Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:03:43 (8779)

2004-05-21 22:03:43# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:03]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi lög verða skilin þannig að vegna þess að í þessum dagblöðum hafi verið óþægileg og vond sjónarmið, sem hafi verið beint gegn hæstv. forsrh. og hann væntanlega lagður í einelti af þeim, og að af þeim sökum sé nauðsynlegt að setja lög af þessum toga.

Virðulegi forseti. Í mínum huga er þetta afar sérstakt. Þetta verður náttúrlega fyrst og fremst að túlka sem lög gegn tilteknum sjónarmiðum. Því verður það ekki túlkað öðruvísi en svo að þar sem þessi sjónarmið eru hæstv. forsrh. óþægileg sé nauðsynlegt að stöðva þessi dagblöð. Þetta er grafalvarlegt mál, virðulegi forseti.