Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:50:48 (8764)

2004-05-21 17:50:48# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn velti upp ýmsum álitamálum í þessari lagasetningu sem var áhugavert að hlýða á. Ég tek undir það sjónarmið þingmannsins að þessu máli er ekki lokið þó lög verði sett á næstu dögum. Mig langar að bera fram eina spurningu til hv. þm., sem ég hef reyndar borið fram fyrr í dag. Hún er þessi: Af því að við höfum verið að reyna að brjóta til mergjar af hverju svona mikið kapp er lagt á að knýja fram þessa lagasetningu, keyra frv. í gegn, sem kemur fram löngu eftir að þinginu átti að vera lokið, þ.e. ef menn óttast að sú fjölmiðlasamsteypa sem frv. er beint gegn og lögunum sem á að setja yrði enn þá sterkari áður en þeim gæfist tími til að setja lög í haust, hvaða fjölmiðlar gætu þá hugsanlega verið eða orðið í boði í sumar sem hefðu gert þetta að verkum? Hefur þingmaðurinn fundið einhverja ástæðu eða rök fyrir eða fundið skilning á því af hvaða ástæðu menn leggja allt þetta kapp á að setja þessi lög núna frekar en vinna þetta öðruvísi og koma með þetta mál í haust? Mér hefur ekki tekist að átta mig á þessu en mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að brjóta það til mergjar.