Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 20:01:36 (8702)

2004-05-19 20:01:36# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (frh.):

Virðulegur forseti. Ég var þar komin í ræðu minni áðan að ég var að fjalla aðeins um hinn sterka vilja stjórnarherranna, þeirra sem fara með tögl og hagldir í íslensku stjórnmálalífi, þ.e. forsrh. og utanrrh. Ég færði rök fyrir því, virðulegur forseti, að þessi vilji hefði m.a. birst í Íraksmálinu, þ.e. þegar Íslendingar studdu siðferðilega innrásina í Írak, í öryrkjamálinu, þegar ríkisstjórnin varð ber að því að brjóta íslenska stjórnarskrá á þessum hópi í samfélaginu og í útlendingafrumvarpinu þar sem gengið er á réttarstöðu og dregið úr almennri réttarvernd útlendinga. Hann birtist okkur í skipan hæstaréttardómara þar sem dómsmrh. fór á svig við dómstólalög, stjórnsýslulög og jafnréttislög vegna þess að hann vildi að geðþóttavilji hans næði fram að ganga. Þetta hefur birst okkur í samskiptum forsrh. við umboðsmann Alþingis. Þetta hefur birst okkur í frv. sem liggur fyrir þinginu um meðferð opinberra mála þar sem m.a. er fjallað um mál sem lúta að mikilvægum mannréttindum eins og hlerun og aðgangi verjanda að gögnum.

Öll þessi mál hafa verið ákveðin eða undirbúin einhliða í ráðuneytunum, án samráðs við þá sem best til þekkja. Hvarvetna er kvartað yfir skorti á samráði í samfélaginu og það birtist okkur m.a. á útifundinum á Austurvelli í dag þar sem fólkið lét til sín heyra og dreifði m.a. blaði þar sem yfirskriftin var Virkara lýðræði. Ég ætla með leyfi forseta að lesa þetta, þetta er örstutt.

,,,,Frá þeirri ákvörðun var aldrei hvikað,`` sagði forsætisráðherra fyrir rúmu ári síðan um sameiginlega ákvörðun sína og utanríkisráðherra í umdeildu máli. Í stjórnmálum er óhvikul staðfesta leiðtoganna frækorn ofbeldis og lýðræðinu fjandsamleg. Ef þeir kunna ekki að hlusta hnignar lýðræðinu.

Leiðtogar landsins líta á lýðræðið sem einfalt meirihlutavald. Þá víkur samviskan fyrir flokksaga, og sjálfstæð hugsun fyrir duttlungum einstaklinga. Stjórnkerfið breytist í formreglur sniðnar að fyrirætlunum valdhafa. Þegar þannig er ástatt er vilji almennings að engu hafður, mikilvægum staðreyndum er leynt, lagt er til atlögu við einstaklinga og fyrirtæki í stað þess að setja almennar leikreglur.

Í gömlu ættjarðarkvæði er talað um ,,þúsund radda brag``. Í virku lýðræði þurfa þúsundir radda að heyrast og leiðtogarnir verða að hlusta. Við krefjumst þess að stjórnvöld vakni af dásvefni valdhrokans og fari að hlusta á raddir þegna sinna. Við krefjumst þess að raunverulegar umræður fari fram áður en ákvarðanir eru teknar. Við krefjumst gagnsæis og höfnum leynimakki. Við krefjumst þess að lýðræðið virki!``

Á þessum sama fundi hélt Ólafur Hannibalsson ágæta ræðu sem var lýsandi um viðhorf fólks til stjórnvalda. Tæpast verður Ólafur Hannibalsson sakaður um það að vera leiguþý Baugsmanna en þá er hann kannski bara í staðinn nytsamur sakleysingi. Helst er nefnilega að skilja á ráðamönnum að þeir séu það sem ekki eru með forsrh. og hans mönnum í liði. Þeir eru ýmist Baugsmenn, Baugsliðar eða nytsamir sakleysingjar. Ólafur Hannibalsson byrjaði ræðuna á að segja: Gjör rétt, þol ei órétt, og sagði síðan, með leyfi forseta:

,,Áðurgreind orð gerði Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, að kjörorði sínu. Þau heyrast sjaldan núna í seinni tíð. Ég hygg að við sem hér erum saman komin getum öll gert þau orð að okkar, hvar í flokki sem við annars stöndum. Vissulega er mikilsvert að leitast við af fremsta megni að gjöra rétt. Hitt er ekki minna um vert að rísa gegn óréttinum í hverri mynd sem hann birtist, ekki aðeins þegar við verðum fyrir barðinu á honum sjálf, heldur ekki síður þegar hann virðist bitna á öðrum. Ef við ekki rísum upp gegn óréttinum mun hann að síðustu lykja um okkur löngum armi sínum og herða að. Því erum við hér saman komin til að snúast gegn þeim órétti sem nú er verið að fremja í húsinu hér andspænis okkur.``

Svo segir:

,,Það er athyglisverð frétt í Morgunblaðinu í morgun, framkvæmdastjóri danska Rauða krossins fordæmir stjórnvöld þar í landi fyrir það sem hann kallar meðvirkni þagnarinnar.``

Svo segir Ólafur Hannibalsson:

,,Við sem hér erum saman komin viljum ekki vera þátttakendur í meðvirkni þagnarinnar, heldur rísa upp gegn óréttinum og láta til okkar heyra.``

Það var það sem þetta fólk var að gera á Austurvelli í dag.

Við getum rætt þetta mál tæknilega eins og ég sagði áðan. Við getum rætt um prósentur og við getum rifjað upp hver sagði hvað og hvenær. Það hefur í raun enga þýðingu fyrir málið. Það eina sem hefur þýðingu fyrir málið á þessu stigi er lýðræðið og tjáningarfrelsið. Við neitum einfaldlega að láta ríkisstjórnarflokkana eina um að undirbúa og stjórna vinnu sem lýtur að lögum um fjölmiðla sem hafa í för með sér takmarkanir á tjáningarfrelsinu. Þegar kemur að lýðræðinu og tjáningarfrelsinu höfum við öll skoðanir á því. Við höfum öll vit á því og við höfum öll mikið til málanna að leggja, hvar í flokki sem við stöndum og hvort sem við erum utan þings eða innan. Það er með öllu ólíðandi að stjórnarflokkarnir undirbúi og stjórni einir vinnu sem lýtur að lögum um fjölmiðla. Það á ekki að gerast og það má ekki gerast.

Það sem gerir þetta mál enn verra en ella væri er að það ber öll merki ritskoðunar. Það hefur komið fram hátt og í hljóði, bæði innan þings og utan, hjá ráðherrum og stjórnarþingmönnum að skrif og fréttaflutningur ákveðinna fjölmiðla skapraunar þeim. Það er svo margt sem skapraunar þessum ágætu ráðamönnum. Það þarf auðvitað að reyna að ná tökum á því. Það þarf að stoppa það. Það þarf að stoppa fjölmiðla. Það þarf að láta Hæstarétt vinna eins og honum ber. Það þarf að stoppa umboðsmann Alþingis og það þarf að stoppa forsetann, að sjálfsögðu.

Viðtöl sem hafa verið við ráðamenn bera þess mikinn vott hvernig þeir hugsa. Ég þarf ekki annað en að vitna í það sem hæstv. forsrh. sagði í viðtali við Stöð 2 26. apríl. Þá sagði hæstv. forsrh. um fréttamennskuna, með leyfi forseta:

,,Hefurðu ekki séð stríðsfyrirsagnirnar? Hefurðu ekki séð árásirnar og hefurðu ekki séð gauraganginn?``

Fréttamaðurinn sagði: ,,Nei.`` Þá sagði hæstv. forsrh.: ,,Þá þarftu nú að fá þér gleraugu eða betri gleraugu.``

Hann er spurður í sjónvarpinu þennan sama dag: ,,Hafnarðu þá þeirri gagnrýni að þessu frumvarpi sé beint gegn Norðurljósum?`` Þá segir forsrh.: ,,Ég tel að þetta sýni hins vegar mjög vel að það er ekkert frelsi blaðamanna á þessum fjölmiðlum. Þar er algjörlega og eingöngu gengið erinda eigendanna.``

(Forseti (JóhS): Forseti vill minna á að það þarf leyfi forseta til að vitna í prentað mál.)

Virðulegur forseti. Ég hélt að ég hefði beðið um það í upphafi þegar ég byrjaði að vitna í það. Hafi ég ekki gert það geri ég það hér með.

Forsætisráðherra segir:

,,Ég tel að þetta sýni hins vegar mjög vel að það er ekkert frelsi blaðamanna á þessum fjölmiðlum. Þar er algjörlega og eingöngu gengið erinda eigendanna.``

Svo segir forsrh., með leyfi forseta:

,,Skoðið nú bara þessa fjölmiðla hérna í dag.`` Fréttamaðurinn spyr: ,,Geturðu nefnt okkur dæmi?`` Hæstv. forsrh. segir: ,,Öll blöðin í dag, öll. Kíkið á þau.``

Þetta var orðastaður sem hæstv. forsrh. átti við tvo fréttamenn um það hvernig honum fannst vera komið fyrir fjölmiðlunum. Auðvitað finnst honum þurfa að stoppa þetta.

Ég held líka að það sem mönnum gangi til sé sannfæring þeirra fyrir því að stöðva þurfi vonda menn, koma þurfi í veg fyrir að skúrkar eigi eða eignist fjölmiðla. Það kom kannski hvað best fram í Morgunblaðinu í leiðara 27. apríl þar sem fjallað var um hugsanlega kaupendur blaðsins The Daily Telegraph. Þar er annars vegar fjallað um breskan klámkóng sem hafði áhuga á að eignast The Daily Telegraph og hins vegar þýskt útgáfufyrirtæki, Axel Springer, sem hafði líka áhuga á að eignast blaðið. Morgunblaðið byrjar á því að segja, með leyfi forseta:

,,Oft er kjarninn í þessari löggjöf sá, að takmarka möguleika fjölmiðlafyrirtækja á að eiga margar tegundir fjölmiðla, þ.e. bæði ljósvakamiðla og dagblöð. Í öðrum tilfellum eru takmarkanir á, hverjir mega eiga fjölmiðla.``

Síðan segir blaðið, með leyfi forseta:

,,Stundum er opinber aðili fenginn til þess að leggja mat á, hvort tiltekinn einstaklingur eða fyrirtæki megi eignast dagblað, sem á sér djúpar rætur í viðkomandi þjóðfélagi.``

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Þegar fréttir bárust af því, að þýskt útgáfufyrirtæki, Axel Springer, væri hugsanlegur kaupandi að The Daily Telegraph, gekk klámkóngurinn fyrrverandi á fund framkvæmdastjóra blaðsins, heilsaði með nasistakveðju og dembdi úr sér fúkyrðum og svívirðingum um þýsku þjóðina. Æskilegur eigandi að The Daily Telegraph, þótt hann eigi peninga til að kaupa blaðið?``

Nei, ég held að við getum alveg svarað því að hann sé ekki æskilegur eigandi blaðsins þótt hann eigi peninga til að kaupa það. En hvernig á að koma í veg fyrir það með lagasetningu, hvernig getum við leitt það í lög að vondir menn og skúrkar verði ekki eignamenn eða ráðamenn í íslensku samfélagi? Hvernig eigum við að leiða það í lög, virðulegur forseti? Í réttarríkinu er það ekki hægt. Það er hægt að gera það í lögregluríkinu en í réttarríkinu eru allir jafnir gagnvart lögunum. Í réttarríkinu reynum við hins vegar að koma í veg fyrir að skúrkarnir misnoti þann rétt sem samfélagið tryggir þeim, misnoti vald sitt eða eignir og ógni almannahagsmunum. Við komum lögum yfir þá eftir þeim leiðum sem til þess eru færar og tiltækar hafi þeir gerst brotlegir en við gerum það ekki eftir einhverjum öðrum krókaleiðum. Það gerum við ekki í réttarríkinu.

Ég vil í því sambandi minna á það sem Hreinn Loftsson, stjórnarformaður held ég að hann sé í Baugi, sagði eftir bolludagsmálið, með leyfi forseta:

,,Stjórnarfar í landinu ber sífellt meiri keim af geðþóttaákvörðunum þar sem grundvallarreglur réttarríkisins eru brotnar í hverju málinu á fætur öðru.``

Þetta viljum við auðvitað ekki, virðulegur forseti. Í réttarríkinu eru allir jafnir. Í réttarríkinu getum við ekki komið í veg fyrir það að einhverjir sem okkur finnst vera vondir eða einhverjir sem við teljum að séu skúrkar eigi eignir eða hafi einhver ráð í hendi sér. Við getum hins vegar komið lögum yfir þá eftir þeim leiðum sem til þess eru tiltækar hafi þeir gerst brotlegir.

[20:15]

Ég hjó eftir því í umræðum í þinginu í dag að þingmaður einn spurði hvort menn vildu innleiða hér ástand eins og á Ítalíu, hvort menn vildu fá Berlusconi á Íslandi. Hann taldi mikilvægt að takmarka eignarhald á fjölmiðlum til að koma í veg fyrir að við fengjum íslenskan Berlusconi. Það er ekkert í þessu frv., virðulegur forseti, sem kemur í veg fyrir að fáum íslenskan Berlusconi. Þótt frv. verði að lögum getur það ekki komið í veg fyrir slíkt. Dómsmrh., menntmrh. og vinir þeirra gætu að sjálfsögðu eignast Stöð 2 ef hún væri föl og þeir hefðu tök á því. Þeir gætu eignast Stöð 2, fræðilega, og haft þannig bein og óbein tök á öllum ljósvakanum í landinu. Svo geta vinir þeirra á Mogganum, fræðilega séð, ekkert getur komið í veg fyrir það ef því væri að skipta, eignast Fréttablaðið og DV og haft tök á öllum prentmiðlum. Ekkert í frv. kemur í veg fyrir það.

Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að það gæti skapast ástand eins og hér var vitnað til með Berlusconi. Það er engin vörn í frv. sem hér liggur fyrir hvað það varðar. Eina vörnin til að koma í veg fyrir slíkt er fólgin í sjálfstæðu, öflugu ríkisútvarpi sem er laust úr pólitískum viðjum Sjálfstfl. og í skýrum reglum um sjálfstæði ritstjórna og fréttastjórna á einkareknum og ríkisreknum fjölmiðlum, reglum sem geta verið þeim til varnar ef á þarf að halda.

Eigendur að fjölmiðlum, jafnvel þótt þeir séu ekki markaðsráðandi, geta verið skúrkar og geta reynt að hafa áhrif á fréttamenn sína, blaðamenn og ritstjóra, jafnvel þótt þeir séu ekki markaðsráðandi. Þess vegna er eina vörnin fólgin í reglum sem geta varið fréttamenn, fréttastofur, ritstjóra og fréttastjóra. Dregið hefur verið í efa að þetta sé hægt. Það var m.a. dregið í efa í þeim leiðara Morgunblaðsins sem ég las úr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,... Rupert Murdoch ... fór einfaldlega í prentsmiðju blaða sinna og breytti fyrirsögnum, ef honum bauð svo við að horfa. Slíkur eigandi stendur aldrei við gefin loforð eða gerða samninga um sjálfstæði ritstjórna ... Murdoch braut alla samninga ...``

Auðvitað getur slíkt gerst. Það er aldrei neitt öryggi í þessum efnum. Við höfum reglur um umboðsmann Alþingis en það kemur ekki í veg fyrir að einhverjir reyni að segja honum fyrir verkum. Hann hefur samt vörn af þeim reglum sem um hann gilda. Hann hefur skjól af hinu almenna viðhorfi samfélagsins, að ráðamenn eigi ekki að segja honum fyrir verkum. Þetta gæti líka átt við um fjölmiðlana. Við gætum þróað slíkar reglur og slíkt siðferðisviðhorf í samfélaginu að fréttamenn, blaðamenn, ritstjórar og fréttastjórar hefðu vörn af slíkum reglum þótt aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að einhverjir misnoti þær reglur eða reyni að teygja þær og toga. Það þekkjum við af öðrum sviðum samfélagsins.

Virðulegur forseti. Að lokum örfá orð um það sem er að gerast í nágrannaríki okkar, Danmörku. Mér hefur heyrst það af umræðunni hér, sérstaklega hjá hæstv. menntmrh., að hægt sé að sækja sitthvað í smiðju Dana varðandi fjölmiðlana og taka Danmörku sér til fyrirmyndar enda sé þar tiltölulega ströng löggjöf í gildi. Hins vegar sá ég það í dag, í Berlingske Tidende og í Politiken í Danmörku, að þar er verið að fjalla um TV2, eins og hún heitir í Danmörku, þ.e. sjónvarpsstöð sem hefur verið rekin af ríkinu en verið var að sekta um hvorki meira né minna en 600 millj. danskra króna. Stöðin var sektuð um 600 millj. danskra króna fyrir að hafa notað opinbert fé, sem stöðin fær greitt í gegnum afnotagjöld eða öðruvísi beint frá ríkinu, til að standa undir þeim þætti sjónvarpsrekstursins sem ekki telst vera almannaþjónusta, þ.e. almennri afþreyingu. Það er greinilega gert ráð fyrir því í Evrópusambandinu að þeir fjármunir sem koma beint frá skattgreiðendum eða beint frá notendum í krafti löggjafar eigi að standa undir því sem kallast almannaþjónustan hjá þessum miðlum en tekjur sem þeir fá af auglýsingum eigi að standa undir afþreyingunni. Þetta teljast þeir ekki hafa gert frá árinu 1995 heldur notað fjármuni frá ríkinu í afþreyingarþáttinn. Nú er verið að sekta TV2 um 600 millj. danskra króna. Danska ríkisstjórnin, sem mér hefur skilist að sú íslenska taki sér mjög til fyrirmyndar, hefur ákveðið að selja TV2. Það er umdeild ákvörðun og ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla um hana hér en ríkisstjórnin hefur tekið hana og hefur leitað að aðilum til að kaupa stöðina.

Nú er verið að fjalla um það í dönsku fjölmiðlunum í dag að aðallega bítist tveir hópar um TV2. Annars vegar sænski fjölmiðlarisinn Bonnier sem hefur, held ég megi segja, um 200 félög og fyrirtæki á sínum vegum og er mjög stórtækur í ljósvakamiðlum alls staðar á Norðurlöndunum. Ég held að hann sé með, af því að menn hafa talað um virðiskeðjuna hér á landi, alla virðiskeðjuna meira og minna undir. Hann er núna að bindast böndum við Berlingske, sem gefur m.a. út danska stórblaðið Berlingske Tidende. Þessir aðilar kváðu ætla að bjóða saman í TV2. Svo er annar norrænn fjölmiðlarisi, Egmont, sem ásamt Politiken og Jyllandsposten, sem er dagblað, er hinn aðilinn sem ætlar að bjóða í TV2, þ.e. þetta er virðiskeðjan öll á þessum markaði. Þarna undir eru sjónvarpið og stór dagblöð og þessir aðilar ætla að bjóða í TV2.

Ástæðan er auðvitað sú, sem hér kom fram í ágætri ræðu hjá hv. þm. Samf. Ásgeiri Friðgeirssyni, að komin er ný tækni sem sameinar þessa miðla og er í raun úrelt að vera að gera slíkan greinarmun á prentmiðlum og ljósvakamiðlum, gera svo skýra aðgreiningu þar á milli. Þess vegna er sú staða uppi á Norðurlöndunum, að upp eru komnir talsvert stórir fjölmiðlarisar sem eru með virðiskeðjuna alla meira og minna undir. Ástæðan er auðvitað líka sú að umtalsverða fjármuni þarf til að halda úti fréttastofum og metnaðarfullri dagskrárgerð. Það verður ekki gert nema fyrirtækin sem að því standa séu talsvert öflug.

Þótt ég taki þetta dæmi frá Danmörku ætla ég ekki að segja að þetta sé sérstaklega til fyrirmyndar. Ég tek þetta bara sem dæmi um hvað er að gerast á fjölmiðlamarkaðnum, hve mikil gerjun er og hve mikið að gerast á markaðnum sem við þurfum að fylgjast með. Við þurfum að átta okkur miklu betur á þessum markaði en gert hefur verið í aðdraganda þessa máls. Að vísu starfaði einhver fjölmiðlanefnd en hún fór aðallega yfir Evrópuráðssamþykktir um málið. En nefndin mat ekki hvaða þróun er í gangi á fjölmiðlamarkaði almennt og hvernig tækniþróunin t.d. er. Hún mat ekki hvaða áhrif og afleiðingar einstakar aðgerðir gætu hugsanlega haft. Hún hafði bara ekki til þess tíma eða mannskap. Það hefði þurft að gera, vanda málið miklu betur og ná um það samstöðu sem engin er að þessu sinni.

Morgunblaðið sagðist í síðasta Reykjavíkurbréfi ekkert skilja í því hvers vegna stjórnarandstaðan eygði ekki tækifæri í þeim sinnaskiptum stjórnarflokkanna sem nú hafi orðið í fjölmiðlamálum, að vilja ólmir setja lög um fjölmiðla. Um þetta fjallaði m.a. Ólafur Hannibalsson í ræðu sinni úti á Austurvelli í dag og spurði: Bíddu, hvaða tækifæri? Að gleypa við þeirri hrákasmíði sem frumvarp forsætisráðherra er? Svo sagði Ólafur, með leyfi forseta:

,,Nei, það eru stjórnarherrarnir sem við sinnaskipti sín hefðu átt að eygja það tækifæri að taka höndum saman við stjórnarandstöðuna og ná víðtækri sátt um starfsemi fjölmiðla sem fyrst og fremst tryggði starfsmönnum sjálfstæði í störfum án utanaðkomandi afskipta.`` --- Má þá einu gilda hvort þau afskipti eru af hálfu þeirra sem eru í stjórnarmeirihluta á hverjum tíma og fara með stjórn ríkisfjölmiðlanna eða af hálfu eigenda þeirra miðla sem eru á einkamarkaði í dag.