Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 12:09:16 (8738)

2004-05-21 12:09:16# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nefnilega þessi síðasta fullyrðing sem er svo skemmtileg. Ef það er sú málefnalega niðurstaða sem fjölmiðlaskýrslan kemst að að samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlum sé hættuleg lýðræðinu og tjáningarfrelsinu er nákvæmlega sama hvaða fyrirtæki á í hlut. Við erum að tala um að eitt fyrirtæki á orðið stærsta hlutann af fjölmiðla- og afþreyingarmarkaði á Íslandi. (KHG: Gleymum því ekki ...) Ef við tölum um, eins og skýrslan kemst að, að þetta sé hættuleg þróun er auðvitað nákvæmlega sama hvaða fyrirtæki það er. Þetta er eitthvað sem við höfum skyldu til að bregðast við sem löggjafarvald hjá þjóðinni og það er það sem við erum að gera. Við erum að bregðast við þeim niðurstöðum sem koma fram í skýrslunni og ég verð að viðurkenna að það var ekki fyrr en ég las hana sem ég sá um hvað málið snerist.

Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um hvers lags rosaleg samþjöppun á sér stað á fjölmiðlamarkaðnum. Sú samþjöppun er hættuleg lýðræðinu og hættuleg tjáningarfrelsinu. Það er það sem við erum að bregðast við, hv. þingmaður, og það er fullkomlega eðlilegt að gera það með þeim hætti sem við höfum gert. Það hefur verið unnið vel að þessu máli á Alþingi, a.m.k. af hálfu stjórnarliða, og mjög margir stjórnarandstæðingar, þar á meðal hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, hafa verið málefnalegir í umræðunni. Ég er fjarri því að vera sammála öllu því sem hún segir en mjög margt af því er mjög málefnalegt og gott innlegg í umræðuna. Það hefði líka mátt koma fyrr hjá stjórnarandstöðunni og hefði hún þá ekki verið að eyða tíma í málþóf um málsmeðferð og aðra slíka hluti.