Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:12:46 (8787)

2004-05-21 22:12:46# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:12]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Sá þingmaður sem hérna stendur hefur hvorki dottið á höfuðið eða verið sleginn í það með reglustiku.

Það er alveg ótrúlegt að horfa upp á stjórnarliða koma hér, þá fáu sem þó hafa haft til þess kjark, vegna þess hve illa þeir bera sig yfir frv. og því hvernig það er fram komið. Það var sorglegt að horfa á hv. þm., jafnstóran og mikinn og hann er, nánast með grátstafinn í kverkunum þegar hann talaði um misnotkunina á þessum dagblöðum. Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í hv. þm.

Hann stóð hér í ræðustól Alþingis og sagði:

,,Ég held að þessi lög geti komið í veg fyrir þá misnotkun sem hefur átt sér stað í þessum fjölmiðlum ...``

Hann var ekki að tala um að Norðurljós væru vont fyrirtæki eða að Baugur væri vont fyrirtæki. En þessi fyrirtæki eru að misnota fjölmiðlana daglega, eftir því sem hv. þm. segir. Hann leyfir sér að segja úr ræðustól að lögin sem verið er að setja geti komið í veg fyrir misnotkunina á þessum fjölmiðlum. Þetta er það sem málið snýst um í hnotskurn.