Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:54:37 (8766)

2004-05-21 17:54:37# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er mjög á sömu línu og ég. Mér finnst mjög óþægilegt fyrir okkur þingmenn að hafa enga hugmynd um af hverju frv. sem er svo umdeilt er keyrt í gegn með þeim hætti sem hér á að gera. Ég tek undir að það væri líklega helst Morgunblaðið sem menn væru að hugsa um og jafnvel þótt selja ætti það í sumar, sem ég get varla ímyndað mér, en ekki er hægt að hugsa sér að það ætti erindi inn í þessa samsteypu, sérstaklega ekki ef maður lítur á það Morgunblað sem nú hefur orðið til vegna þess að þar hefur að undanförnu einhver tekið að sér að skrifa bæði Reykjavíkurbréf og leiðara sem færir blaðið allt inn í flokksblaðakerfið, eins og við töluðum um fyrir nokkrum dögum, ég og þingmaðurinn.

Yfirleitt erum við að vinna með einhverja lagasetningu og ég held að alltaf liggi nokkurn veginn fyrir af hverju er verið að setja lög. En það sem hér hefur komið fram er að það á bara að bregðast við mikilli fjölmiðlasamsteypu eins og hún er orðin og það er ekkert sem kallar á að þetta gerist frekar núna en í haust þannig að við hljótum að vera með mjög áleitnar spurningar. Af hverju er okkur haldið daga og kvöld til að keyra í gegn svo vafasamt mál sem þjóðin öll er farin að hafa skoðun á?