvinnulífi. Menn fjárfesta ekki í atvinnufyrirtækjum til þess að reka þau í þrjár kynslóðir. Þetta er hinn nýi tími. Menn fjárfesta til að selja síðar með hagnaði. Með þessum lögum situr fjárfestirinn hins vegar inni, hann á erfitt með að finna kaupanda. Þessi eru starfsskilyrði atvinnufyrirtækja í þessari starfsgrein hugvits, tækni og framtíðar sem hinn nýi Sjálfstfl. með ungliðana í allshn. berst nú fyrir með kjafti og klóm. Þetta eru þau starfsskilyrði sem hinn nýi Sjálfstfl. er að berjast fyrir, þ.e. að gera mönnum ekki kleift að komast út. Þetta eru þau skilaboð sem Sjálfstfl. vill senda hinu alþjóðlega viðskiptasamfélagi um það við hvernig skilyrði íslenskum fyrirtækjum er gert að starfa. Hafi Sjálfstfl. einhvern tíma verið flokkur atvinnulífsins er hann það ekki lengur, það er víst.

Þá vil ég segja að þær breytingar sem orðið hafa á frv. frá í upphafi eru bita munur en ekki fjár. Góður maður sagði við mig: Forsrh. steig fram og heimtaði dauðadóm. Nú hefur honum verið breytt í ævilangt fangelsi. Stjórnarliðar eru afar kátir yfir þessum breytingum en hafa gleymt því að sakborningurinn er saklaus, alltént hefur hann ekkert brotið af sér en forsendan er sú að hann sé líklegur til þess vegna stærðar sinnar.

Kjarni þessa máls er sá að ljósvakafyrirtæki eru gerð að annars flokks fjárfestingu.

Virðulegi forseti. Samf. telur að þetta frv. veiki ljósvakafyrirtæki, stuðli ekki að fjölbreytni í dagskrá og vinni alls ekki gegn því að eignarvald ráðskist um of með ritstjórnarvald. Samf. hefur sett fram hugmyndir sínar um hvernig megi glíma við þann vanda sem af fákeppni á fjármálamarkaði kann að stafa.

Í fyrsta lagi hefur Samf. margítrekað nauðsyn þess að efla Ríkisútvarpið og þá einkum og sér í lagi innlenda dagskrárgerð sem nú sveltur sem aldrei fyrr eftir áratuga setu sjálfstæðismanna í menntmrn.

Samf. hefur lagt til frv. um gagnsæi. Hvað þýðir það? Það þýðir að við viljum að markaðurinn sé upplýstur. Við viljum virkja kraft samkeppninnar. Við viljum upplýsa lesendur, áhorfendur, birgja og auglýsendur um það hverjir eigi þau fyrirtæki og þá fjölmiðla sem þeir skipta við. Augljós kostur.

Að sjálfsögðu er í þessu frv. ekki kveðið á um neitt sem kalla má gagnsæi.

Þá hefur Samf. lagt áherslu á að efla sjálfstæði ritstjórna. Hæstv. dómsmrh. sagði héðan úr þessum stól að það væri fárán\-legt að löggjafinn væri að skipta sér af starfsemi fyrirtækja með því að setja lög og reglur um hvernig vinnubrögðum ætti að vera háttað.

Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi staðið að því að samþykkja lög um fjármálafyrirtæki. Þar eru mjög ítarlegar skilgreiningar á því hvernig skipulagi eigi að vera háttað, kallað eftir innri reglum. Allt til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Í skipulagsreglum um fjölmiðla væri t.d. hægt að draga upp þá mynd að stjórnarmaður í Norðurljósum gæti ekki á sama tíma verið framkvæmdastjóri í dótturfélagi sem fer með rekstur tveggja blaða og verið síðan ritstjóri annars þeirra. Það er einfalt að kveða á um skipulag sem kemur í veg fyrir þetta. Að sjálfsögðu hlýtur að vera óþolandi fyrir ritstjóra á einu blaði að yfirmaður hans sé ritstjóri á öðru blaði í sömu eigu.

Ég held einnig að innri reglur varðandi ráðningar starfsmanna, hvaða kröfur eru gerðar, hvaða réttindi þeir hafa, eigi að sjálfsögðu að gilda. Tilefni þessa er það fíaskó sem við höfum heyrt af varðandi mannaráðningar hjá Ríkisútvarpinu. Þar virðast reglur vera vægast sagt mjög óljósar þegar verið er að ráða fréttamenn. Þarna tel ég að megi koma með leiðbeinandi vísbendingar.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að kveðið sé á um meðferð gagna. Þannig vill til að margir líta svo á að tölvupóstur sem er á netfangi fyrirtækis sé í eign þess. Mér er ekki kunnugt um að úr því hafi verið skorið hér á landi en erlendis hafa fallið dómar þessa efnis. Hvað varðar blaðamenn tel ég þetta vera mjög óeðlilegt. Það brýtur gegn því trausti sem þeir hafa gagnvart heimildarmönnum sínum. Að sjálfsögðu er létt að setja fram tilmæli hvað þetta varðar. Það er ekki að ástæðulausu því að í máli sem kom upp á Stöð 2 þegar einn eigandi reyndi að hafa afskipti af störfum fréttastofu var í framhaldinu farið í tölvupóst blaðamanna. Raunar var einn starfsmaður síðan látinn fara í framhaldi af því máli öllu. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir starfsmenn fjölmiðla að hafa leiðbeiningar, leiðbeiningar sem Alþingi getur gefið leiðsögn um. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir starfsmenn til þess að fóta sig í því ástandi sem kann að skapast þegar svona mál koma upp.

Þá held ég að eitt af því sem gæti eflt sjálfstæði ritstjórna og væri ástæða fyrir Alþingi að skoða væri hreinlega aukin vernd og réttindi blaða- og fréttamanna, t.d. lengri uppsagnarfrestur en gerist og gengur. Væri verið að segja mönnum upp af óeðlilegum ástæðum blæddu menn a.m.k. fyrir það einhvers staðar, eða menn hugsuðu sig þá kannski frekar tvisvar um.

Allar þessar hugmyndir Samf. falla innan tillagna þeirra sem fram komu í þeirri ágætu skýrslu sem unnin var og þetta frv. er sagt byggja á. Þær rúmast vel innan þeirrar skýrslu. Allar þessar aðgerðir mega teljast mildari en finna má í frv. forsrh. Ég minni á tilmæli Evrópuráðsins um að séu hin sterkari meðul tekin fram yfir þau mildari skuli það vera rökstutt. Í málflutningi stjórnarliða hef ég aldrei heyrt rökstuðning fyrir því hvers vegna þessi skref eru ekki tekin fyrst. Þessar tillögur, tillögur Samf., eru líklegri til að ná settu marki, sem er fjölbreytni í dagskrá fjölmiðla, og um þær hefði auðveldlega verið hægt að ná góðri sátt.

Í þessari einu ræðu minni um málið hef ég haldið mig við efnisatriði þessa undarlega frv. Ég hef fært rök fyrir því að ákvæði frv. muni ekki leiða að settu marki um fjölbreytni fjölmiðla, heldur munu þau veikja íslenska ljósvakamiðla, draga mátt úr atvinnugrein hugvits, tækni og framtíðar og skaða alþjóðlegt orðspor íslensks atvinnulífs.

Þá hef ég gert grein fyrir úrræðum Samf. Þau eru í senn sanngjörn, áhrifarík og til þess fallin að efla íslenska fjölmiðla.

Hæstv. forseti. Það er miður fyrir íslenskt atvinnulíf að Samf. sitji ekki í landstjórninni svo að ólög eins og þessi þyrftu ekki að ganga yfir þjóð okkar.