Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 20:01:34 (8770)

2004-05-21 20:01:34# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að mér er sama þó að fámennt sé í salnum (Gripið fram í: Góðmennt.) en ákaflega góðmennt í þingheimi og einnig á forsetastóli. Ég kýs hins vegar að biðja forseta um að athuga í fyrsta lagi hvort formaður allshn. er í húsinu og í öðru lagi að hafa samband við hann ef svo er ekki og segja honum frá því að hér standi yfir 3. umr. um frv. sem farið hefur um nefnd hans og sem hann er þar með formlega ábyrgur fyrir.

(Forseti (BÁ): Forseti mun gera formanni allshn. viðvart um þessa ósk hv. þm.)

Það er nefnilega svo, forseti, sem áður hefur borið á góma í þessu máli að það ákvæði þingskapa sem skyldar þingmenn til að sækja fundi er auðvitað sjálffallið úr gildi, eftir því fer enginn og það eina sem eftir er af því er ákveðin regla og hefð um að menn séu við atkvæðagreiðslur. Um það eru hins vegar engin sérstök ákvæði í þingsköpum og því þarf auðvitað að breyta en það er líka svo að þeir sem eru ábyrgir fyrir því máli sem rætt er verða að vera við umræðuna. Það er ekki annað en kurteisi gagnvart þeim sem taka þátt í þeirri athöfn að ræða málið sem hinir leggja fram og leggja áherslu á að afgreitt sé með einhverjum hætti og það er plagsiður að kalla til ráðherra seint og snemma og ágætur siður þegar það á við. En lágmarkskrafa er auðvitað að formaður þeirrar nefndar sem fjallað hefur um málið sé viðstaddur umræðuna í 2. og 3. umr.

Nú horfi ég yfir salinn í 3. umr. um málið sem hefur valdið meiri titringi og meiri mótmælum í samfélaginu en nokkurt annað í mörg missiri og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn. er ekki hér. Varaformaður nefndarinnar sem ég man ekki hver er er ekki hér heldur. Ég get ekki annað en lýst óánægju minni með þessa starfshætti formanns allshn. Ég tel það ámælisvert að hann skuli ekki vera hér og að hann skuli ekki hafa verið hér í dag það sem ég hef fylgst með. Ég vænti þess að forseti komi þessum skilaboðum á framfæri við formann allshn.

(Forseti (BÁ): Eins og forseti sagði áður er verið að gera formanni allshn. grein fyrir ósk hv. þm. um nærveru hans við umræðuna.)

Forseti. Formaður allshn. er nýliði á þinginu rétt eins og ég og ég tel ákaflega mikilvægt að við sem nýir erum lærum af hinum eldri, bæði það sem gott er, þá siði sem hér hafa skapast í áranna og aldanna rás, og við getum líka lært vítin því að þau eru til að varast. Mér finnst sorglegt að nýr þingmaður, frískur og hress ungur maður, hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., skuli hefja feril sinn með þessum hætti og taka upp eftir hinum eldri þingmönnum það versta sem þinghefðir hér hafa fram að bjóða sem er t.d. það að geta ekki verið viðstaddir þegar rætt er um mál sem þeir eiga að meðhöndla og ég tel raunar að ef formenn nefnda nenna ekki, því ekki eru lögmæt forföll, forseti, ...

(Forseti (BÁ): Formaður allshn. hefur gert grein fyrir því að hann eigi afar bágt með að vera viðstaddur akkúrat núna en hann veit af ósk hv. þm.)

Þá tel ég að formaður allshn. eigi að senda varamann sinn, varaformann allshn. á staðinn, eða hætta formennsku í nefndinni sem líka kemur til greina ef þingmaðurinn hefur of mikið að gera eða er of upptekinn af einhverjum ástæðum til að vera við umræðu um það mál sem farið hefur um nefnd hans.

Það er af mörgu að taka í þessari umræðu og margt hefur verið sagt. Auðvitað er það svo að þegar maður ræðir málið í 3. umr., ég tók þátt bæði í 1. umr. og 2. umr. og líka í forumræðu málsins þegar rætt var um fjölmiðlaskýrsluna, þetta er auðvitað ein samfelld ræða, þá kemst maður ekki hjá að endurtaka með einhverjum hætti það sem áður hefur verið sagt og verður að biðja þingheim afsökunar á því. --- Ég fagna því að nú gengur í salinn hv. þm. Jónína Bjartmarz og er vonandi að biðja um að verða sett á mælendaskrá því við höfum saknað hennar, þingmenn aðrir. Hún var á mælendaskrá við umræðuna um skýrslu fjölmiðlanefndar og hefur síðan verið á mælendaskrá fram og aftur bæði í 1. og 2. umr. og reyndar í þeirri 3. líka en ekki, hygg ég, tekist að tala og það er reyndar beðið eftir því með nokkurri eftirvæntingu og óþreyju hvað hún hefur fram að færa þannig að ég fagna því sérstaklega að hún sé á skrafi við fundarborðið þar sem menn skrá nöfn sín á mælendaskrána. --- Ég ákvað við 3. umr. málsins að taka saman nokkur helstu atriði sem bæði Samf. og samfylkingarþingmönnum öllum og þó mér sérstaklega hefur þótt mikilvægust í andstöðu okkar við það frv. sem hér er um að ræða. Ég var svo heppinn að í gær fékk ég tölvubréf, af því að þau eru títtnefnd bæði á þinginu og annars staðar í samfélaginu, frá námsmanni sem heitir Kristmundur Þór Ólafsson og hann hafði þetta við mig að segja, með leyfi forseta:

,,Kristmundur heiti ég og hef ákveðið að senda þér bréf þar sem þú gætir kannski lýst fyrir mér hvernig Samfylkingin lítur á frumvarpið [þ.e. fjölmiðlafrumvarpið] í tengslum við ákveðin sjónarhorn. Þetta ákvað ég að gera því ég sendi þér póst í vetur og fékk frekar góð svör í sambandi við aukna fjárveitingu sem Samfylkingin vildi standa fyrir í málefnum Háskóla Íslands. Ásamt því að ég hef að verið með vaxandi efasemdir um umfjöllun fjölmiðla um efnið, því þeir eru nú hagsmunaaðilar í þessu máli.``

Kristmundur Þór sendi mér nokkrar spurningar sem ég settist niður til að svara og ætlaði að gera í knöppu máli, svara þessu tölvubréfi, en úr því svari varð raunar lengri texti og ég sá mér þess vegna leik á borði að gera tvennt í senn, svara Kristmundi Þór hinum ágætu spurningum hans, og nota það svar síðan í þá ræðu sem ég hafði einmitt hugsað mér að flytja.

Fyrsta spurning Kristmundar Þórs er einföld. Hún er svona: ,,Af hverju er Samfylkingin á móti frumvarpinu?``

Svar mitt er þetta:

Samfylkingin er á móti frumvarpinu vegna þess að það vinnur gegn markmiðum sínum um fjölbreytni í fjölmiðlum. Frumvarpið er atlaga að einu fyrirtæki, Norðurljósum, og ef það verður samþykkt er hætt við að það fyrirtæki veikist og klofni upp. Það gæti dregið verulega úr afli Stöðvar 2 og það gæti leitt til þess að annaðhvort Fréttablaðið eða DV færi yfir um eða jafnvel bæði. Jafnvel þótt fjölmiðlum fækkaði ekki er ljóst eða a.m.k. afar sennilegt að frumvarpið drægi úr afli þeirra með því að takmarka verulega aðgang fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni. Sú takmörkun gerir fyrirtækin um leið að annars flokks fjárfestingarkosti. Frumvarpið setur skilyrði um 5% hámarkseign markaðsráðandi fyrirtækja yfir ákveðinni ársveltu. Félagi minn, hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson, sagði í þingræðu á föstudaginn frá því að af þeim 90 fyrirtækjum sem höfðu mestan hagnað í fyrra, 2003, og eiga þar með fé afgangs til fjárfestinga meira en önnur fyrirtæki, væru um 60 útilokuð frá fjárfestingum í fjölmiðlafyrirtækjum þar sem þau teldust vera markaðsráðandi á sínu sviði og veltu meira en þeim 2 milljörðum sem ákvæði er um í frv. eins og það er núna. Langflest hinna 30 sem eftir standa eru sjávarútvegsfyrirtæki. Nú er að vísu ekki líklegt að Samherji og Grandi leggi af sjálfu sér fé í fjölmiðla, stefna þeirra í fjárfestingarmálum og útrásarmálum hefur verið önnur, en það er svo sannarlega undarleg staða og óeðlileg að aðeins stórfyrirtæki úr einum geira atvinnulífsins hafi leyfi til slíkrar fjárfestingar.

Samfylkingin er á móti frumvarpinu vegna þess að okkur finnst heimskulegt að banna að fyrirtæki geti átt bæði dagblað og útvarpsstöð. Þróunin hefur verið sú, bæði á Íslandi og þó einkum erlendis, að fjölmiðlun er að verða að einni starfsgrein án tillits til þess hvert endanlegt birtingarform hennar er, dagblað, vikublað, vefsetur á netinu, útvarp, sjónvarp með venjulegum hætti, gegnum kapal, gervihnött, um símakopar í tölvuna og svo framvegis. Þessi þróun hefur vissulega verið skrykkjótt en um leið afar áberandi. Liður í henni er að til verða fyrirtæki sem sameina fjölmiðlun af mörgu tagi og ýmsan annan menningarrekstur, tónlistarútgáfu, vefhönnun, bókaútgáfu, kvikmyndagerð, umbrot og grafíska hönnun o.s.frv. og auðvitað líka auglýsinga- og markaðsstarf af ýmsum toga. Þarna eru ekki lengur múrar á milli, fyrirtæki á þessu sviði eru hvert öðru háð og það væri fullkomlega óeðlilegt að þrengja að vexti þeirra og þróun nema mönnum þyki upp komið einhvers konar neyðarástand sem almannahagsmunir liggi við að stöðva. Dæmi um slíkt fyrirtæki er auðvitað Norðurljós, en hérlendis eru ýmis önnur dæmi um slík fyrirtæki á landsbyggðinni þar sem útvarpsrekstur eða útgáfa fréttablaðs í héraði fer hönd í hönd við ýmiss konar menningar-, hönnunar- og markaðsstarf. Þetta er reyndar leyft í frumvarpinu, það sem er bannað á landinu öllu, þ.e. í Reykjavík eða í raun í Reykjavík, má leyfa þegar komið er út á land á einstaka staði. Engin skýring hefir fengist á þeirri reglu. Markaðsráðandi fyrirtæki má væntanlega eitt og sér í lagi eiga bæði útvarp og dagblöð á Akureyri eða Patreksfirði ef fjölmiðlarnir halda sig nokkurn veginn við héraðið, en ekki í Reykjavík. Alcoa gæti stofnað sjónvarpsstöð og gefið út dagblað á Reyðarfirði, það er allt í góðu ef dagskráin berst ekki suður.

Company town heitir það á ensku þegar eitt fyrirtæki ræður öllu í bænum og hefur allt á sinni hendi. Sé það staðbundið á Íslandi er allt í lagi að hafa Company town í fjölmiðlum. En það er ekki í lagi að markaðsráðandi fyrirtæki eigi meira en 5% í fjölmiðli sem berst um allt land. Hugsunin í þessu frumvarpi er engin, skýringarnar engar.

[20:15]

Frumvarpið er skraddarasaumað, það er ástæðan. Það sést meðal annars á því að í frumvarpinu er ekki bannað að sami maður eða fyrirtæki eigi mörg dagblöð, þess vegna meiri hlutann af öllum dagblöðum á landinu, eða margar útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Samkvæmt frumvarpinu er allt í lagi að ein fjölskylda gefi út öll tímarit á Íslandi. Í frumvarpinu er ekkert um eignarhald á netmiðlum. Samkvæmt frumvarpinu væri þess vegna leyfilegt að mbl.is keypti upp alla aðra frétta- og afþreyingarmiðla á Íslandi. Í frumvarpinu er ekkert um aðra miðlunarmöguleika gegnum netið, útvarp og sjónvarp, þótt sú framtíð sé þegar hafin. Eignarhald er fullkomlega frjálst á því sviði. Þar er ekkert um breiðbandið eða aðrar símalínustöðvar sem ekki þurfa útvarpsleyfi og útvarpa þó fleiri sjónvarpsdagskrám en dæmi eru um nokkurs staðar annars staðar. Það er ekkert um kapalsjónvarp, ekkert um gervihnattasendingar. Af hverju er það? Jú, það er af því að flytjandi frumvarpsins, höfundur þess, virðist ekki hafa neinar almennar áhyggjur af eignarhaldi á fjölmiðlum heldur aðeins af eignarhaldi á einu fyrirtæki, fyrirtækinu Norðurljósum, sem á einmitt útvarp og útvörp, sjónvarp og tvö dagblöð, en ekki tímarit, ekki netmiðil sem vert sé að nefna, ekki kapalsjónvarp og ekki gervihnött. Þetta fyrirtæki þarf að stöðva með öllum ráðum en ekkert skeytt um eignarhald á öðrum sviðum en þeim sem snerta Norðurljós. Ef höfundi frumvarpsins tekst að koma höggi á þessa vondu menn í Norðurljósum er honum alveg sama um afleiðingar frumvarpsins fyrir aðra, fyrir neytendur og almenning á Íslandi, og fyrir þá sem í framtíðinni ætla að stofna fjölmiðla og reka þá hér á landi.

Samfylkingin er á móti frumvarpinu vegna þess að blankir og veikburða fjölmiðlar eru oftast hræddir fjölmiðlar. Þeir vilja ekki styggja valdið, hvort sem það sprettur úr viðskiptum eða stjórnmálum. Veikir og blankir fjölmiðlar þjóna ekki lýðræðinu. Þar slaknar á öllum kröfum um fagmennsku og sjálfstæði gagnvart peningaógn og stjórnmálahótunum. Þeir lúta öðru valdi í samfélaginu í staðinn fyrir að mynda sjálfir fjórða valdið. Það er dýrt að reka sjálfstæða fréttastofu og halda uppi samfélagsumræðu og menningarumræðu í myndum og texta. Það er einfalt að lesa tilkynningar og selja auglýsingar, beinar, óbeinar eða duldar.

Samfylkingin er líka á móti frumvarpinu vegna þess að þær takmarkanir sem það hefur í för með sér fyrir fjölmiðlana draga úr getu þeirra til að taka þátt í íslenskri dagskrárgerð, innlendri dagskrárgerð og íslenskri menningu. Það er alveg ljóst að til að standa undir þróttmikilli dagskrárgerð eða textaumfjöllun, þegar um blöð er að ræða, þarf sterkan miðil, góðan rekstur, öflugan bakhjarl í sjóði eða traustum eiganda. Það auðveldasta í sjónvarpi er auðvitað að verða áskrifandi að fjöldaframleiðslu sem heimurinn fær frá Bandaríkjunum, fjöldaframleiðslu sem um margt er alveg þokkaleg og við skulum ekki fitja upp á trýnið af því einu saman, en sú fjöldaframleiðsla stendur ekki ein og sjálf undir þeim kröfum sem við gerum á Íslandi og sem við eigum að gera á Íslandi til fjölmiðlanna okkar. Þegar búnar eru til aðstæður sem draga afl úr fjölmiðlum eins og gert er í þessu frumvarpi er um leið verið að veikja getu fjölmiðlanna til að miðla íslenskri menningu. Og því má heldur ekki gleyma að íslenskir fjölmiðlar eru nú margir komnir í mikla samkeppni við erlenda fjölmiðla. Hver er sérstaða hinna íslensku miðla? Hún er sú að fjalla á íslensku um íslensk málefni og taka á íslensku þátt í íslenskri menningu. Ef fjölmiðlunum eru ekki búnar aðstæður til þess að taka þátt í íslensku samfélagi og vera spegill þess er auðvitað eðlilegt að neytendur velji að lokum miklu frekar erlenda fjölmiðla sem eru sterkari og fjölbreyttari og ódýrari. Ef Morgunblaðið og Fréttablaðið og DV væru bara með erlendar fréttir og erlendar greinar og erlenda pistlahöfunda mundum við þá ekki miklu heldur vera áskrifendur að Politiken, New York Times og Le Monde eða þá að Ekstrabladet og Sun og Gazetta della sport?

Í þessu samhengi vil ég vitna til umfjöllunar í umsögn minni hluta menntmn. sem sendi allshn. sem frægt er orðið umsögn eftir einhverja þá klénustu umfjöllun um stórmál sem ég hef tekið þátt í, en í umsögn minni hluta menntmn. segir þetta m.a., með leyfi forseta, og það þarf ekki að spyrja Kristmund Þór um það leyfi:

,,Það er mat minni hlutans að sérstaklega hafi verið þörf á að beina sjónum að menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla og skoða frá því sjónarhorni hvort náðst hafi yfirlýst markmið frumvarpsins um að tryggja æskilega fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun og hlúa að því lykilhlutverki þeirra að vera ,,vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi`` og ,,mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis`` eins og það er orðað í athugasemdum við frumvarpið.

Að afloknum fundi með þeim gestum sem að framan eru taldir`` --- hér er um minnihlutaálit úr menntmrn. að ræða --- ,,og eftir þá athugun á málinu sem möguleg var miðað við aðstæður sem menntamálanefnd voru búnar er það mat minni hlutans að ekkert bendi til þess að markmið frumvarpsins um æskilega fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi náist verði það að lögum. Breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar`` --- sem voru næstsíðustu breytingartillögur í sögu þessa frv. --- ,,breyta engu þar um`` --- segir í álitinu og ég get framlengt það að hinar nýju breytingartillögur breyta heldur engu þar um. --- ,,Tekið skal undir þá fullyrðingu sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að mikilvægt sé að fjölmiðlar standi undir þeirri kröfu að almenningur hafi ,,aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum``. Minni hlutinn vekur athygli á því að forsenda þessarar kröfu er að til séu á Íslandi slíkir fjölbreyttir, sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar. Í fjölda umsagna til allsherjarnefndar er talin hætta á að aðgerðir sem kynntar eru í frumvarpinu verði til þess að veikja fjölmiðla þá sem nú starfa og leggja suma þeirra að velli. Þá skerði hinn fyrirhugaði lagarammi svo rekstrargrundvöll fjölmiðlanna til frambúðar að hætt sé við að mjög dragi úr framlagi þeirra til íslenskrar menningar, m.a. með innlendri dagskrárgerð í ljósvakamiðlum. Líklegt er einnig að slík þróun veiki stöðu íslenskrar tungu á fjölmiðlavettvangi, en við athugum málsins er í mikilvægum umsögnum bent á að íslenskir fjölmiðlar eru nú í samkeppni við erlenda að því marki að aldrei hafi þekkst í þjóðarsögunni.

Flest bendir til`` --- segir að lokum í áliti minni hluta menntmn. --- ,,að ekki einungis skorti mjög á að frumvarpið nái yfirlýstum markmiðum, ef að lögum yrði, heldur sé sennilegt að ákvæði frumvarpsins vinni beinlínis gegn því að þessi markmið náist og stuðli að aukinni fábreytni í efnisframboði, dagskrárgerð og lýðræðislegri umfjöllun. Verði þetta niðurstaðan bitnar frumvarpið ekki einungis á fjölmiðlunum, starfsfólki þeirra og aðstandendum heldur einnig margvíslegu menningarstarfi sem þeim tengist, og verður til þess að þrengja að vaxtarmöguleikum íslenskrar menningar og takmarka óðal íslenskrar tungu.``

Þetta segir m.a. í áliti minni hluta menntmn. og það er m.a. af þeim ástæðum sem Samfylkingin er á móti frumvarpinu. Samfylkingin er líka á móti frumvarpinu vegna sterkra raka sem fram hafa komið um að það standist ekki stjórnarskrá og Evrópurétt og geti meðal annars skapað sjóðum almennings verulega skaðabótaskyldu. Þær breytingar sem höfundur frumvarpsins hefur gert á því nú í þrígang, en þetta er sem kunnugt er fjórða gerð frumvarpsins sem hér er nú til umfjöllunar, hafa allar miðast við að sigla fram hjá þessu skeri og það kann að hafa tekist í einhverjum atriðum. Enn telja þó ýmsir fremstu lögfræðingar þjóðarinnar að á skorti. Ég hef sjálfur unnið drengskaparheit að því að virða stjórnarskrána, það gerir hver einasti nýr þingmaður á fyrsta fundi sínum á Alþingi. Það heit þýðir auðvitað ekki að maður sé í öllum greinum sammála því sem stendur í stjórnarskránni, það er ekki svo að skilja. Drengskaparheitið merkir að þingmaðurinn lofar því að ganga í störfum sínum aldrei á svig við þennan mikla ramma sem þjóðin hefur markað störfum þeirra sem fara með löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald á Íslandi. Sjálfur lagði ég við þetta drengskap minn í fullri alvöru. Þar með er það auðvitað ekki mitt að gera upp á milli einstakra ákvæða stjórnarskrárinnar. Ég verð þó að segja að einhver mikilvægustu mannréttindi í lýðræðissamfélaginu nú og allar síðustu aldir felast í tjáningarfrelsinu og það er mín skoðun að stjórnmálamenn sem vilja teljast lýðræðissinnar --- einu sinni var á Íslandi talað um lýðræðisflokkana --- eigi að temja sér alveg sérstaka virðingu fyrir ákvæðum stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsið.

Samfylkingin er líka á móti frumvarpinu vegna þess að í því er ekki gætt meðalhófsreglunnar en meðalhófsreglan er ákvæði í stjórnsýslulögum sem skyldar stjórnvöld til að grípa ekki til frekari ráðstafana en nauðsynlegar eru til að ná því markmiði stjórnsýsluathafna sem stefnt er að og vitna ég nú í íslenska orðabók frá árinu 2003.

Herdís Þorgeirsdóttir og Páll Þórhallsson, lögfræðingar bæði, hafa sagt okkur í greinum og Herdís sagði það á fundi með minni hluta menntmn. að í Evrópuréttinum, þeim sem um fjölmiðla fjallar, sé alveg sérstaklega minnt á þessa meðalhófsreglu og gert ráð fyrir því að þegar ríki sem vilja fara að tilmælum Evrópuráðsins um að spyrna á móti samþjöppun í fjölmiðlum og tryggja þar fjölbreytni velja sér ráð til þess gæti þau þess að velja aldrei hinn ýtrasta kost nema aðrar mildari leiðir og skynsamari hafi verið reyndar fyrst eða íhugaðar. Það hefur höfundur frv. ekki gert vegna þess að honum komu þær leiðir ekki við. Markmið hans virðist ekki hafa verið það að búa í haginn fyrir fjölmiðlun sem hæfði lýðræðissamfélagi, þroskuðu lýðræðissamfélagi á Íslandi. Markmið hans virðist hafa verið það eitt að ná sér niðri á mönnum sem hann taldi hafa gert á hlut sinn og höggva í því skyni á rætur fyrirtækis sem nú starfar á fjölmiðlamarkaði með fullu leyfi samkvæmt öllum þeim lögum sem til þarf.

Samfylkingin er líka á móti frumvarpinu vegna þess að við teljum að með því ráðist ríkisstjórnin að starfsgrundvelli fjölda fólks sem hefur afkomu sína af störfum við fjölmiðlun. Nærtækast er auðvitað að nefna þá næstum 700 starfsmenn sem nú þiggja laun hjá Norðurljósum. Þegar menn ráðast gegn slíkum vinnustað með sérlögum þurfa verulegir almannahagsmunir að standa að baki. Höfundur frumvarpsins og félagar hans hafa ekki sýnt fram á í þinginu í greinargerð með frumvarpinu eða í opinberri umræðu neina slíka almannahagsmuni. Þess vegna er í þessu tilliti ekki hægt að líta öðruvísi á en að þeir séu í sínum hefndarhug að níðast sérstaklega á þessu fólki.

Þetta voru svörin við fyrstu spurningu Kristmundar Þórs Ólafssonar. Önnur spurning hans er svona, með leyfi forseta: ,,Eruð þið á móti því [frumvarpinu] öllu eða eruð þið aðeins á móti sérstökum atriðum þess?``

Svarið er þetta:

Við teljum ekki hægt að bæta þetta frumvarp, því verður að fleygja í heild. Það er núna í fjórðu gerð í þinginu og breytingarnar hafa ekki bætt frumvarpið svo neinu nemi gagnvart þeim aðalatriðum og gagnvart þeirri mælistiku sem við hljótum að bera það við. Við höfum hins vegar lagt til aðrar leiðir til að bregðast við vanda sem nú er upp kominn í fjölmiðlun. Við teljum í fyrsta lagi að það eigi að tryggja gagnsæi í eignarhaldi fjölmiðlanna, rekstri þeirra og skipulagi, og við teljum í öðru lagi að almannavaldið eigi að stuðla sem kostur er að ritstjórnarlegu sjálfstæði á fjölmiðlunum. Ég ætla hér að vitna í þingmál sem við höfum flutt um þetta, og einnig í kafla um þetta í skýrslunni frægu sem ráðherrarnir þykjast hafa sem grundvöll að frumvarpinu.

Í greinargerð með þingsályktunartillögu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og fleiri samfylkingarmanna um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlum segir meðal annars þetta, með leyfi forseta:

[20:30]

,,Frelsi einstaklinga og fyrirtækja til að reka og eiga fjölmiðla er augljóslega meira hér á landi en víðast hvar annars staðar. Þar sem lagaumhverfi er á hinn bóginn mjög breytilegt frá einu landi til annars er erfitt að finna rök fyrir frekari lagaskipan hér á landi með því að benda til útlanda. Rökin fyrir frekari takmörkunum í lögum um íslenska fjölmiðla verða því að spretta af íslenskum aðstæðum. Slík rök gætu meðal annars verið að þróun síðustu ára hafi leitt til óeðlilegrar fábreytni í umfjöllun fjölmiðlanna, að hlutdrægni einkenni fréttaflutning og umfjöllun um samfélagsmál í íslenskum fjölmiðlum, að í umræðu um stjórnmál og skyld efni sé stjórnmálaviðhorfum eða lífsskoðunum mismunað, að vaxandi tilhneigingar gæti í fjölmiðlunum til félagslegrar og menningarlegrar mismununar. Væri um slíkt að ræða hefði fjölmiðla og stjórnvöld sannarlega borið af leið og eðlilegt væri að almannavaldið gripi til ráðstafana til að rétta kúrsinn, jafnvel þótt frjálslyndishefð okkar í þessum efnum yrði undan að láta.

Á íslenskum fjölmiðlamarkaði eru þrjú fyrirtæki nú sterkust: Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, Ríkisútvarpið með sjónvarpsstöð og tvær útvarpsrásir, og Norðurljós með tvö dagblöð, sjónvarpsstöð og nokkrar útvarpsrásir. Þar að auki má nefna þriðju sjónvarpsstöðina, Skjá 1, í örum vexti og tvö þokkalega öflug útgáfufyrirtæki tímarita. Hins vegar er staða Ríkisútvarpsins sterk, sterkari en þjóðarútvarpsins víðast í grannlöndunum. Ekki verður séð að þessi staða eignarhalds feli beinlínis í sér verulega hættu á einokun eða skaðlegri fákeppni. Dæmi Skjás 1 og Fréttablaðsins á síðustu árum bera því vitni að nýliðun á sér stað í greininni án verulegra erfiðleika. Þróun á fjölmiðlavettvangi síðustu ár hefur hins vegar kallað á skýrari reglur um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði í íslenskri fjölmiðlun. Staða almennings til að meta áhrif eignarhalds og rekstrarhagsmuna á fjölmiðlunina er síðri en áður og einnig er flóknara en að gera sér grein fyrir ritstjórnarsjálfstæði á fjölmiðlunum. Smæð samfélagsins og tiltölulega einfalt rekstrarform fjölmiðla hefur gert það að verkum að frá upphafi fjölmiðlunar á öndverðri 19. öld hefur íslenskur almenningur átt auðvelt með að gera sér grein fyrir áhrifum eigenda á efni í fjölmiðlunum og getað metið það með nokkurri vissu hvernig sjálfstæði ritstjórnar væri háttað á hverjum stað. Hér má m.a. nefna stöðu helstu fjölmiðlanna lengst af á 20. öld: Fjögur til fimm flokkspólitísk dagblöð og eitt ó- eða þverpólitískt Ríkisútvarp. Í þessari veröld má segja að það hafi verið einn af fáum kostum að neytendur höfðu nokkuð fullkomna yfirsýn um áhrif og tengsl milli fjölmiðla, flokka og fyrirtækja. Nú eru hins vegar aðrir tímar`` --- segir í greinargerð með tillögu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og annarra samfylkingarmanna --- ,,með flókinni rekstraruppbyggingu þar sem óljóst getur verið hvaða áhrif eigendur hafa og stundum hverjir þeir eru, þar sem auglýsendur geta haft veruleg áhrif, og getur verið snúið fyrir neytandann að meta ritstjórnarlegt sjálfstæði.

Því kemur löggjöf um þessi efni nú til álita.``

Um ritstjórnarlegt sjálfstæði segir meðal annars þetta í greinargerðinni:

,,Sjálfstæði á ritstjórnum er ekki hægt að fyrirskipa með lögum. Þar skipta mestu máli lýðræðishefð í samfélaginu annars vegar og hins vegar fagleg vinnubrögð og metnaður í blaðamannastétt. Þó geta skýrar reglur um gagnsæi í eignarhaldi og rekstri ásamt skýrum reglum um vernd heimildamanna stuðlað að ritstjórnarlegu sjálfstæði. Mikilvægt er einnig að á þjóðarútvarpinu sé gengið á undan með góðu fordæmi í þessum efnum.

Ráðstöfun sem stuðlað getur að ritstjórnarlegu sjálfstæði er að eigandi og starfsmenn geri með sér samning þar sem kveðið er á um ritstjórnarsjálfstæði og samskiptareglur milli eiganda, rekstrarstjórnar og starfsmanna í fréttamennsku og dagskrárgerð. Slík samningsgerð tíðkast í nokkrum mæli til að mynda í Austurríki, Belgíu, Noregi og Þýskalandi ... Eitt af verkefnum nefndarinnar sem þingsályktunartillaga þessi gerir ráð fyrir ætti að vera að kynna sér gagn af slíkum samningum og íhuga hvort gera ætti samning um ritstjórnarlegt sjálfstæði að skilyrði við veitingu útvarpsleyfis þar sem við á.``

Við höfum auk þessarar þingsályktunartillögu lagt fram tillögur um vernd heimildarmanna, sem styrkir fagmenn í blaðamennsku og stuðlar að sjálfstæði ritstjórna. Greinargerð þessi er samin nokkru áður en fjölmiðlanefnd Tómasar Inga Olrichs, fyrrverandi menntamálaráðherra, skilaði af sér skýrslu sinni. Þar er einnig fjallað um gagnsæi, út frá tilmælum Evrópuráðsins sem við vitnum einnig til, og þar segir um aðferðir til að stuðla að ritstjórnarlegu sjálfstæði, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að sett verði í lög um prentrétt ákvæði sem skyldi fyrirtæki í dagblaðaútgáfu til að setja sér innri reglur sem miði að því að tryggja sjálfstæði blaðamanna og ritstjóra gagnvart eigendum og enn fremur reglur um stöðu blaðamanna gagnvart ritstjórn. Sambærileg ákvæði verði enn fremur sett í útvarpslög sem tryggi sjálfstæði frétta- og dagskrárgerðarmanna gagnvart eigendum fyrirtækja í útvarpsrekstri. Enn fremur verði gert ráð fyrir að menntamálaráðherra semji leiðbeiningarreglur sem að þessu lúta og að hann staðfesti reglur sem fjölmiðlafyrirtæki vilja setja sér.

Þótt vissir örðugleikar hljóti jafnan að vera á því að framfylgja slíkum reglum er mögulegt að þær gætu verið blaðamönnum og ritstjórum nokkur vernd gagnvart afskiptum og aðgerðum eigenda vegna umfjöllunar þeirra fyrrnefndu um almenn málefni sem eigendur telja andstæða viðskiptalegum hagsmunum sínum. Jafnframt er vakin athygli á að þetta er ein af þeim leiðum sem Evrópuráðið mælir með að séu skoðaðar til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.``

Skýrsluhöfundar fjölmiðlanefndarinnar taka ekki bara undir með tillögum okkar og hugleiðingum um ritstjórnarlegt sjálfstæði heldur ganga þeir lengra og marka ákveðna leið. Það er rétt að bæta því við að við höfum ekki tekið afstöðu til einstakra aðferða á borð við þau lög sem fjölmiðlanefndin talar um. Ég efast sjálfur alveg sérstaklega um þann hlut sem menntamálaráðherra er ætlaður í tillögum nefndarinnar en er ánægður með að nefndin skuli taka undir með okkur um þörfina á slíkum reglum.

Ég talaði í fyrsta lagi um gagnsæi í eignarhaldi, rekstri og skipulagi. Í öðru lagi um að stuðla með reglum að sem mestu sjálfstæði ritstjórna. Í þriðja lagi leggjum við áherslu á hlutverk Ríkisútvarpsins. Löggjöf og reglur um fjölmiðla í ríkjum heims, þeim sem hægt er að kenna við lýðræði og þokkalega virðingu við mannréttindi, miðast við aðstæður í hverju landi. Hinum sérstöku aðstæðum á fjölmiðlavettvangi á Íslandi má lýsa með tveimur setningum.

Annars vegar einkennir það íslenska fjölmiðla hvað markaður þeirra er lítill. Þeir eru gefnir út eða haldið í rekstri fyrir 290 þúsund manns á Íslandi, 0,29 milljónir eins og félagi minn, hv. þm. Helgi Hjörvar, sagði um daginn. Það þýðir að fjölmiðill sem víðast erlendis teldist smáfyrirtæki samkvæmt viðurkenndri flokkun er hér í hópi öflugustu stórfyrirtækja. Að þessu verðum við að gæta með því meðal annars að drepa ekki af okkur fjölmiðlafyrirtæki með reglusetningu og lagaskyldum.

Hins vegar einkennir það íslenskan fjölmiðlamarkað hvað staða þjóðarútvarpsins er sterk. Hin sterka staða þjóðarútvarpsins er hin hliðin á þessum séríslenska fjölmiðlapeningi. Sú staða á einmitt að geta forðað okkur frá þeim hættum sem felast í örmarkaðnum. Gott, sjálfstætt, burðugt, fræðandi, skemmtilegt, hlutlægt en gagnrýnið þjóðarútvarp á að vera öryggisventillinn í hræringum sem alltaf verða meðal markaðsmiðlanna. Þess vegna leggjum við samfylkingarmenn og reyndar allir stjórnarandstöðuflokkarnir áherslu á að styrkja Ríkisútvarpið einmitt núna, og aðstoða það við að verða alvöru-þjóðarútvarp sem getur haft forustu á ljósvakavettvangi án þess að spilla rekstrargrunni og viðgangi markaðsmiðlanna.

Þetta þýðir talsverðar breytingar á RÚV, meðal annars þær að losa um tök Sjálfstfl. á útvarpsmálum. Núna er útvarpsstjóri sjálfstæðismaður, fyrrverandi borgarfulltrúi og borgarstjóri. Formaður útvarpsráðs er líka sjálfstæðismaður, náinn samstarfsmaður formanns Sjálfstfl. í áratugi. Og formaður útvarpsréttarnefndar, hinnar valdamiklu eftirlitsnefndar með öllum útvarpsrekstri í landinu, er líka sjálfstæðismaður, framkvæmdastjóri Sjálfstfl. á uppgangs- og valdatíma núverandi formanns. Að auki er hann umsvifamikill viðskiptajöfur sem meðal annars hefur setið í bankaráði Landsbankans fyrir og eftir einkavæðinguna. Þess verður að geta að þótt stjórnarflokkarnir hafi ekki sýnt þessari leið áhuga er sérstaklega um hana rætt í fjölmiðlaskýrslunni og meðal annars talið eðlilegt að hún ein sé farin. Í skýrslunni segir meðal annars um að styrkja RÚV, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur fyrst til að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins, með það að markmiði að tryggja því trausta stöðu til frambúðar á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Ástæðan fyrir því að þetta er nefnt fyrst er að sú leið felur ekki í sér neina beina íhlutun í málefni einkamarkaðar fyrir fjölmiðla, þótt sterkt ríkisútvarp þrengi auðvitað svigrúm einkaaðila til vaxtar á sama markaði. Trygg staða og umtalsverð hlutdeild Ríkisútvarpsins á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp er þannig til þess fallin að nokkru leyti að hafa samsvarandi áhrif og beinar takmarkanir á eignarhaldi þar sem vaxtarmöguleikum einkafyrirtækja í útvarpsrekstri eru settar skorður og dregið úr líkum á því að einn aðili nái slíkri stærð á markaði að ógnað verði markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun.``

Nefndarmenn telja fram rök í fernu lagi fyrir þessu og það er fróðlegt að sjá hvað þeir segja, með leyfi forseta:

,,Ýmis rök má færa fram því til stuðnings.

a. Í fyrsta lagi má vísa til framangreindra tilmæla Evrópuráðsins R (99) 1 þar sem mælt er með því að þessi leið sé farin.

b. Í öðru lagi er bent á þetta sem æskilega leið til að tryggja þá hagsmuni sem felast í pólitískri og menningarlegri fjölbreytni í lýðfrjálsu þjóðfélagi og þar með til að mæta skyldum ríkisins í þessum efnum. Er bent á að því er gjarnan haldið fram að einkareknir fjölmiðlar hafi tilhneigingu til að vera mun einsleitari í dagskrá en almenningsútvarp til að mæta kröfum þorra neytenda um skemmtun og létta afþreyingu. Slíkt efni verði þá jafnvel uppistaðan í dagskrá miðils, gjarnan á kostnað upplýstrar og málefnalegrar umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni, einkum þeirra miðla sem byggja rekstur sinn á auglýsingum og kostun.

c. Í þriðja lagi má benda á að yrði þessi leið ein fyrir valinu fæli hún ekki í sér neina beina reglusetningu sem beindist gegn einkareknum fjölmiðlum. Hún samræmist þar með að því leyti vel meginreglum um frelsi markaðarins, að öðru leyti en því að almenningsútvarpi yrði tryggður hluti markaðarins en einkaaðilar skipti honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni.

d. Í fjórða lagi sýnist vera hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd að mestu án breytinga á gildandi lögum.``

Í c-liðnum kemur það fram sem áður var nefnt, að nefndin telur að fara megi þessa leið eina til að ná fram markmiðunum um fjölbreytni í fjölmiðlum eða a.m.k. hefja það starf með því að efla Ríkisútvarpið.

Ég vil taka fram að ég er ekki að öllu leyti sammála lýsingu skýrsluhöfunda á aðferðum við að styrkja Ríkisútvarpið. Ég tel ekki að Ríkisútvarpinu eigi að beita gegn markaðsmiðlunum, og vil meðal annars draga úr samkeppni RÚV við þá um auglýsingar, en þessi ágreiningur eða áherslumunur skiptir ekki máli hér. Samfylkingarmenn og fjölmiðlanefndin eru sammála um að það hljóti að vera einn helsti kosturinn í þeirri stöðu sem nú er uppi í þeirri viðleitni að sporna við samþjöppun eða koma í veg fyrir þær hættur sem stafað geta af samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, þ.e. að styrkja og efla Ríkisútvarpið með ýmsum hætti.

[20:45]

Ég hef nú rakið þær þrjár leiðir sem við samfylkingarmenn teljum að nú eigi að fara til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Takmarkanir á eignarhaldi með lögum eru ekki meðal þeirra, nema þær sem gilda um öll fyrirtæki samkvæmt samkeppnislögum. Slíkar takmarkanir eru vissulega ekki útilokaðar, en við teljum að þær séu neyðarúrræði sem mjög gild rök þurfi til að beita og við teljum að þau rök hafi ekki komið fram í þessari umræðu, ekki hinni fyrstu, ekki annarri, ekki hinni þriðju á þingi, ekki í forumræðunni um skýrslu fjölmiðlanefndar og ekki í yfirlýsingum, viðtölum og greinum þeirra örfáu sem hafa lagt þessu frv. lið í fjölmiðlunum og á almannavettvangi utan þings.

Þriðja spurning Kristmundar Þórs Ólafssonar til mín í tölvubréfinu var þessi, með leyfi forseta:

,,Er ekki nauðsynlegt að frumvarpið sé róttækt til þess að hindra að sterkar fyrirtækjasamstæður verði ekki svo sterkar að ríkisstjórnin ræður ekki við þær?``

Svarið er þetta: Ég held að rétt sé að taka fyrst fram að það er ekki heppileg staða að eignarhaldi fyrirtækis eins og Norðurljósa sé varið eins og nú er, að eitt fyrirtæki eigi þar ráðandi hlut og eigendurnir skuli þess vegna hafa þar öll þau völd sem þeir vilja í krafti eignar sinnar. Rétt er að benda á að þessi staða er nýleg og þetta fyrirtæki, Norðurljós, á sér eins og önnur íslensk fjölmiðlafyrirtæki og fyrirtæki svo sem hvar sem er á Íslandi og annars staðar sína sérstöku sögu sem okkur ber að taka tillit til og líta á. Við skulum minnast þess að Norðurljós, Stöð 2, Fréttablaðið og Dagblaðið voru ekki fyrir löngu í veikri fjárhagsstöðu og það er óvíst hvernig hefði farið ef nákvæmlega þessir peningamenn hefðu ekki komið og eignast mikilvægan hlut í móðurfyrirtæki því sem nú ræður þessum stöðvum og blöðum. Þau voru í kreppu og það vantaði menn með peninga og einhverja sýn á það hvað ætti að gera. Þessir komu og veittu þá peninga og veittu þá sýn. Vera má að einhverjir aðrir hafi þar komið til greina, einhverjir aðrir hafi komið inn ef ekki hefði verið um þessa að ræða með einhverja aðra sýn, með einhverja aðra peninga. Það gerðist ekki, það voru þessir menn.

Hvað var sérstakt við þá stöðu? Það var ekki sérstakt við þá stöðu að eignarhald á Norðurljósum sjálfum væri samþjappað. Það hafði áður verið það, hafði áður verið samþjappaðra en nú var um að ræða. Það sem var sérstakt við þessa stöðu var að Norðurljós urðu móðurfyrirtæki tveggja annarra, annars vegar þess fyrirtækis sem rekur Stöð 2 og ýmsar útvarpsstöðvar, aðallega Bylgjuna, Sýn o.s.frv. eins og við þekkjum, og hins vegar fyrirtækisins Fréttar sem gefur út Fréttablaðið og DV sem það fyrirtæki tók við þegar fyrri eigendur þess og ritstjórar höfðu siglt því í strand með ýmsum hætti. Það var orðað svo í þessum stól um daginn að það hefði verið að drepast úr leiðindum.

Ég hef kosið að taka mark á þeim yfirlýsingum fyrirtækisins að viðskiptahugmyndin sé í raun og veru sú að setja það á markað og að það eigi að gerast innan skamms. Ég held að það sé afar jákvætt að slík tilraun sé gerð og tel það að mörgu leyti heppilegt að fyrirtæki af þessu tagi sé á markaði, að hlutabréfin gangi óhindrað kaupum og sölum og að fyrirtæki af þessu tagi sem fæst við fjölmiðlun á markaðsforsendum þurfi að gangast undir strangar reglur um upplýsingaskyldu. Ég held að staða svona fyrirtækis í Kauphöllinni ætti að draga úr þeirri hættu sem hverjum fjölmiðli getur stafað af eigendum sínum.

Ég held að það sé líka rétt að ímynda sér hvað hefði gerst ef við værum með virkar eftirlitsstofnanir. Ef útvarpsréttarnefnd hefði ekki farið fram undir fána hins fullkomna stjórnleysis sem reistur var til að láta frjálsa fjölmiðlun blómgast og fyrir því stóðu ákaflega misvitrir menn í upphafi, ef hér hefði verið eftirlisstofnun sem m.a. hefði þótt það athugavert að eignarhald væri með þessum hætti á Norðurljósum. Hvað hefði hún gert? Ég tel að hún hefði einmitt kallað fyrir sig eigendur Norðurljósa, bent á þá stöðu sem upp væri komin sem hefði ákveðnar hættur í för með sér gagnvart fjölbreytni í fjölmiðlun og spurt hvað væri til ráða, hvort þetta ætti að standa áfram eða ekki. Ég tel að sú eftirlitsstofnun hefði tekið mark á þeim skýringum að hér væri verið að endurskipuleggja fyrirtækið og það ætti að lokum að setja það á markað og sú eftirlitsstofnun hefði gengið eftir því að það yrði gert innan tiltekins tímaramma. Ég held að ef gætt hefði verið að því í upphafi að marka réttan kúrs fyrir útvarpsréttarnefnd, fyrst og fremst það, en hugsanlega að því viðbættu að útvarpsréttarnefnd hefði fengið ákveðnar valdheimildir, meiri en hún nú hefur, hefði þessi staða aldrei komið upp, sú efnislega staða sem varð grunnur að atlögunni sem hæstv. forsrh. ákvað að fara í gegn Norðurljósum með þessu frv.

Það er líka fróðlegt að íhuga hvers vegna Baugur ákvað að fjárfesta í Norðurljósum, í Stöð 2, í DV og Fréttablaðinu. Auðvitað er ekki útilokað að auðmönnum þyki þægilegt og hagfellt að eiga fjölmiðla. Auðvitað getur vel verið að auðmenn fjárfesti í fjölmiðlum til að hafa áhrif í samfélaginu í pólitísku skyni eða tryggja jákvæða umfjöllun um fyrirtæki sín. Það má vel vera. Það er hins vegar tvennt í samfélagi okkar sem stuðlar gegn því. Í fyrsta lagi er það blaðamennskan sem fag. Það er hin alþjóðlega vitund blaðamanna um hlutverk sitt í heiminum, um skyldur sínar sem hluta af fjórða valdinu og það er menntun þeirra og samstaða sem beinist gegn nákvæmlega þessu.

Í öðru lagi er það svo að neytendur vilja það ekki. Neytendur eru ólíklegir til að taka slíkum blöðum tveimur höndum, a.m.k. að útvega þeim blöðum sterka raunverulega stöðu. Þroskaðir neytendur í lýðræðissamfélagi sem virkar ættu í raun sjálfir að vera hindrun í vegi þess að auðmönnum tækist að koma sér upp fjölmiðlum með þessum hætti.

Ég vek athygli á því að þær leiðir sem við höfum bent á, þær aðgerðir sem við höfum lagt til styrkja einmitt þetta tvennt, fagmennsku í blaðamennsku og vitund neytenda.

Í þriðja lagi er það svo í landi okkar, eins og áður hefur verið bent á, að hér er þjóðarútvarpið ákaflega sterkt og getur verið öryggisventill og mótvægi við tilraunum sem einstakir auðmenn eða hópar þeirra kynnu að láta sér detta í hug af þessu tagi. Það er heldur ekki útilokað að fyrirtæki sem þarf að auglýsa mikið, fyrirtæki sem á matvöruverslanir og þarf að auglýsa vöru sína mjög í blöðum telji að það geti auglýst ódýrt og ódýrara en keppinautarnir, nái sérstöku forskoti í fjölmiðli eða fjölmiðlum sem þeir eiga meiri hlutann í sjálfir eða ráðandi hlut. Það má vel vera. Ég er ekki að bera þetta á eigendur Norðurljósa en ég útiloka þetta ekki, a.m.k. samræðunnar vegna. Hins vegar er erfitt að hugsa sér að slíkt fyrirkomulag gangi til lengdar í samfélagi okkar. Það er ósennilegt að keppinautar Baugsfyrirtækjanna á matvörumarkaði, því þau eru auðvitað til og verða að vera til því samkeppnislög koma í veg fyrir að Baugsfyrirtækin nái þar einokunarstöðu, mundu láta Baugsverslanirnar komast upp með slíkt og Samkeppnisstofnun er beinlínis uppálagt að koma í veg fyrir slíka viðskiptahætti. Slíkar reglur þarf að sjálfsögðu að skerpa og auka þarf heimildir Samkeppnisstofnunar en aðallega gefa henni fjárhagslegt svigrúm til að sinna störfum sínum. Fram hefur komið í umfjöllun um þetta mál í vitnisburði manna fyrir nefndum þingsins og í frásögnum þeirra í samfélaginu að mjög skortir á að Samkeppnisstofnun geti sinnt þessu sviði. Það ríkir lítið traust til Samkeppnisstofnunar meðal fjölmiðlanna í landinu.

Ég ætla að minnast hér á annað og það er að völd í fjölmiðlum hafa menn, þeir sem ekki starfa þar, ekki einungis með eignarhaldi. Auglýsingar geta líka skapað mönnum völd í fjölmiðlum og menn kannast við það að mikilvirkur auglýsandi getur haft veruleg ítök eða reynir oft að hafa veruleg ítök ef hann vill svo við hafa og ef fjölmiðillinn sem um er að ræða er veikur fjölmiðill, blankur fjölmiðill, getur slík tilraun tekist og hefur gert það oft og tíðum. Slík ítök, slík völd eru í raun og veru engu skárri en ítök og völd sem stafa af eignarhaldi og kannski heldur verri vegna þess að þau eru oft ekki eins augljós, neytandinn, lesandinn, almenningur, þátttakendurnir í lýðræðinu, vita ekki af því hvenær auglýsendur hóta og hvenær þeir standa við hótun sína.

Ég held, þótt ég útiloki ekkert og telji mig engan dómara um sálarfylgsni þeirra manna sem eiga fjölmiðla, að það sé kannski einkum tvennt sem kaupendum fjölmiðla gengur til, fyrir utan verkánægju og sköpunargleði sem ég geri ráð fyrir að slíkir fjárfestar hafi af störfum sínum og af því að eignast fjölmiðil og vera með í að reka hann. Annars vegar hreinlega það að þeir hafa lagt út í fjárfestingu sem að lokum á að skila sér peningalega á sama hátt og Baugur keypti verulegan hlut í Flugleiðum fyrir nokkrum mánuðum á lággengi og selur nú þann hlut á hágengi. Þetta er eðli kaupmennsku frá dögum Kaupa-Héðins í Dölum vestur og Sindbaðs sæfara í höfum suður, kaupa lágt, selja hátt og hafa hagnað. Svona er lögmálið. Hins vegar held ég að það geti verið tilgangur og markmið fjárfesta sem eru sterkir, t.d. á matvörumarkaði, að styrkja fjölmiðla einmitt til þess að tryggja samkeppni á auglýsingamarkaði. Það getur bæði átt við um Stöð 2 gegn Ríkisútvarpinu í hinni miklu samkeppni sem þar er á milli og í sjónvarpsauglýsingunum, samanber umkvartanir Magnúsar Ragnarssonar sem sérstaklega hefur reyndað kvartað undan Ríkisútvarpinu og virðast kvartanir hans, sem er framkvæmdastjóri á Skjá 1, einna helst beinast að Samkeppnisstofnun, og auðvitað ekki síður á dagblaðamarkaði þar sem útlitið var svo fyrir nokkrum árum að eitt dagblað, Morgunblaðið, mundi hafa innan tíðar öll völd og hefði þá --- ég ætla ekki að gera eigendum þess eða stjórnendum upp neina ætlun --- en Morgunblaðið hefði ef það væri eina blaðið á dagblaðamarkaði ráð auglýsenda í höndum sér og gæti sett verðskrá og haft samskipti sín við þá sem þurfa að auglýsa í dagblöðum eins og því sýndist. Þetta eru ekki endilega göfugar ástæður en heldur ekki grunsamlegar, hvað þá glæpsamlegar ástæður. Ég held að fyrirtækjasamstæðan sem Kristmundur spurði um, sú sem hér er um að ræða, sé í þessu tilviki ekkert að sækjast eftir því að ráða við ríkisstjórnina. Hún er hins vegar alveg örugglega að reyna að forðast það að ríkisstjórnin ráði við sig, segi sér að sitja og standa, því í nútímanum vilja fyrirtæki ekki slík samskipti og þurfa ekki að sætta sig við þau.

[21:00]

Ísland bjó áður við sterkar fyrirtækjasamstæður. Það þarf ekki að fara aftur í Hansatímann, til Hörmangaranna eða annarra danskra kaupmanna með mjöl og ýmsa vöru. Það nægir að fara aftur á síðustu áratugi þegar annars vegar var fyrirtækjahópur með ýmsum innri tengingum, yfirleitt afar ógagnsæjum, í eigu auðjöfra sem sameinuðust pólitískt í Sjálfstfl. --- stundum kallaður Kolkrabbinn --- og hins vegar SÍS-veldið, með gervallan Framsfl. á sínum vegum. Þessi staða, þetta tvíveldi, mótaði stjórnmál og samfélag hér nærfellt alla 20. öld.

Nú eru aðrir tímar, ekki síst vegna þess að einangrun landsins hefur verið rofin og Sambandið hrundi á svipuðum tíma og Sovétríkin kollsigldu sig. Þótti merkileg samferð þessara tveggja fyrirbæra gegnum 20. öldina. Í íslensku viðskiptalífi er talað um sjö sterka fyrirtækjahópa eða fjárfestingarbandalög, stundum 12 eða 14. Áður voru hóparnir tveir. Hér er önnur staða og um margt miklu betri en var áður.

Hvert er þá hlutverk ríkisstjórnarinnar? Er það að ráða við fyrirtækjasamsteypurnar? Já, með vissum hætti. Hlutverk almannavaldsins, stjórnmálamanna og ríkisstjórnarinnar er að búa til leikreglur fyrir viðskiptalífið og þessa hópa, að tryggja að slík bandalög bolist ekki hvert við annað, að ekkert þeirra einoki markað neytendum til tjóns, að markaðsráðandi staða, sem hér verður algengt hlutskipti fyrirtækjanna vegna smæðar innanlandsmarkaðarins, sé ekki misnotuð o.s.frv. Hlutverk ríkisstjórnar og Alþingis er ekki síður að samfélaginu öllu gagnist starf fyrirtækjanna og sókn þeirra í hagnað með heilbrigðu og fjölbreyttu úrvali af vöru og þjónustu, með öruggum vinnustöðum, með skattgreiðslum í almannasjóði, og með því að ýta undir framlög úr viðskiptalífinu, frá fyrirtækjunum eða peningamönnunum sjálfum, til líknarmála og til menningarlífs, til dæmis til lista, íþrótta og náttúruverndar.

Nú eru nýir tímar, óvænt staða. Ýmsir sem til máls taka í samfélaginu, einkum eldri menn sem tóku út þroska sinn á 20. öld miðri eða síðari hluta, segja að eitthvað róttækt þurfi að gera. Þetta segir til dæmis Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hefur lýst þeirri skoðun sinni í blaðinu að fyrirtækin séu að verða of stór fyrir Ísland. Það er athyglisverð skoðun.

Já, sennilega er það rétt, ef við lítum aðeins til Íslands eins og sér eins og í gamla daga. Það er vont að nokkur fyrirtæki, örfáir menn, ráði of miklu á Ísalandi. Þetta er reyndar gömul saga, samanber Kolkrabbann og SÍS sem með nokkrum hætti tóku þátt í að mynda ríkisstjórnir og fella. Einnig má líta til Kveldúlfs á fyrri hluta aldarinnar sem með ýmsum hætti var of stórt fyrirtæki fyrir Ísland, því miður liggur manni við að segja. Það fyrirtæki kemur einmitt upp í hugann þegar nýi mjólkursamningurinn er lagður fram í þingskjali. Þar eru sérstök ákvæði til að sporna við stórrekstri í mjólkurframleiðslu, með fjölskyldubúum SÍS-veldisins gegn Korpúlfsstaðalandbúnaði Thors Jensens. Sem dæmi um önnur fyrirtæki sem kannski hafa verið of stór fyrir Ísland má nefna Íslenska aðalverktaka, fyrirtækjasamsteypu Sjálfstfl. og Framsfl., sem sat að öllum framkvæmdum Bandaríkjahers áratugum saman, mokaði inn fé til fyrirtækjanna, til eigenda þeirra og einnig í flokkssjóði Sjálfstfl. og Framsfl. Þetta var kallað hermang.

Stundum of stór fyrir verkalýðshreyfinguna sem þurfti að berjast fyrir kjörum alþýðu gegn fyrirtækjunum annars vegar og hins vegar ríkisvaldi sem var rekið á þeirra vegum, einkum gegn samstjórnum Sjálfstfl. og Framsfl. sem einmitt voru kallaðar helmingaskiptastjórnir. Það voru þær ekki kallaðar vegna þess að þær hafi skipt milli sín herfanginu, kjötkötlum ríkisvaldsins, milli flokksgæðinga, heldur hins, að hinum raunverulega afrakstri vinnunnar í landinu var skipt milli fyrirtækjahópa á vegum hvors flokks fyrir sig.

Já, það var veikleiki í samfélagi okkar á 20. öld hvað fyrirtækin voru stór. --- En hvað nú? Hvað er til ráða? Hvað vill Styrmir? Hvað vilja þeir sem stendur ógn af þessum nýju tímum og vita ekki hvað til bragðs skal taka? Hvað skal gera gagnvart þeim afleiðingum alþjóðavæðingar og einangrunarrofs sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi? Eigum við að minnka fyrirtækin aftur og torvelda þeim starfsemina til að þau passi fyrir litla pólitíkusa og ritstjóra á íslenskum dagblöðum? Eigum við að taka aftur nýfengið frelsi á markaðnum til þess að bisnessmenn þurfi aftur að ganga í Sjálfstæðisflokkinn og frímúrararegluna, ganga þar í gegnum fimm stig og sækja svo um leyfi á Mogganum áður en þeir teljast hæfir til að standa í viðskiptum á Íslandi? Mitt svar við þessu er nei.

Við eigum að bregðast við vexti fyrirtækjanna með því að fagna tækifærunum sem þau skapa Íslendingum og íslensku samfélagi. Við eigum hasla þeim völl, öllum jafnt, og ganga til liðs við nágranna okkar um þann ramma laga og siðareglna sem nær utan um markaðinn. Þetta erum við að gera með þátttökunni í evrópsku samstarfi og væntanlegri aðild okkar að Evrópusambandinu og með vinnu í alþjóðasamstarfi eins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO.

Okkur ber einnig öllum, einkum þó almannavaldinu og stjórnmálamönnunum, að skapa ákveðna samskiptahefð sem fyrirtækjum á Íslandi ber að virða. Þær reglur verða að gilda bæði gagnvart launafólki og verkalýðssamtökum þess, gagnvart skilum í sameiginlega sjóði, skyldubundnum skilum og valfrjálsum, gagnvart pólitískum afskiptum þeirra og stöðu þeirra í samfélagsumræðunni, gagnvart nærgætni og tillitsemi í öllu markaðsstarfi, meðal annars þegar um er að ræða börn og unglinga og sérstöðu íslensks samfélags. Ágætt dæmi í þessu sambandi eru áfengisauglýsingar sem dómsmrh. og öll ríkisstjórnin trassar að bregðast við. Hún neitar að skapa þann ramma sem landslög kveða á um, ramma sem fyrirtæki gætu treyst á þannig að ekki vinni eingöngu sá frekasti og djarfasti.

Á fjölmiðlavettvangi á hluti af þessum ramma og þessari samskiptahefð að felast í ákveðnum og ströngum reglum um gagnsæi, sjálfstæði ritstjórnar, ábyrgð gagnvart persónuhelgi og samfélagshefðum. Í þessari umræðu á þinginu og í samfélaginu er það einmitt þetta sem við ættum að ræða en ekki þessar klunnalegu og þunglamalegu takmarkanir sem sprottnar eru af persónulegri heift forsrh. í garð eins fyrirtækis. Þar ræður hugarsmíð hans um ,,hinn íslenska öxul hins illa`` þar sem forseta Íslands hefur verið vísað til sætis ásamt fjölmiðlum Norðurljósa, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Jóni bæjó úr Keflavík, KB-banka, stjórnarandstöðunni á þingi og meiri hlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur.

Fjórða spurningin sem Kristmundur spurði mig í tölvubréfinu var þessi:

,,Teljið þið að forseti eigi heima í umræðu um þetta efni, ef svo hvað gefur þessu frumvarpi sérstöðu yfir mörg önnur?``

Nei, er svarið. Við teljum í sjálfu sér ekki að forseti eigi heima í þessari umræðu. Forsetinn er ekki vanur að hafa bein afskipti af pólitískum deilumálum í samfélaginu. Forseti Íslands fer hins vegar með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og staðfestir lög frá þinginu með undirritun sinni. Hann hefur ótvíræðan rétt til að synja lögum staðfestingar og skulu þau þá borin undir kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil ekki og ætla ekki, sem þingmaður, að ræða neitt um það hvað forseti á að gera þegar kemur að undirritun laga, hver sem lögin eru, enda hefur forseti Íslands sem nú er alla burði til að taka sjálfur þá ákvörðun hverju sinni. Ég tel að við eigum að gæta að formlegum skilum milli valdhafa í landinu. Ég tel að Alþingi verði að fara sínu fram og forseti að fara sínu fram þegar um löggjafarvaldið er að ræða. Þar eiga menn aðeins að styðjast við eigin sannfæringu.

Hins vegar get ég svarað til um sérstöðu frumvarpsins. Ég tel frumvarpið afar sérstætt. Það er sérstætt af því að það fjallar um mikilvægan hluta af lýðræðissamfélagi nútímans, fjölmiðla og þann lagaramma sem þeim er settur. Það fjallar með nokkrum hætti um grundvöll þeirrar samfélagsskipunar sem við höfum valið okkur, um samskipti ríkisvaldsins við það fyrirbæri sem Evrópuráðið hefur kallað ,,varðhund almennings``. Frumvarpið skerðir rétt manna til að eiga og reka fjölmiðla, sem eiga að vera fjórða valdið og veita aðhald öðru valdi í samfélaginu, þar á meðal stjórnmálavaldinu og peningavaldinu.

Frumvarpið er sérstætt vegna þess að það er sérsmíðað gegn einu fyrirtæki og beinist að eigendum þess án þess að draga upp nokkra trúverðuga framtíðarsýn og án þess að nokkur rök hafi komið fram um afar mikilsverð ákvæði frumvarpsins. ,,Mér bara finnst það,`` sagði formaður Framsfl. til dæmis efnislega um bannið við svokallaðri krossmiðlun, við því að fyrirtæki geti á landsvísu átt bæði útvarpsstöð og dagblað.

Frumvarpið er sérstætt vegna þess hvernig það er fram komið, í blálok þingvetrar án þess að nein umræða sem kallast getur hafi farið fram í samfélaginu sjálfu og þeim fag- og hagsmunahópum sem það einkum varðar. Í raun og veru er byrjað á öfugum enda miðað við gang mála í þroskuðum lýðræðisríkjum þar sem mál af þessu tagi eru látin taka góðan tíma. Mál af þessu tagi tók til dæmis fjögur ár í Noregi fyrir skemmstu áður en mótað var lagafrumvarp í sem allra mestri sátt innan þings og utan. Hér í okkar fyrsta stigs lýðræði, svo ég vitni aftur í hv. þm. Helga Hjörvar, er það einn maður, Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., sem heimtar lög og skellir fram frumvarpi. Allt fer í bál og brand í samfélaginu og umræða um flókið og mikilsvert alvörumál lítur allt í einu út eins og pólitískt karnival með dylgjum, hótunum, atlögum, árásum. Lagafrumvarpið um fjölmiðlun á Íslandi byggist í raun á geðþótta eins manns sem er að ná sér niður á meintum óvinum sínum, manns sem er að láta af störfum og vill gera þetta spark að sínu síðasta verki. Já, það er svo sannarlega sérstætt þetta frumvarp.

Frumvarpið er sérstætt vegna þess að þótt það fái ef til vill að lokum tilskilinn meiri hluta atkvæða á þingi er alveg augljóst að ástæðan fyrir þeirri afstöðu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna er ekki sannfæring þeirra, eins og stjórnarskráin býður, heldur hollusta við foringjana og ótti við að missa spón úr aski sínum þegar fram í sækir. Þessi sannfæringarlausi meiri hluti á þingi er í augljósu og hrópandi ósamræmi við almenningsálitið eins og allir sjá sem sjá vilja og allir heyra sem eyru hafa.

Að lokum spyr Kristmundur, og segir fyrir utan sjálft höfuðefnið en þó því tengt, þessarar spurningar, með leyfi forseta:

,,Eru stjórnmál á Íslandi ekki það svart-hvít að stjórnarandstaðan er í raun valdalaus á kjörtímabilinu og getur ekki beitt sér eða haft áhrif á stór málefni? Er hið raunverulega vald ekki í ráðuneytunum í stað þess að vera hjá Alþingi?``

Svarið við þessu gæti verið harla langt og efnismikið. Í raun höfum við í vetur, fyrsta þingvetur minn, öðru hvoru rætt þetta mál. Við höfum rætt hvernig lýðræðinu er háttað á Íslandi og hvort inntak þingræðisins sé í raun jákvætt fyrir íslenskt lýðræði og framkvæmdir og ákvarðanir í samfélaginu. Ég ætla að svara Kristmundi Þór Ólafssyni og ljúka um leið þessari ræðu með því að lesa ályktun sem var samþykkt á útifundi á Austurvelli í fyrradag, útifundi þar sem ráðherrum og okkur alþingismönnum voru sýnd rauð spjöld fyrir frammistöðuna í vetur og undanfarin ár, með leyfi forseta:

,,,,Frá þeirri ákvörðun var aldrei hvikað,`` sagði forsætisráðherra fyrir rúmu ári um sameiginlega ákvörðun sína og utanríkisráðherra í umdeildu máli. Í stjórnmálum er óhvikul staðfesta leiðtoganna frækorn ofbeldis og lýðræðinu fjandsamleg. Ef þeir kunna ekki að hlusta hnignar lýðræðinu.

Leiðtogar landsins líta á lýðræðið sem einfalt meirihlutavald. Þá víkur samviskan fyrir flokksaga, og sjálfstæð hugsun fyrir duttlungum einstaklinga. Stjórnkerfið breytist í formreglur sniðnar að fyrirætlunum valdhafa. Þegar þannig er ástatt er vilji almennings að engu hafður, mikilvægum staðreyndum er leynt, lagt er til atlögu við einstaklinga og fyrirtæki í stað þess að setja almennar leikreglur.``

Forseti. Ég veit að félagi minn, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, las sama hluta ályktunarinnar áðan en ég ætla að gera það aftur:

,,Í gömlu ættjarðarkvæði er talað um ,,þúsund radda brag``. Í virku lýðræði þurfa þúsundir radda að heyrast og leiðtogarnir verða að hlusta. Við krefjumst þess stjórnvöld vakni af dásvefni valdhrokans og fari að hlusta á raddir þegna sinna. Við krefjumst þess að raunverulegar umræður fari fram áður en ákvarðanir eru teknar. Við krefjumst gagnsæis og höfnum leynimakki. Við krefjumst þess að lýðræðið virki!``

Forseti. Ég tek undir þessa ályktun og vona að Kristmundur Þór Ólafsson geri það líka. Ég vona að brátt renni upp nýir tímar á Íslandi, að það komi sumardagur með maísól. Sá dagur má mín vegna heita 15. september. Ég held nefnilega að það frumvarp sem hér er til umræðu sé upphafið að endinum, ekki eingöngu hjá hæstv. forsrh. heldur einnig hjá ríkisstjórninni sem nú situr. Ríkisstjórn sem kann ekki að haga sér og kann ekki að skammast sín.