Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:56:18 (8767)

2004-05-21 17:56:18# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Við erum orðin því vön að horfa upp á að hlutir gerist hratt í viðskiptalífinu og milljarða viðskipti þykja ekki tíðindum sæta. Menn vilja helst vera búnir að skrifa undir nokkra slíka samninga fyrir hádegi sumir hverjir til að þeim líði vel það sem eftir er dagsins. Auðvitað vitum við ekki hvaða sviptingar gætu hugsanlega hafa orðið eða verið fram undan að óbreyttum lögum í þessum efnum. Eins og ég segi er ekki mörgum stórum til að dreifa og fyrst og fremst eru það þá Skjár 1, sjónvarpsstöðin, og síðan Morgunblaðið sem væru umtalsveðar stærðir á þessum fjölmiðlamarkaði sem hefðu getað komið inn í einhverja frekari samþjöppun ef það er spurningin.

Þá kem ég að því sem væru hin venjulegu viðbrögð við ástandi af þessu tagi. Menn mundu setja umsvifalaust, ef þeir teldu það brýnt, skorður við frekari samþjöppun og segja: Við höfum áhyggjur af þróuninni, hingað er þetta komið. Við stoppum það að meira gerist á meðan við tökum okkur tíma í að skoða ástandið. Þetta væru í sjálfu sér mjög rökrétt viðbrögð ef menn hefðu áhyggjur og segja: Engir frekari ljósvakamiðlar og prentmiðlar, dagblöð og útvarpsstöðvar mega renna saman á meðan við skoðum ástandið. Þegar á sambærilegum aðstæðum hefur verið tekið í viðskiptalöggjöfinni, t.d. erlendis, er mjög algengt að settar séu skorður við frekari samruna og menn kannski skoðað síðan í nokkur ár hvort jafnvel eigi að ganga til baka og leysa upp einhverja risa sem hafa orðið til. Ég hef áður nefnt í þessari umræðu hin frægu Sherman-lög í Bandaríkjunum sem sett voru 1890 gagngert vegna þess að menn höfðu miklar áhyggjur af sérstaklega einum stórum auðhring sem fór þá mikinn í bandarísku viðskiptalífi og reyndar víðar. Það var ekki fyrr en 1911, 21 ári síðar, sem hann er svo leystur upp á grundvelli ákvæða í þessum sömu lögum. Menn fóru sem sagt ekki þá leið að höggva hann í spað með lögum sem tækju strax gildi heldur settu menn almenn lög til að hefta samruna í viðskiptalífinu og eftir gríðarlegan undirbúning var síðan gripið til aðgerða á grundvelli þeirra.