Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:00:27 (8706)

2004-05-19 21:00:27# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Eftir stendur, virðulegur þingmaður, að það ákvæði frv. sem hvað skýrast virðist vega að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi o.s.frv. sé bann við krossmiðlun. Í fyrsta sinn á Íslandi er verið að banna ákveðnum aðilum, skilgreindum aðilum, að eiga í prentmiðli, eiga og reka prentmiðil. Að því leyti er verið að reisa tjáningarfrelsinu skorður og að mínu mati vegið að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, enda stutt álitum fjöldamargra lögspekinga. Á móti hefur enginn lögspekingur sem leitað hefur verið til þessara erinda gefið til kynna eða kveðið upp úr um að að hans áliti sé ekki um stjórnarskrárbrot að ræða þegar kemur að banni á krossmiðlun. Nýjustu tíðindin og nýjustu breytingarnar breyta þar engu um í frv. og áfram er lagt til bann á krossmiðlun. Þar er um alvarlega aðför að tjáningarfrelsinu að ræða að mati þessara lögspekinga.