Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 21:56:15 (8773)

2004-05-21 21:56:15# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[21:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi nokkuð bréfaskipti mín og Bónuss. Kannast hlustendur við orðtakið ,,mexíkanskur bófaflokkur``? Það var hugtak sem einn af þeim mönnum sem ólu mig upp í pólitík, Jón Baldvin Hannibalsson, notaði gjarnan í viðtölum um Sjálfstfl. Það var svipað sem ég notaði um þá Bónusfeðga. Ég kallaði þá suður-ameríska gangstera og hef aldrei séð tiltakanlega mikið eftir því. (Gripið fram í: En aðeins?)

Hv. þm. ræddi um ógnarveldi Baugs. Hann benti líka á að hann væri að selja hitt og þetta af stórum eignum sínum. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af Baugi. Baugur er að hverfa úr landi og það er fyrst og fremst Sjálfstfl. sem er að hrekja þetta mikla fyrirtæki úr landi. Það er ein af afleiðingum þessa.

Gæti hv. þm. orðið mér sammála um það að langvitlegast hefði verið að fara í þetta með þeim hætti að setja almenn lög um öll fyrirtæki í landinu (Forseti hringir.) þannig að við værum ekki að taka upp eina grein, fjölmiðla, heldur mundum við efla samkeppnislög (Forseti hringir.) þannig að hægt væri að taka á öllum fyrirtækjagreinum í landinu?