Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 15:53:36 (8757)

2004-05-21 15:53:36# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara yfir afstöðu okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og byrja á því að vitna í leiðara Morgunblaðsins í morgun sem fjallar um markmið okkar og reyndar Frjálsl. einnig en í skrifum leiðarahöfundar gætir nokkurs misskilnings. Hann rifjar það upp að í nóvember á síðasta ári hafi þingflokkur Vinstri grænna flutt þáltill. þar sem lagt var til að fjölmiðlalandslagið yrði kortlagt og í kjölfarið íhugað hvort þörf væri á að setja lög um fjölmiðla. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins vísar í flokkana og segir í niðurlagi leiðarans eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þeir kunna að vera andvígir því, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi löggjafarinnar en það er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að formenn flokkanna tveggja séu sammála þeim markmiðum, sem fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ætlað að ná.``

Ég held að þetta sé alveg rétt. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum sammála þeim meginmarkmiðum sem eru útlistuð í greinargerð með frv. Við teljum hins vegar að frv. eins og það er úr garði gert nái ekki þessum markmiðum. Þvert á móti verði niðurstaðan þveröfug og ég mun færa rök fyrir máli mínu.

Í greinargerð sem fylgir fjölmiðlafrv. ríkisstjórnarinnar er ítarleg úttekt svokallaðrar fjölmiðlanefndar sem ríkisstjórnin skipaði í vetur á grundvelli þáltill. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafði forgöngu um. Í greinargerð þáltill. VG sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Fjölmiðlar eru ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar. Þeir hafa einnig undirstöðuhlutverki að gegna við að tryggja málfrelsi. Á fjölmiðlamarkaði þarf að ríkja fjölbreytni svo að almenningur fái upplýsingar úr ólíkum áttum. Mjög varhugavert er að of fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun samfélagsins. Slíkt skapar hættu á að ólíkum sjónarmiðum sé gert mishátt undir höfði og fjölmiðlarnir ræki ekki sem skyldi aðhalds- og gagnrýnishlutverk sitt. Fjölmiðlar verða að njóta frelsis og sjálfstæðis, vera fjölbreyttir að gerð og eiginleikum og óháðir hver öðrum til að öll framangreind markmið náist. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er því afar varasöm. Einnig er nauðsynlegt að ætíð liggi ljóst fyrir hvernig eignarhaldi fjölmiðla er háttað.``

Í frv. ríkisstjórnarinnar eru sem kunnugt er settar ýmsar takmarkanir á eignarhald fjölmiðla. Markmiðið með þessu er skilgreint í upphafsorðum athugasemda sem fylgja frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið frumvarps þessa er að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Frumvarpið er reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi. Þeir eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum. Í frumvarpinu er byggt á því að íslensk löggjöf eigi að vera til þess fallin að vernda þessa hagsmuni.``

Hér var vitnað í athugasemdir sem fylgja frv. ríkisstjórnarinnar og það er hárrétt hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, okkar þingflokkur, er sammála þeim meginmarkmiðum sem þarna er lýst þótt í öðru komi fram ákveðinn misskilningur hjá höfundi. Þessi kjarni máls er hins vegar alveg réttur. Í athugasemdum með þingmálinu segir síðan að frv. sé í samræmi við tillögur fjölmiðlanefndar. Þetta er ónákvæmt og villandi orðalag. Staðreyndin er sú að fjölmiðlanefndin reifaði ýmsa valkosti og er einn þeirra í fullu samræmi við áherslur okkar. Eftir að VG hafði lagt til að úttekt yrði gerð á fjölmiðlamarkaðnum dró heldur betur til tíðinda með stórfelldari samruna og samþjöppun en dæmi hafa verið um hér á landi í seinni tíð.

Á opinberum vettvangi tók ég á eftirfarandi hátt á þessum málum í pistli sem ég skrifaði 1. febrúar undir fyrirsögninni Fjölmiðlar verða að vera stöndugir. Sömu áherslur og hér koma fram höfðu áður birst í fjölmiðlum og vísa ég þar m.a. í fréttir Ríkisútvarpsins frá 31. janúar sl. Pistillinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

[16:00]

,,Um helgina var tilkynnt um umtalsverðan samruna á fjölmiðlamarkaði. Undir regnhlíf Norðurljósa sameinast Frétt, útgáfufélag Fréttablaðsins og DV og Íslenska útvarpsfélagið, sem rekur Stöð 2, Bylgjuna, Sýn og fleiri sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Í þessu púkki er einnig Skífan. Fram hefur komið í fréttum að áætluð velta Norðurljósa mun nema 10 milljörðum, þannig að hér er um að ræða stórt fyrirtæki, með mikla veltu og mikinn fjölda starfsmanna.

Þarna eru mikilvægir fjölmiðlar að sameinast og að því leyti sem þetta kemur til með að styrkja rekstur þeirra er þessi breyting jákvæð og til góðs. Það er óhemju dýrt að reka góða vandaða fjölmiðla og það er mikilvægt að fjölmiðlar hafi mjög styrkar fjárhagslegar stoðir svo þeir geti framleitt gæðaefni. Nú er okkur sagt að rekstri þessara fyrirtækja verði haldið aðgreindum þannig að óljóst er að hvaða marki samruninn kemur til með að styrkja fjölmiðlana, að öðru leyti en því að ,,eigandinn`` og þar með bakhjarlinn kann að styrkja sína stöðu. Vafalítið styrkir þetta þó fjölmiðlana óbeint.

Varðandi eignarhaldið þá eru um 60% í hinu nýja eignarhaldsfélagi tengd Baugi og Feng, aðilum sem eru orðnir firnasterkir og áhrifamiklir í íslensku atvinnulífi. Og það er ekkert séð fyrir endann á samþjöppunarferlinu þar. Það er ekki hægt að gefa sér að Morgunblaðið sé eilíft og ef nú svo færi að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og markaðsvætt þá er sá möguleiki raunverulegur að eignarhald yfir öllum fjölmiðlum í landinu yrði á sömu höndum. Það væri mjög varhugaverð þróun og lýðræðinu beinlínis hættuleg. Í ljósi þessa hefur verið lagt til á Alþingi, að frumkvæði VG, að fjölmiðlar og eignarhald verði skoðað af hálfu löggjafans. Mikilvægt er að sú athugun fari fram.

Ég hef trú á því að afstaða margra komi til með að ráðast af örlögum Ríkisútvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til að tryggja eðlilega þróun fjölmiðlunar í landinu sé að treysta í sessi öflugt og kraftmikið Ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar, sem kjölfestu á þessu sviði og fagna síðan þegar öðrum fjölmiðlum auðnast að bæta fjárhagsgrundvöll sinn.

Með því að vísa algerlega á bug öllum hugmyndum um markaðsvæðingu Ríkisútvarpsins og með því styrkja og efla þá stofnun muni okkur takast að móta farveg fyrir framtíðarþróun sem sátt gæti skapast um.``

Hér var vitnað í pistil sem birtist 1. febrúar sl. í þann mund sem greint var frá samruna margra fjölmiðlafyrirtækja undir regnhlíf Norðurljósa.

Þessi afstaða rímar ágætlega við það sem segir í álitsgerð fjölmiðlanefndar samanber eftirfarandi úr skýrslu hennar, með leyfi forseta:

,,Við mat á þeim úrræðum, sem til greina kemur að mæla fyrir um til að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði, er óhjákvæmilegt annað en að líta til smæðar íslenska markaðarins. Nefndin telur að forðast beri að reglur séu með þeim hætti að þær setji fyrirtækjum í fjölmiðlun ótilhlýðilegar skorður og raski rekstrargrundvelli þeirra. Gæta verði þess að reglur verði ekki svo hamlandi að þær vinni í reynd gegn þeim hagsmunum sem þeim er ætlað að vernda með því að fyrirtækin verði svo lítil að þau fái ekki þrifist. Slíkar reglur eru til þess fallnar að vinna gegn því markmiði að almenningur eigi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum sem vettvangi fyrir ólík viðhorf til pólitískra og menningarlegra málefna.

Tryggja verður íslenskum fyrirtækjum aðstæður þar sem þau fá þrifist og eflst. Frá viðskiptalegu sjónarmiði verður því heldur ekki neitað að því stærri og öflugri sem innlend fyrirtæki eru, því minni hætta er t.d. á yfirtöku eða uppkaupum erlendra aðila. Þá er það einnig forsenda þess að þau hafi burði til þess að standa undir innlendri dagskrárgerð. Þetta sjónarmið skiptir máli varðandi eflingu innlendrar menningar sem mótvægis gegn erlendri fjöldamenningu, sem nú þegar er mjög áberandi í íslenskum fjölmiðlum, einkum sjónvarpi.``

Sem áður segir eru þetta svipuð viðhorf og áður höfðu verið viðruð úr ranni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þótt ég hafi ákveðnar efasemdir um það sjónarmið að því stærri og kröftugri sem fjölmiðlar verði því minni líkur séu á erlendri yfirtöku. Þetta tel ég að hljóti að orka tvímælis. Er ekki líklegra að þá fyrst vilji erlendir aðilar fjárfesta í íslenskum fjölmiðlum að þeir telji þá vera burðuga og til einhverra afreka líklegir? En látum það liggja á milli hluta og víkjum að þeirri tillögu fjölmiðlanefndar sem ég gat um fyrr að væri í samræmi við hugmyndir VG. Þetta er sú tillaga sem nefndin leggur fyrst til og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur fyrst til að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins, með það að markmiði að tryggja því trausta stöðu til frambúðar á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Ástæðan fyrir því að þetta er nefnt fyrst er að sú leið felur ekki í sér neina beina íhlutun í málefni einkamarkaðar fyrir fjölmiðla, þótt sterkt ríkisútvarp þrengi auðvitað svigrúm einkaaðila til vaxtar á sama markaði. Trygg staða og umtalsverð hlutdeild Ríkisútvarpsins á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp er þannig til þess fallin að nokkru leyti að hafa samsvarandi áhrif og beinar takmarkanir á eignarhaldi þar sem vaxtarmöguleikum einkafyrirtækja í útvarpsrekstri eru settar skorður og dregið úr líkum á því að einn aðili nái slíkri stærð á markaði að ógnað verði markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun.

Nefndarmenn deila því almenna viðhorfi að takmarka beri afskipti ríkisins af fyrirtækjarekstri og atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta sinnt. Engu að síður telur nefndin eðlilegt að leggja til að hugað verði að því að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins sem almenningsútvarps. Ýmis rök má færa fram því til stuðnings. a) Í fyrsta lagi má vísa til framangreindra tilmæla Evrópuráðsins R (99) 1 þar sem mælt er með því að þessi leið sé farin. b) Í öðru lagi er bent á þetta sem æskilega leið til að tryggja þá hagsmuni sem felast í pólitískri og menningarlegri fjölbreytni í lýðfrjálsu þjóðfélagi og þar með til að mæta skyldum ríkisins í þessum efnum. Er bent á að því er gjarnan haldið fram að einkareknir fjölmiðlar hafi tilhneigingu til að vera mun einsleitari í dagskrá en almenningsútvarp til að mæta kröfum þorra neytenda um skemmtun og létta afþreyingu. Slíkt efni verði þá jafnvel uppistaðan í dagskrá miðils, gjarnan á kostnað upplýstrar og málefnalegrar umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni, einkum þeirra miðla sem byggja rekstur sinn á auglýsingum og kostun. c) Í þriðja lagi má benda á að yrði þessi leið ein fyrir valinu fæli hún ekki í sér neina beina reglusetningu sem beindist gegn einkareknum fjölmiðlum. Hún samræmist þar með að því leyti vel meginreglum um frelsi markaðarins, að öðru leyti en því að almenningsútvarpi yrði tryggður hluti markaðarins en einkaaðilar skipti honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni. d) Í fjórða lagi sýnist vera hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd að mestu án breytinga á gildandi lögum.``

Ekki skrifa ég upp á allt sem þarna er sagt og vísa þar til neikvæðrar afstöðu nefndarinnar til ríkisreksturs. Að flestu öðru leyti er þetta hins vegar sem talað út úr mínu höfði samanber fyrri yfirlýsingar og í fullu samræmi við málflutning þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við höfum verið með samfellu í okkar málflutningi. Við óskuðum eftir því að úttekt yrði gerð á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi. Við höfum kallað eftir umræðu á framtíðarskipan á því sviði. Þegar skýrsla fjölmiðlanefndar sem fékk þetta viðfangsefni í hendur lá fyrir setti hún fram tillögur. Hennar fyrsta tillaga, sú tillaga sem nefndin forgangsraðaði, var tillaga sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt áherslu á fyrir sitt leyti og hefði getað skrifað upp á.

Að öðru leyti höfum við haft fyrirvara um afstöðu okkar. Við höfum viljað fá niðurstöðu í umræðuna um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins. Eins og nú má ljóst vera er forsenda þess að rætt verði um nauðsyn lagasetningar sú að áður taki menn ítarlega umræðu um framtíð Ríkisútvarpsins. Í því sambandi höfum við bent á að ýmsar blikur séu á lofti.

Í fyrsta lagi hefur landsfundur Sjálfstfl. ályktað um fyrstu skref að markaðsvæðingu Ríkisútvarpsins á eftirfarandi hátt og vísa ég þá í 35. þing Sjálfstfl. í mars 2003. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Skylduáskrift að fjölmiðlum verði afnumin nú þegar. Íslenskir neytendur eiga sjálfir að ráða hvort og hvaða fjölmiðla þeir kaupa. Endurskoða skal hlutverk ríkisins á þessum markaði.``

Í tengslum við landsfund Sjálfstfl. var eftirfarandi haft eftir þáverandi menntmrh. flokksins í fréttum Ríkisútvarps 29. mars 2003, með leyfi forseta:

,,Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra segir Sjálfstæðisflokkinn vilja afnema skylduáskrift að Ríkisútvarpinu náist samkomulag um að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Flokkurinn vilji gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi en Framsóknarflokkurinn hafi hindrað það. Tómas Ingi telur ekki skynsamlegt að ráðast í breytingar á lögum um Ríkisútvarpið meðan ekki næst samkomulag um að breyta stjórn stofnunarinnar og rekstrarformi þannig að Ríkisútvarpið verði hlutafélag. Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hefur verið unnið í menntamálaráðuneytinu og í því er gert ráð fyrir að skylduáskriftinni verði breytt.``

Á síðasta þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna, 37. þingi þeirra, var eftirfarandi að finna í ályktun, með leyfi forseta:

,,SUS telur mikilvægt að hafist verði handa við að undirbúa einkavæðingu á Íslandspósti, Landsvirkjun, Rafmagnsveitu ríkisins, orkuveitum sveitarfélaga, Ríkisútvarpinu og að Rás 2 verði seld þegar í stað.``

Þetta var um stefnumótun landsfundar Sjálfstfl. annars vegar og Sambands ungra sjálfstæðismanna hins vegar.

Þá er á það að líta að fyrir Alþingi liggur núna frv. þriggja þingmanna Sjálfstfl. þar sem segir í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Stofna skal hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins 1. júlí 2004. Hlutverk félagsins er að annast þá starfsemi sem Ríkisútvarpið hefur haft með höndum. Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins.

Við gildistöku laga þessara skipar menntamálaráðherra þriggja manna nefnd sem annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar hlutafélags skv. 1. mgr. Nefndin undirbýr löggerninga er varða stofnun hlutafélagsins og fyrirhugaða starfsemi og aflar nauðsynlegra leyfa til útvarpsrekstrar í umboði menntamálaráðherra og í samráði við útvarpsráð. Löggerningar þessir skulu hljóta staðfestingu hlutaðeigandi aðila. Menntamálaráðherra setur nefndinni erindisbréf. Stjórnendur og starfsmenn Ríkisútvarpsins skulu veita nefndarmönnum nauðsynlega aðstoð.

Útvarpsráð skal skilgreina verkefni sem því ber að vinna samkvæmt lögum þessum og semja fjárhagsáætlun til að standa undir þeim verkefnum tímanlega fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005. Skal því heimilt að ráða sérfræðinga til þess verks að undangengnu útboði ef þörf er á.

Hinn 1. janúar 2005 tekur Ríkisútvarpið hf. við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins og skal Ríkisútvarpið þá lagt niður.``

Þetta segir í þingmáli, í frv. sem liggur fyrir þinginu og er flutt af þremur þingmönnum Sjálfstfl., hv. þm. Birgi Ármannssyni, Sigurði Kára Kristjánssyni og Pétri H. Blöndal. Þetta er ekki meiri hluti þingflokks Sjálfstfl. en ég er að sýna fram á málflutning flokksins, samþykktir landsfundar Sjálfstfl., samþykktir landsfundar ungra sjálfstæðismanna og síðan baráttu þingmanna flokksins innan veggja Alþingis.

Nú er ég að fjalla um hið pólitíska umhverfi, þær blikur sem eru á lofti. Þá vil ég nefna að formenn stjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að þeir telji tímabært að afnema afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Ekki kveðjast þeir sjálfir vilja þrengja að Ríkisútvarpinu, en hvað með flokka þeirra? Stendur til að setja Ríkisútvarpið á fjárlög líkt og Landspítala -- háskólasjúkrahús? Er það besta tryggingin fyrir viðgangi RÚV? Þetta er spurning sem þarf að fá svar við.

[16:15]

Við höfum rætt það áður á Alþingi hvort leggja beri afnotagjöldin af. Það kann að vera hyggilegt að færa þennan gjaldstofn yfir í annað form, yfir á fasteignir eða eitthvert annað form. Sjálfsagt er að íhuga slíkt en ég tel mjög mikilvægt að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Á sínum tíma veitti ég formennsku nefnd sem endurskoðaði útvarpslögin, það var fyrir 1990, 1989 held ég að það hafi verið. Þá var farið mjög rækilega í saumana á þessum málum og könnuð viðhorf á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar og alls staðar varð niðurstaðan sú að mikilvægt væri að tryggja sjálfstæði ríkisútvarps. Ég minnist þess í umræðu um það málefni á Alþingi að þá kom það fram í máli margra að þótt tekjurnar yrðu skertar væri ekki þar með gefið að fjárstreymið úr ríkissjóði yrði aukið að sama skapi.

Þá vil ég nefna að þingmenn stjórnarmeirihlutans úr báðum flokkum hafa lýst þeirri skoðun sinni að tími sé kominn til að taka auglýsingatekjur af Ríkisútvarpinu. Þetta hefði í för með sér mikinn niðurskurð og yrði RÚV ekki svipur hjá sjón eftir að hafa verið svipt þessum tekjustofni. Hver er raunverulegur vilji stjórnarflokkanna í þessu efni? Við verðum að fá botn í þetta. Vildum við draga úr þessum tekjustofni eða minnka hann, gera Ríkisútvarpið minna háð auglýsingatekjum en nú er, jafnvel þurrka þær út? Ég er ekki á því máli að það eigi alveg að þurrka þær út en ég tel stefna í óefni hvað það snertir. Þá er einfaldlega á það að líta að þetta er umtalsverður þáttur í veltu Ríkisútvarpsins og ef þessi tekjustofn yrði skertur mundi það óhjákvæmilega leiða til samdráttar hjá stofnuninni.

Enginn vafi leikur á því í mínum huga að yrði niðurstaðan sú að einkavæða Ríkisútvarpið þyrfti að setja stranga eignarhaldslöggjöf. Það þyrfti hins vegar að gera að mjög yfirveguðu máli og er stórháskalegt að hrapa að niðurstöðu eins og nú stefnir í. Það er stórháskalegur hlutur. Lítum nánar á markmið þeirrar lagasetningar sem nú er til umræðu og skal þar vísað í upphaf þessarar umfjöllunar þar sem markmið frumvarpshöfunda eru tíunduð. Hér skal vikið að nokkrum efnisþáttum fyrir sig og ýmsum flötum velt upp.

1. Er það rétt staðhæfing að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi? Það segir í greinargerð frv. Ég tel það vera vafasama fullyrðingu að samþjöppun í eignarhaldi sé ávísun á minni fjölbreytni í dagskrárefni og umfjöllunarefni fjölmiðla almennt. Þannig eru litlir fjölmiðlar að mínum dómi líklegri til að bjóða upp á einsleitara efni en stórir og fjárhagslega öflugir fjölmiðlar. Íslenskur markaður er einfaldlega svo smár að eftirspurn minnihlutahópa er aldrei af þeirri stærðargráðu að afnotagjöld eða auglýsingatekjur standi straum af mjög sérhæfðri þjónustu. Þvert á móti er samþjöppun líklegri til að auðvelda fjölbreytni í efnisvali, í innihaldi, í dagskrárgerð.

2. Fjölmiðlar eru mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum. Svo segir í greinargerð frv. Undir þessi sjónarmið skal tekið en vísað í fyrri rökstuðning varðandi nauðsyn þess að fá niðurstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins. Einokun á höndum fárra einstaklinga eða fyrirtækjasamsteypu getur að mínu mati verið lýðræðinu háskaleg. Hér getur fjölbreytni í eignarhaldi því skipt máli.

Í málflutningi þingmanna VG hefur verið hamrað á nauðsyn þess að gefa málinu aukið svigrúm til vandaðrar umræðu. Það hefur sannast á þeim dögum sem liðnir eru frá því að frv. kom fram. Umræðan hefur þroskast mikið en margt er órætt. Ég tel t.d. að ræða þurfi miklu betur þá þætti sem hljóta að teljast kjarninn í umræðunni, í fyrsta lagi vald yfir fjölmiðli og stýring, í öðru lagi hvaða þættir ráði um fjölbreytni. Um þetta tvennt ætla ég að nefna nokkur atriði sem þurfa skoðunar við.

1. Hvernig á að stýra almannaútvarpi til að koma í veg fyrir pólitíska misnotkun? Enda þótt eignarhald skipti máli skiptir enn meira máli hvernig með það er farið. Í þeim skilningi að almannaútvarp skuli lúta lýðræðislegri stjórnun hef ég aldrei haft minnstu efasemdir. Þegar við tölum um lýðræðislega stjórnun er ég í og með að vísa í pólitíska stjórnun. Mér finnst að menn þurfi að fara varlega í að skilgreina pólitík sem eitthvað óhreint og óæskilegt. Það þarf hins vegar að hafa þar skynsamlegt fyrirkomulag og koma í veg fyrir pólitíska misnotkun. Hér gæti t.d. skipt höfuðmáli, og skiptir höfuðmáli, hvernig skipað er í útvarpsráð, og nú vísa ég til Ríkisútvarpsins, eða í samsvarandi stjórn og þá einnig hvaða verkefni slíkri stjórn er falið. Ég vitnaði áðan í starf nefndar frá árinu 1989 sem ég sat í. Þar var þetta einmitt mikið rætt og fundin leið sem ég tel hafa verið mjög góða sem byggði á því að til þess að komast að niðurstöðu um mikilvæg málefni þyrfti að myndast breið samstaða á milli þeirra sem skipaðir væru í útvarpsráð af pólitískum flokkum og öðrum aðilum sem kæmu úr röðum starfsmanna og hugsanlega víðar að.

2. Hver er máttur eignarhaldsins? Ekki velkjumst við í vafa um að hann er mikill enda meginástæðan fyrir stuðningi mínum við almannaútvarp. Á endanum er það eigandinn sem hefur ráðin í hendi sér. Um þetta má nefna mörg dæmi. Ég nefndi fyrr við umræðuna dæmi af viðtali sem ég sá við ritstjóra breska blaðsins New Statesman sem hafði gagnrýnt breska forsætisráðherrann mjög harðlega, sagt að honum bæri að víkja, og hann var spurður hvort þetta mundi hafa áhrif á stöðu hans sem ritstjóra. New Statesman er mjög tengt Verkamannaflokknum. Ritstjórinn kvaðst ekki telja að sú yrði raunin en bætti því við að þegar upp yrði staðið væri það að sjálfsögðu eigandinn sem réði. Það væri hans að taka endanlega ákvörðun. Við höfum lagt áherslu á að eignarhald fjölmiðla yrði jafnan að vera gagnsætt þannig að lesendur eða hlustendur vissu um eignatengslin og gætu þannig lagt saman tvo og tvo og dregið sínar eigin ályktanir. Mín skoðun er sú að í þessu gagnsæi felist í rauninni besta vörnin.

3. Mig langar til að víkja að mætti auglýsinganna. Þessi þáttur málsins hefur of lítið verið ræddur en ég minnist þess úr fréttamennsku að fréttamönnum á blöðum, ekki síst þeim sem stóðu fjárhagslega illa, stóð minni stuggur af eigendum en auglýsendum. Þeir voru alltaf á nálum gagnvart þeim, síðari hópnum. Máttur auglýsinganna hefur þegar svipt Ríkisútvarpinu að mínu mati verulega af leið, kostun t.d. er augljóst inngrip auglýsenda í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. Um þetta þekkjum við öll dæmi og ég ætla ekki að dvelja við það en þetta er mjög alvarlegur hlutur. Einnig má líklegt heita og hef ég reyndar nokkra vissu fyrir því að Ríkisútvarpið láti auglýsendur talsvert stýra áherslum sínum í dagskrárgerð.

Þá er vert að spyrja: Gæti markaðsráðandi fyrirtæki hugsanlega stýrt fjölmiðli á markvissari hátt í krafti auglýsinga en með eignarhaldi? Þetta er áleitin spurning sem þyrfti að ræða í þaula. Vegna þess að það er Baugur sem hefur verið efst á baugi má spyrja hvort hann gæti ekki haft sín áhrif ef hann á annað borð vildi í gegnum auglýsingar þótt hann drægi sig út úr eignarhaldinu en hefði eftir sem áður mátt auglýsandans. (Gripið fram í: ... markaðsráðandi ...) Já.

4. Þá er áleitin spurning í tengslum við auglýsingar þessi: Er hætta á því að stýring á fjölmiðlum í krafti auglýsinga geri efni þeirra einsleitara en stýring í krafti eignarhalds? Hér vísa ég í tilvitnun mína úr fjölmiðlanefndinni áðan sem var með slíkar vangaveltur uppi.

5. Er hægt að setja reglur til að vernda fréttamenn? Menn hafa rætt það nokkuð í tengslum við þetta frv. Sú spurning hefur verið talsvert til umræðu sem ég segi og hallast ég að því að þetta gæti reynst mjög torvelt. Besta vörnin að mínum dómi fyrir frjálsa og faglega fréttamennsku er innri styrkur fjölmiðilsins. Fréttamenn á öflugum fjölmiðli sem stendur styrkum fótum með sterku starfsmannafélagi eru líklegri til að standast óeðlilegan utanaðkomandi þrýsting en fréttamenn á vanmáttugum miðli. Síðan þarf að hafa það í huga að fréttamenn eru ekki heilagir. Ef fréttamenn þjóna duttlungum sínum á ómálefnalegan og ófaglegan hátt þarf ekki að vera neitt við það að athuga að eigandi eða verkstjórnendur grípi í taumana.

Þetta var um sjálfstæði fréttamanna. Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um innri styrk fréttastofunnar, ég held að reynslan sýni það, og síðan gagnsæi, að menn viti hver er eigandinn og allt sé uppi á borði í þeim efnum.

Menn hafa rætt talsvert um stjórnarskrárþátt þessa máls. Þar hef ég ekki verið á sama róli og margir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar. Ég hef verið með aðrar áherslur þar þó að ég beri mikla virðingu fyrir sjónarmiði þeirra sem vilja leita af sér allan vafa eða telja sig þurfa á dýpri og meiri umræðu að halda um það. Stjórnarskrá lýðveldisins á að vera okkur heilög, á að skipta okkur máli þannig að það er mjög mikilvægt að taka þá umræðu vel.

Varðandi stjórnarskrána er vitnað í þrjár greinar, 72., 73. og 75. gr. Skal nú vikið að hverri grein um sig örfáum orðum.

Í 72. gr. stjórnarskrár Íslands er eignarrétturinn skilgreindur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.``

Samkvæmt þessu getur Alþingi sett lög sem skerða eignarréttindi að uppfylltu því skilyrði að almenningsþörf krefji. Auðvitað er umdeilanlegt hvenær almenningsþörf krefur. Mín skoðun er sú að ef sú staða væri fyrirsjáanleg að eignarhald á öllum eða nær öllum fjölmiðlum í landinu kæmist í hendur eins fyrirtækis, einstaklings eða fámenns hóps einstaklinga væri það ógn við lýðræðið og augljóslega í almannaþágu að reisa við því skorður með lögum. Það er óumdeilanlegt að mikil samþjöppun á sér stað á fjölmiðlamarkaði og væri hún alger ef ekki nyti við Ríkisútvarpsins á ljósvakanum og Morgunblaðsins í prentmiðlum. Þessu síðastnefnda má að sjálfsögðu snúa við. Ef ekki nyti við Fréttablaðsins og DV væri einokun Morgunblaðsins alger. Um framtíð Morgunblaðsins er ekkert hægt að fullyrða, enda háð lögmálum markaðar. Sama gildir um Fréttablaðið og DV. Í ljósi þessa höfum við spurt um pólitísk áform varðandi framtíð Ríkisútvarpsins og þar eru sem áður segir blikur á lofti. Það er matsatriði að hvaða marki nauðsynlegt sé að reisa lagalegar skorður við eignarhaldi. Um það eru menn einfaldlega ósammála og stendur þá spurningin um það fyrst og fremst hvað beri að útkljá, hver hafi rétt fyrir sér. Hver og hvar á að meta almenningsþörfina? Eiga dómstólar að gera það eða lýðræðislega kjörinn löggjafinn?

[16:30]

Ég hallast mjög eindregið að síðari kostinum. Auðvitað eru dómstólarnir öryggisventill í þessu efni en ég tel að þeim beri að líta svo á að Alþingi hafi rúmar heimildir til að meta almannahagsmuni. En er þá sama hvernig staðið er að verki? Síður en svo. Það er einmitt grundvallaratriði að fram fari djúp og vönduð umræða um mál af þessum toga. Lýðræðið snýst ekki eingöngu um að kjósa menn á þing og að þeir setji síðan lög. Lýðræði er vönduð og opin umræða um sjálfa lagasmíðina sem allir hafi aðgang að. Þetta tel ég vera grundvallaratriði.

Að öðru leyti er vikið að rétti til bóta í þessari grein. Það hlýtur að ráðast af aðstæðum hverju sinni. Í þessu tilviki er bent á að í lögunum sé ákvæði um aðlögunartíma sem menn skuli hafa til að firra sig tjóni. Nú hefur þessum ákvæðum reyndar verið breytt í frv. Lögin verða stjórnskipulega gild en geta leitt til bótaskyldu ef sá sem verður fyrir skerðingu á eignarréttindum umfram aðra getur ekki með aðgerðum sem sanngjarnt er að krefjast af honum komist hjá tjóni. Þessi þáttur virðist mér vera afar óljós í þessu máli og rennir ríkisstjórnin blint í sjóinn hvað það varðar. Sú breyting sem undir það síðasta var gerð á frv. dregur að mínu mati úr líkum á bótaskyldu ríkisvaldsins.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

,,Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.``

Hér snýst ágreiningurinn um það hvort heimilt sé að setja í lög ákvæði um skilyrði þess að veitt sé útvarpsleyfi að því gefnu að málefnaleg sjónarmið liggi að baki ákvæðunum. Þetta er nú þegar gert í 6. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, t.d. að leyfishafi þurfi að hafa staðfestu í EES-ríki og fleira. Ef frv. stenst ekki 73. gr. er rétt að spyrja hvort 6. gr. útvarpslaga standist stjórnarskrá. Þá er ljóst að ýmsir líta svo á að tálmanir á eignarhaldi fjölmiðla jafngildi tálmunum á tjáningarfrelsi. Hvað þetta varðar gilda að mínu mati svipuð sjónarmið og röksemdir og gagnvart 72. gr. Mitt mat er að varasamt sé að leggja að jöfnu réttinn til eignarhalds og réttinn til að tjá sig. Í þessu sambandi mætti spyrja hvort fyrirkomulag eins og var við lýði áður en einokun Ríkisútvarpsins var afnumin hafi gengið á svig við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins.

75. gr. stjórnarskrárinnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.``

Til þess að skerðing á atvinnufrelsi fáist staðist þarf sett lög og að þörf sé á lagasetningunni vegna almannahagsmuna. Hér vísa ég til hugleiðinga minna um 72. gr. Að mínu mati á Alþingi að njóta rúmrar heimildar til að meta almannahagsmuni og virðast dómstólar líta svo á að fara beri afar varlega í að hnekkja því mati.

Í umræðunni hefur iðulega verið skírskotað til svokallaðrar meðalhófsreglu. Skilgreiningu á hugsuninni að baki meðalhófsreglu er að finna í 12. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.``

Þarna erum við aftur með matskennt orðalag. Ekki verður talið að meðalhófsreglan meini löggjafanum að setja lagareglur sem styðjast við málefnaleg sjónarmið, m.a. að hindra að markaðsráðandi fyrirtæki á öðrum mörkuðum eigi meira en lágmarkshlut í útvarpi. Fyrir því eru málefnaleg rök hvort sem menn eru pólitískt sammála þeim eða ekki. Mergurinn málsins er sá að ákvæði stjórnarskrár eru almenns eðlis og matskennd. Mín skoðun er sú að Alþingi skuli hafa rúmar heimildir til að leggja mat á aðstæður og telji varasama þróun að setja slíkt vald í hendur örfárra dómara. Alþingismenn er hægt að fella í kosningum lúti þeir ekki lýðræðislegum vilja. Ákvarðanir dómara eru hins vegar endanlegar eða geta verið endanlegar á efsta dómstigi. Þegar sagt er að stjórnarskrá skuli látin njóta vafans ber að spyrja hver hafi sáð vafanum. Eru það hugsanlega hægri sinnaðir lögspekingar sem ofar öllu vilja vernda eignarrétt stórfyrirtækja og atvinnurekenda? Viljum við leggja að jöfnu eignarrétt yfir heimili okkar og eignarrétt auðhrings á hálfu hagkerfinu? Þetta krefst sjálfstæðs mats sem á að fara fram í lýðræðislegu samhengi. Sá grunur læðist að manni þegar farið er að rýna í dóma sem iðulega hefur verið vitnað til í tengslum við ofangreint ákvæði stjórnarskrárinnar að hagsmunir stóreignafólks hafi iðulega vegið þyngra en hagsmunir almennings. Hér má vísa í ,,mannréttindabaráttu`` kaupmanna á síðustu öld fyrir því að halda leyfi til að selja brennivín í verslunum þrátt fyrir tilkomu ÁTVR eða réttindi einstaklinga til að standa utan stéttarfélaga og láta samstarfsmenn sína eina um að standa straum af kostnaði við baráttu fyrir réttindum sem þeir síðan njóta sjálfir. Dómskerfið hefur oftar en ekki dregið taum þeirra sem fylgja því sem ég vil kalla andfélagsleg sjónarmið.

Hvers konar eignarhald viljum við á fjölmiðlum? Við viljum dreifða eignaraðild. Hvernig stendur þá á því að allt er talið standa og falla með eignaraðild stórfyrirtækja að Norðurljósum? Gæti það verið vegna þess að vegna stefnu sem hér hefur verið fylgt í efnahagsmála- og fjármálapólitík á undangengnum hálfum öðrum áratug hafi orðið slík samþjöppun í fjármagni að það sé á færi fárra eins og sakir standa að rísa undir svo stórum fjárfestingum sem hér um ræðir? Með einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðan stórfelldri einkavæðingu þar sem fáeinum stórum aðilum var stöðugt hyglað var sett í gang rúlletta sem hefur leitt til meiri samþjöppunar á auði og völdum en dæmi eru um í seinni tíð. Ríkisstjórnin hefur þverskallast við kröfum VG að snúa af þessari braut og allar tillögur um takmarkanir á eignarhaldi á sviði fjármála og í efnahagslífinu almennt hafa verið hunsaðar. Það er fyrst núna að ríkisstjórnin bregst við en á þann lítt grundaða hátt sem alþjóð þekkir. Ríkisstjórnin er reiðubúin að taka á yfirborði vandans, einu birtingarformi hans en hafnar því að ráðast að rótum hans.

Fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar er vanreifað. Það krefst miklu meiri og dýpri umræðu og framar öllu þarf að ræða framtíðarskipan fjölmiðla heildstætt, m.a. með tilliti til þeirrar framtíðar sem menn ætla Ríkisútvarpinu áður en ákvarðanir eru teknar um frekari skref. Andstaða mín við þetta frv. byggir á þessu. Hún byggir einnig á því að ég tel að hætta sé á því að frv. sé alls ekki til þess fallið að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þvert á móti tel ég hættu á hinu gagnstæða, að frv. ef að lögum verður muni veikja þá fjölmiðla sem nú eru starfandi og draga þannig úr fjölbreytni.

Hæstv. forseti. Ég byrjaði á því í upphafi máls míns að vitna í leiðara Morgunblaðsins. Ég hef sýnt fram á að í málflutningi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er samfella. Við óskuðum eftir því að gerð yrði úttekt á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Það var gert. Það var skrifuð ítarleg skýrsla um það efni. Hún liggur nú fyrir. Skýrsluhöfundar reifa ýmsa valkosti fyrir löggjafann. Fyrsti valkostur sem nefndin leggur til er sá valkostur sem við hefðum kosið.

Það er mjög ósanngjarnt, jafnvel óskammfeilið af hálfu stjórnarmeirihlutans að halda því fram að mótsagnir séu í málflutningi okkar. Það er síður en svo. Þar er fullkomin samfella á ferð. En að lokum vil ég segja þetta: Það er margt í þessari fjölmiðlaskýrslu, eins ágæt og hún er að mörgu leyti, sem þarf miklu meiri skoðunar við. Ég nefndi það t.d. í fyrri ræðu minni við þessa 3. umr. að í skýrslunni er gerð grein fyrir fjölmiðlalöggjöf í Danmörku, þ.e. um einn þátt hennar, eignarhaldið. Hvaða kröfur eru síðan gerðar til danskra fjölmiðla? Þarna þarf að skoða samspil löggjafar um eignarhald og síðan þeirrar kröfu sem reist er á hendur fjölmiðlunum til að fá leyfi til að starfa á landsvísu. Reyndar kom eitt mér á óvart í ljósi þess sem sagt var um eignarhald á dönskum fjölmiðlum þar sem m.a. er vikið að eignarhaldi á prentmiðlunum. Mér var bent á að verið væri að selja ráðandi hlut í Berlingske tidende og sá hlutur yrði hugsanlega keyptur af erlendum aðilum. Hvað sem því líður þótti mér það sem kom fram í þeirri frétt ganga í berhögg við það sem segir um fjölmiðlalöggjöfina í Danmörku. Ég þekki þetta ekki nægilega vel til að geta rætt það af nokkru viti en ég nefni þetta sem dæmi um nauðsyn þess að fara betur í saumana á þessum málum, ekki bara hugrenningar okkar og skiptast á skoðunum um almenn viðhorf heldur þarf líka að fara nánar í saumana á þeirri skýrslu sem frv. byggir á. Það er óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli neita Alþingi um þessa sjálfsögðu kröfu, og ekki bara Alþingi, ekki bara stjórnarandstöðunni á Alþingi heldur er þorri þjóðarinnar á þessu máli einnig.

Fyrr í vikunni var haldinn fjölmennur útifundur á Austurvelli þar sem fólkið veifaði rauðu spjaldi. Á máli knattspyrnunnar þýðir það að verið er að flauta slíka menn út af. Það var vegna vinnubragða ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist í dag er 81% andvígt þessu frv. Þó að ég hafi að sjálfsögðu ekki nokkrar forsendur til að meta það fremur en aðrir er ég ekki alveg viss um að það sé einvörðungu andstaða við frv. sem slíkt. Ég held að það sé einnig í bland andstaða við þessi vinnubrögð, að fólk vilji ekki láta bjóða sér þessi ólýðræðislegu og óvönduðu vinnubrögð. Þess vegna ætla ég að ljúka máli mínu á því að harma að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi ekki orðið við þeirri kröfu stjórnarandstöðunnar á Alþingi að vísa málinu frá, að skjóta afgreiðslu þess á frest og efna til vandaðrar, djúprar og málefnalegrar umræðu á næstu mánuðum og missirum.