Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:12:55 (8751)

2004-05-21 14:12:55# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni má þykja mín sýn vera ömurleg ef honum líkar það en það er misskilningur hjá honum að það sé ég sem tali úr þessum stóli fyrir því að við veljum hverjir megi eiga fjölmiðla og hverjir ekki. Það er ríkisstjórnin sem það ætlar að gera. Ekki vil ég banna sægreifum að eiga í fjölmiðlum. Ef þeir vilja koma með peningana sína í fjölmiðlana, þá endilega. Það verður aðeins til að styrkja og efla þá atvinnugrein. Við viljum einfaldlega að allir fái að fjárfesta í þessari grein sem það vilja því að þannig dafnar hún best. Vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal fór að tala um skapgerð sína og Sjálfstfl., aðstæður á markaði og hvað menn hefðu viljað í verslun heima í sínum bæ --- þar drottnaði ekki einn aðili yfir 60--70% af markaðnum --- er matvöruversluninni á þessum vettvangi, fjölmiðlunum, hagað með þeim hætti að stærstu búðina í bænum á ríkið. Það er skapgerð Sjálfstfl. Stærsta búðin á þessum markaði er Ríkisútvarpið, sjónvarp. Það er með langsterkasta stöðu og þess vegna er tómt mál að tala um að einhverjir hafi 60--70% hlutdeild af því sem eftir er. Það eru einfaldlega þrír öflugir aðilar á þessum markaði, RÚV, Mogginn og Norðurljós.

Ég sé, virðulegur forseti, til að mynda ekkert því til fyrirstöðu að Morgunblaðið og Skjár 1 sameinist, ekkert. Ég held t.d. að þar gæti orðið úr öflugra fyrirtæki og við gætum hugsanlega með slíkri sameiningu eignast þriðju fréttastofuna á öldum ljósvakans, þriðju sjónvarpsfréttastöðina, og skapað aðstæður til þess að unga kynslóðin sem einkum horfir á Skjá 1 fengi líka að fylgjast reglulega með fréttum. Ég sé engar efnislegar ástæður fyrir þessu vonda frv. sem hér er verið að reyna að knýja í gegn.