Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 16:44:59 (8758)

2004-05-21 16:44:59# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þar sem ég hef ekki verið á þinginu undanfarna tvo mánuði vegna fæðingarorlofs sem ég kem úr í dag hef ég ekki tekið þátt í þessari umræðu fyrr. Hins vegar hef ég fylgst með henni eins og hægt er, og hægt hefur verið, úr fjarlægð.

Það sem vekur athygli flestra í þessari umræðu er einmitt að maður, hæstv. forsrh., sem hefur setið nú í 13 ár og ætti að hafa stöðu til þess og hefur á stundum, á hátíðisdögum, verið kallaður landsfaðir skuli á þann hátt sem hér birtist með aðgerðum sínum og vinnubrögðum svo til kljúfa þjóðina í herðar niður, að efna til ófriðar með þjóðinni í jafnstóru og -mikilvægu máli og umræða er um fjölmiðla, ekki vegna fjölmiðlanna sjálfra heldur fyrst og fremst þess hlutverks sem fjölmiðlarnir hafa, að tryggja það að lýðræðið sem er það kerfi sem við viljum vinna eftir virki. Það virkar ekki nema upplýsingar komist til almennings.

Þess vegna vil ég hefja ræðu mína á því, virðulegi forseti, að segja sem svo að ég á mjög erfitt með að átta mig á því hvers vegna ríkisstjórnin og sá meiri hluti sem styður hana á hinu háa Alþingi telji að eignarhaldið muni tryggja þau grundvallarmarkmið sem eru fyrst og fremst réttur almennings til að fá hlutlæga og rétta frásögn af því sem gerist, og rétti blaðamanna --- ég nota það þá yfir alla starfsmenn í fjölmiðlum --- til þess að vinna samkvæmt samvisku sinni og tryggja að almenningur fái hlutlaus tíðindi. Af hverju telja menn að eignarhaldið eitt og sér og breyting á því muni tryggja að þessi markmið náist?

[16:45]

Ég held, virðulegi forseti, að það að ráðast að eignarhaldinu einu og sér dugi ekki til að þessum markmiðum verði náð. Ef hugmyndin er að bjarga hinni íslensku þjóð frá meintum vondum peningamönnum sem í þessu tilviki hafa fyrst og fremst verið tengdir því ágæta fyrirtæki Baugi má segja sem svo að þeir gætu auðveldlega komið sér undan því að vera markaðsráðandi fyrirtæki með því að selja Hagkaup og Skífuna en í morgun var tilkynnt um sölu á Lyfju. Það sýnir kannski í reynd hve máttlaust þetta frv. er að það væri ekki stórt fyrir fyrirtæki eins og Baug sem sennilega hefur 90--95% af starfsemi sinni á erlendum vettvangi að selja þessa hluta. Eftir stæðu þá menn með fyrirtæki sem ekki hefðu markaðsráðandi stöðu á íslenskum markaði. Eftir stæðu þá að stórum hluta, a.m.k. hvað varðar annaðhvort dagblað eða sjónvarp, sömu eigendur. Umræðan sem hér hefur þróast hefur verið afar sérstök og byggt mikið á því hvort menn séu með eða móti búðum, hvort menn séu með eða móti Bónusverslunum. Umræða um fjölmiðla, jafnmikilvæg og hún er, hefur umhverfst í umræðu af þessum toga. Það er afar sérstakt, svo að vægt sé til orða tekið, því að umræða um fjölmiðla er mjög mikilvæg. Fjölmiðlar eru mikilvægir, þess vegna hefur þessi umræða tekið jafnmikinn tíma og raun ber vitni. Þetta er lykilatriði ef við ætlum að reyna að vinna samkvæmt því kerfi sem við höfum og við viljum vinna eftir, lýðræði. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að umræða um þetta mál taki góðan tíma. Ég hef haft möguleika á því í dag að sitja og hlýða á þá umræðu sem fram hefur farið og þar hefur verið dregið fram með mjög skýrum hætti hversu óþroskuð umræðan er hjá okkur og hversu þröngt sjónarhorn þetta frv. hefur á það að tryggja almenningi réttar og hlutlægar upplýsingar og tryggja rétt fjölmiðlamanna. Það er kjarninn í málinu ef þetta á að nást.

Þetta mál snýst hins vegar ekkert um það. Þegar maður rýnir ofan í það enn frekar eins og maður getur kemur á daginn að mínu viti, og það er niðurstaða mín, að frv. snúist miklu frekar um hagsmuni stjórnmálaflokka en hagsmuni almennings. Þetta snýst miklu meira um það að sérstaklega Sjálfstfl. telji að tilteknir fjölmiðlar hafi skapað honum erfið starfsskilyrði og því þurfi að taka á þeim. Það eru því hagsmunir mjög þröngs hóps sem ráða för í þeirri hugmyndafræði sem býr að baki þessu frv. Það er mjög alvarlegt að mínu mati því að hér er um það stórt mál að ræða sem varðar almenning og það má aldrei kristalla svona stórt mál í hagsmunum lítils hóps eða í hagsmunum stjórnmálaflokka. Hugmyndin má ekki vera sú að koma á ógnarjafnvægi milli hugsanlega tveggja stóru flokkanna á þingi, þ.e. Sjálfstfl. og Samf. Það getur aldrei verið markmið svona frv. Þegar maður rýnir í þetta sér maður augljóslega að eins og frv. lítur út nú, hvort sem það kann að taka breytingum eða ekki, er ekki verið að tryggja hagsmuni almennings sem felast í því sem ég rakti áðan og það er heldur ekki verið að tryggja starfsskilyrði fyrirtækja. Þau þarf vitaskuld að tryggja líka af því að við störfum í markaðssamfélagi. Meðan við vinnum eftir því kerfi og höfum það kerfi, og ég hef ekki heyrt nokkurn vilja breyta því nema kannski helst vinstri græna en það er a.m.k. lítill hluti samfélagsins, þarf að tryggja rétt almennings til upplýsinga. Það þarf að tryggja rétt blaðamanna. Hinum megin þarf að tryggja starfsskilyrði fyrirtækjanna en allir þeir sérfræðingar sem hafa komið að þessu og tjáð sig um þessi mál segja að svo sé ekki, það geri það ekki. Hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson benti á það í ræðu fyrir nokkrum dögum að af 90 fyrirtækjum sem högnuðust mest á síðasta ári kunni 60 þeirra ekki að geta fjárfest í fjölmiðlafyrirtækjum. Það hlýtur að vega verulega að möguleikum þessara fyrirtækja til að koma upplýsingunum á framfæri. Ef þetta er gert, ef það er verið að vega þannig að möguleikum þessara fyrirtækja, er spurningin hvort ríkisstjórnin eigi þá ekki að ganga alla leið, vera bara með ríkisdagblað og hafa þetta allt á höndum stjórnmálamanna. Það er spurning hvort sú sé þá sýnin sem menn hafa á þessi mál. Það er alveg klárt að þetta frv. nær ekki að tryggja hagsmuni almennings í landinu. Þetta er afar sérstakt.

Það er líka afar sérstakt þegar maður lítur yfir skýrslu hinnar svokölluðu fjölmiðlanefndar að skipunarbréf hennar í upphafi hljóðar fyrst og fremst upp á að fjalla um eignarhaldið. Ég ætla ekki að gera neitt lítið úr því að eigendur kunni að hafa áhrif á fjölmiðla og efni þeirra en það tryggir ekki þá hagsmuni sem mér finnst vega þyngst í þessari umræðu. Þetta mál má ekki hverfast um hagsmuni stjórnmálaflokka. Þá eru menn algerlega á villigötum að mínu áliti.

Ég nefndi það áðan að það er líklegt að þetta mál muni ekki bjarga hinni íslensku þjóð frá meintum vondum peningamönnum. Það er slæmt, það er mjög slæmt ef það þyrfti að kaupa upp lýðræðið eða kaupa upp umræðuna og skaða lýðræðið á þann hátt sem það kann að hafa í för með sér. Það er líka jafnslæmt ef stjórnmálamenn hafa þessa sömu stöðu. Það er alveg jafnslæmt og jafnvel verra án þess að ég vilji ræða sérstaklega um þessa tvo möguleika. Í þessu er í mínum huga lykilatriði að hvorug niðurstaðan má verða að veruleika, að peningamenn ráði þessu alfarið eða stjórnmálamenn ráði því alfarið. Þegar maður horfir á þetta út frá því sjónarhorni og út frá því að hæstv. forsrh. sem hefur setið í 13 ár skuli kljúfa þjóðina niður á þann hátt sem hér er gert, og þá kannski fyrst og fremst með vinnubrögðum sínum, hlýtur maður að hugsa til Bandaríkjamanna sem fyrir nokkru síðan settu það í reglur hjá sér að forsetinn megi aldrei sitja lengur en átta ár. Hugsunin á bak við þá reglu er fyrst og fremst að forsetinn lendi ekki í þeirri stöðu að hann fari að rugla saman einkahagsmunum sínum og hagsmunum þjóðarinnar og þá um leið að þjóðin sitji ekki uppi með þá hættu. Það gerðist einu sinni í Bandaríkjunum að forseti sat rúm þrjú kjörtímabil, þ.e. Franklin Delano Roosevelt frá 1932--1945. Það vilja Bandaríkjamenn ekki fá aftur. Slíkt vilja þeir ekki fá aftur. Kannski er ýmislegt sem hefur gerst í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar, einkanlega á seinni árum, lifandi sönnun þess að við eigum að skoða það mjög vandlega að forsrh. sitji ekki lengur en átta ár, að menn rugli ekki saman prívathagsmunum sínum, hagsmunum stjórnmálaflokka sinna og hagsmunum almennings.

Ég get alveg sagt það hér að mér finnst margt af því sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar gerðu á fyrri hluta valdatímabils hans vera skynsamlegt og gott. (Gripið fram í: Nei. Nú er ... ræðumann.) Mér fannst margt af því sem þær ríkisstjórnir gerðu vera mjög gott. Þær opnuðu og breyttu samfélaginu og ég verð að segja alveg eins og er að á þeim tíma voru lögð drög að þeim breytingum sem skiptu hvað mestu í opna samfélaginu í dag. Á hinn bóginn (KHG: Tengist þetta eitthvað ...?) verður að segjast alveg eins og er að maður sá að menn höfðu þó hugmyndir og hugsjónir um að koma einhverju í verk en það er algerlega fyrir bí á síðari tímum. Þetta ,,ástand`` á fjölmiðlamarkaði er ekki gamalt, það varð til eftir að þessir meintu vondu peningamenn komu ýmsum fjölmiðlum til aðstoðar sem áttu í erfiðleikum. Hvernig var staðan þá fyrir þann tíma? Ef núverandi fyrirkomulag hefur veitt Sjálfstfl. erfið starfsskilyrði má segja að fyrir þann tíma hafi aðrir stjórnmálaflokkar starfað undir erfiðum starfsskilyrðum þar sem Morgunblaðið réði miklu í umræðunni og svo ríkisfjölmiðlarnir.

Þá spyr maður: Ef þetta var allt saman til að bjarga almenningi frá því að fá ekki nægilega vönduð og fjölbreytileg viðhorf, af hverju kom þetta ekki fram þá? Þegar rýnt er í þetta eins og hægt er og ef maður reynir að skilja umræðuna, reynir að draga út kjarnann og það út úr því að þetta mál snúist ekki með og móti búðum, hvort það eru Bónusbúðir eða einhverjar aðrar --- ef maður er ekki með er maður á móti --- sýnist mér og virðist það snúast um það að bæta starfsskilyrði Sjálfstfl. í íslensku samfélagi. Það sé í raun og veru kjarni þessa máls.

[17:00]

Í dag hafa menn einmitt dregið fram efasemdir um að eitthvað af þessu kunni að standast stjórnarskrána. Ekkert vil ég um það fullyrða hér en hins vegar verður að segjast eins og er að þegar slíkar efasemdir eru settar fram af ýmsum vönduðum mönnum, eins og t.d. Sigurði Líndal og fleirum, spyr maður: Geta það verið almannahagsmunir að setja reglur sem fara í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar? Er það virkilega hugsanlegt að það séu bara almannahagsmunir sem þar er verið að berjast fyrir?

Virðulegi forseti. Það er óskaplega erfitt að skilja það þannig að það geti hugsanlega verið nema þá að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar séu ekki endilega í anda almannahagsmuna. Lái mér hver sem vill en það er óskaplega erfitt að átta sig almennilega á því hvað verið sé að fara nema ganga erinda einhvers mjög þröngs hóps vegna þess að honum hafa verið sköpuð erfið starfsskilyrði að þeirra eigin mati. Vandinn er líka sá að ef við reyndum að átta okkur á því hvað það er nákvæmlega sem er svona erfitt voru svörin þau: Lesið þið Baugstíðindi? Asnist menn til þess og finna ekki dæmin er það þeirra vandamál. Við, margir þessir óbreyttu þingmenn, áttum okkur ekki á því hvar vegið er að þessum starfsskilyrðum og það vantar því inn í umræðuna að draga það fram. Hvar er vegið að þeim? Af hverju gera menn okkur þá ekki grein fyrir því? Þá ættum við auðveldara með að fara yfir málið. Við greinum þetta ekki alveg sjálf. Það er ekki hægt að leyna okkur upplýsingum, eða býr eitthvað allt annað að baki þegar upp er staðið? Hafa menn einhverjar upplýsingar sem þeir liggja á og ætla að nota einhvern tíma seinna? Er það það sem þetta mál snýst um? Af hverju er ekki hægt að segja okkur frá því af því að við áttum okkur ekki almennilega á því hvað verið er að fara? Er eitthvað í þessu máli --- það hlýtur eitthvað að vera --- sem við ekki sjáum og menn liggja á? Af hverju fer ekki fram almennileg umræða um þetta? Af hverju eru stjórnarþingmenn á flótta úr salnum? Af hverju tala þeir ekki máli sínu? Af hverju leggja þeir ekki þessi rök fram og segja: Þið eruð bara á villigötum. Þetta er svona og svona. Þetta eru einhverjir vondir peningamenn sem eru að reyna að hirða lýðræðið. Þeir þurfa að leggja fram rökin, B-þátturinn þarf að fara fram. En svo er ekki. Þetta er einræða sálarinnar að einhverju leyti, stjórnarandstöðunnar.

Svo er alveg dásamlegt að einstakir fjölmiðlar segja að stjórnarandstaðan fjalli ekkert um málið, þetta sé allt um eitthvert form. Það eina sem við biðjum um er að við séum upplýst um á hvaða ferðalagi ríkisstjórnin er. Það er allt og sumt sem við biðjum um. Það hefur ekki verið hægt að útskýra það og það hefur ekki verið hægt að tína til dæmin um hvar verið sé að bjarga mönnum. Hvernig getur þá umræðan almennilega farið fram?

Ég hef setið hér í allan dag og hér hafa menn flutt margar ágætar ræður eins og t.d. hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson þar sem hann dró einmitt fram mjög marga hluti sem skipta máli. Það gerði einnig hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hér talaði fyrir sínum sjónarmiðum og gerði það, eins og fleiri, ágætlega. Menn hafa gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Ríkisstjórnin þarf þess hins vegar ekki. Ef þeir eru ekki með okkur eru þeir á móti okkur, með vondum peningamönnum. Slík umræða er ekki boðleg í samfélagi sem telur sig vera þroskað. Það er lágmarkskrafa að menn komi fram og kveði okkur þá í kútinn, færi a.m.k. fram sjónarmið. Svo er ekki. Það er alveg sama hvort horft er til hagsmuna almennings eða hagsmuna þessara fyrirtækja, hvorugur hópurinn nýtur góðs af þessu frv. Hvar liggja þá hagsmunirnir? Er verið að tryggja ógnarjafnvægi stærstu stjórnmálaflokkanna?

Virðulegi forseti. Þetta er stórt mál og grafalvarlegt. (GAK: Sáttin.) Það sást undir hælana á einum hv. stjórnarþingmanni í gættinni. Allir helstu sérfræðingar sem fjallað hafa um málið segja að þetta sé ekki gott. Einhverjar upplýsingar hlýtur ríkisstjórnin að hafa á stjórnarheimilinu sem við höfum ekki. Það er búið að leita upplýsinga alls staðar. Allir komast að sömu niðurstöðu. En af hverju segja þeir okkur ekki, hv. þingmenn, á hvaða villigötum við séum, að þeir séu að bjarga þjóðinni frá vondum peningamönnum? Af hverju færa þeir ekki rök fyrir máli sínu? Er engin krafa um það lengur í stjórnmálaumræðu að menn færi rök fyrir máli sínu? Af hverju svara menn ekki spurningunni: Af hverju? Af því að þeir meta einhverja stöðu vonda fyrir sig? Það er ekki nóg.

Við stjórnmálamenn erum þjónar almennings og eigum að vinna sem slíkir. Líklega er þó svo að þegar ríkisstjórnin hefur setið jafnlengi og raun ber vitni og menn sjá drauga í hverju horni kunna svona hugmyndir að fæðast.

Það má líka nefna annað lítið dæmi um óvönduð vinnubrögð sem mér finnst kannski, eins og hér hefur komið fram áður, fara alveg óskaplega fyrir brjóstið á mönnum án þess að ég hafi einhverja sérstaka möguleika á að fullyrða slíkt. Þau vinnubrögð að troða ofan í kokið á fólki reglum sem lúta að kjarna lýðræðisins og hvernig það virkar mælast ekki vel fyrir. Sem dæmi má nefna að útvarpsleyfi eru veitt til einstaklinga jafnvel eða fyrirtækja en síðan mega einhverjir ekki eiga meira en eitthvert x-hlutfall í fyrirtækjum sem reka útvarp. Þetta er dæmi um það hvernig útvarpsréttarlög og þessar hugmyndir passa ekki saman. Það er samt alveg sama hvaða rök eru færð fram. Í stað þess að koma fram og ræða efnislega um málið er frekar æpt og gólað að vanda á stjórnarandstöðuna að hún sé með málþóf, og það þó að menn séu búnir að fara ítarlega og efnislega yfir málið frá a til ö. Alltaf heitir það að hún sé með málþóf. Hvernig má það vera að umræða og umræðuhefð þroskist með einhverju viti þegar menn komast upp með þetta? Ef menn fínkemba t.d. orðræður hæstv. forsrh. um þetta mál finna þeir engin, ég fullyrði það, vitiborin rök fyrir því að fara þessa leið. Hvort hann lumi á einhverjum upplýsingum sem hann spilar út síðar veit ég ekkert um. En það er ekki hægt að byggja á þeim upplýsingum nú, þegar þær liggja ekki fyrir.

Virðulegi forseti. Vissulega hefur verið rætt margt og mikið um þetta mál. Það hlýtur að vekja alveg sérstaka athygli í ljósi markmiða frv., þ.e. þeirra markmiða um eignarhaldið að það eigi að tryggja fjölræði í fjölmiðlum og skapa nauðsynlegt frelsi og sjálfstæði, að þeir sem kannski mesta þekkingu hafa á þessum hlutum, þ.e. samkeppnisreglum, hvernig þær virka og hvað er líklegt að hafi áhrif, segja að þetta hafi akkúrat öfug áhrif. En það er bara ekki hlustað á nokkurn einasta mann.

Virðulegi forseti. Ég held að stjórnarandstaðan í þessu máli hafi kallað eftir eins miklum upplýsingum og hægt er og dregið þær fram. Allar þær upplýsingar benda í sömu átt. Setjið þetta á frost og skoðið það frekar. Áttið ykkur almennilega á því hvaða markmiði þið eruð að reyna að ná og hvaða afleiðingar svona lagasetning kann að hafa í för með sér. Það er það sem sagt er. Ég hef sagt það sjálfur. Ég tel fulla ástæðu til að skoða það að setja lagareglur, ég tel fulla ástæðu til þess, en forsendan fyrir setningu lagareglna á ekki að vera starfsskilyrði stjórnmálaflokka eða starfsskilyrði Sjálfstfl. í íslensku samfélagi. Það getur aldrei verið útgangspunktur í lagasetningu á Alþingi og má ekki vera.