Úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 11:10:39 (8728)

2004-05-21 11:10:39# 130. lþ. 121.91 fundur 586#B úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[11:10]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Við erum svo heppin í þessum sölum að við höfum þingmenn sem stundum hafa óbeðnir tekið það hlutverk að sér að gefa Hæstarétti leiðbeiningar af kristilegu hjarta sínu. Það gerði hæstv. forsrh. um árið þegar hann komst að þeirri niðurstöðu í ákveðnu máli að ef Hæstiréttur dæmdi ekki rétt í málinu mundu Íslendingar flytjast allir til sólarstranda.

Í þessu máli, frú forseti, er það svo að þrátt fyrir orð hæstv. forsrh. heyrði ég ekki betur en að hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefði varpað því fram að eitthvað skorti upp á lög sem Alþingi hefði sett til þess að Hæstiréttur hefði getað komist að annarri niðurstöðu.

Eins og ég hef skilið þennan dóm komst Hæstiréttur að niðurstöðunni sem við lásum í fjölmiðlum á þeim grundvelli að einn kærenda, Listasafn Íslands, hefði jafnframt lagt til sérfræðinga sem hefðu búið til álitsgjörð sem hefði verið notuð sem gagn í málinu. Það gengur náttúrlega ekki að kærandi taki líka að sér rannsókn málsins. Það var það grundvallaratriði og það lagatæknilega atriði sem varð forsenda úrskurðar Hæstaréttar. Þess vegna get ég ekki annað en tekið undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni um að rannsókn málsins sé tæknilega áfátt og það leiðir óhjákvæmilega til slíkrar niðurstöðu. Ég tel að Hæstarétti hafi ekki verið kleift annað en að komast að þessari niðurstöðu miðað við þetta. Það er því hægt að segja að þetta hafi verið einhvers konar misfella hjá þeim sem rannsakaði, ríkislögreglustjóra. Ekkert annað veldur þeirri niðurstöðu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kemst að hárréttri niðurstöðu en hæstv. forsrh. rangri, og ekki í fyrsta skipti.