Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 12:04:42 (8736)

2004-05-21 12:04:42# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[12:04]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki að því að spyrja að þegar við stjórnarþingmenn ætlum að taka þátt í umræðunni ganga fram hjá mér þingmenn stjórnarandstöðunnar og kalla: málþóf, málþóf.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði mikið um að frv. hefði tekið breytingum eftir að það kom inn á Alþingi. Auðvitað er skylda þingsins að rannsaka og fara ofan í þau mál sem koma inn. Það er algilt og við teljum það yfirleitt góð vinnubrögð að rannsaka mál mjög vel og fara ofan í þau og athuga hvort eitthvað er í þeim sem betur megi fara. Þess vegna kemur mér mjög á óvart hvernig stjórnarandstaðan klifar á því aftur og aftur að frv. hafi tekið breytingum á Alþingi. Það eru bara eðlileg vinnubrögð á Alþingi að skoða og rannsaka mál.

Ég hef ekki þær áhyggjur að sú andstaða sem hún nefnir að sé með þjóðinni gagnvart þessu frv. muni ekki breytast þegar málið hefur verið skýrt, þegar við fáum hugsanlega að komast að í fjölmiðlum til að skýra málið. Hv. þm. talar jafnframt um að þessi lagasetning beinist að einu fyrirtæki. Hvað ef Baugur tæki sig til og seldi Eimskipum eða Flugleiðum hlut sinn í Norðurljósum? Mundi það líta eitthvað öðruvísi út fyrir hv. þingmönnum Samf.? Hvaða meining er þetta? Við erum auðvitað að vinna gegn samþjöppun á eignarhaldi og þá auðvitað beinist það gegn einhverjum.