Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:01:01 (8790)

2004-05-21 23:01:01# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁF
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:01]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Hér er komið til 3. umr. frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Eitt af því sem ég hef hugleitt við lestur þessa frv. og þeirrar greinargerðar sem því fylgir er hversu lítill gaumur er að því gefinn að fjölmiðlun er atvinnugrein. Víða í nærliggjandi löndum, t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi og í vaxandi mæli á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku og Svíþjóð, er fjölmiðlun og tengdar greinar orðin einn helsti vaxtarsproti í greinum hugvits, sköpunar og tækni. Stærsti hluti útflutningstekna Breta í dag kemur t.d. úr atvinnugreinum sem tengdar eru eða náskyldar fjölmiðlum, tónlist, kvikmyndir og framleiðsla á sjónvarpsefni.

Ég hef alltaf haft þá trú að við Íslendingar ættum erindi á alþjóðamarkað með sköpunarkraft okkar, ef svo má að orði komast. Ég hef lengi átt mér þann draum að skilningur mundi vakna hjá stjórnvöldum á að við ættum þetta tækifæri, ekki síst í ljósi þess að á síðustu 10--12 árum hafa sprottið fram bæði tónlistarmenn, kvikmyndagerðarmenn, leikstjórar og aðrir sem hafa sannarlega staðið sig vel í þeirri meistarakeppni á alþjóðavísu sem þau hafa tekið átt í og ekki einungis skapað verðmæti fyrir sig heldur búið til athyglisverða og vaxandi starfsemi hér á landi. Í umræðunni um þetta frv. finnst mér að þetta hafi gleymst. Þetta er atvinnugrein sem á mikla vaxtarmöguleika. Fjölmargar atvinnustéttir tengjast fjölmiðlun: hljóðmenn og upptökumenn, hönnuðir auglýsinga, textagerðarmenn í auglýsingum, prentarar, kvikmyndagerðarmenn, tökumenn í kvikmyndum og sjónvarpi, smiðir sem búa til sviðsmyndir o.s.frv.

Mér telst til, bara samkvæmt þrengstu skilgreiningu orðsins ,,fjölmiðlastarfsemi``, að í kringum eitt þúsund Íslendingar starfi í þessari atvinnugrein. Ef við teygjum þetta frekar og skoðum alla jaðarstarfsemi sviðsins, svo ekki sé minnst á þá tölvutækni sem þjónar þessari grein, þá gætum við komist upp í 3.000 manns. Þessi atvinnugrein kann að veita allt að 10 þúsund manns farborða. Allt í einu stöndum við frammi fyrir frv. sem, eins og ég vék að og rökstuddi ítarlega í ræðu minni fyrir um tveimur sólarhringum, veikir þessa starfsgrein.

Ég skoðaði þetta frv. og ákvæðin þess efnis að markaðsráðandi aðilar mættu ekki vera virkir fjárfestar, þ.e. stærri en 5%, og virkir fjárfestar mættu ekki velta meira en tveimur milljörðum. Ég fletti upp í bók sem heitir 300 stærstu fyrirtæki á Íslandi. Ég fór í kaflann yfir þau 90 fyrirtæki sem skiluðu hvað mestum hagnaði á síðasta ári, þau 90 fyrirtæki sem eru líklegust til að fjárfesta vegna þess að þau eiga peninga afgangs. Ég las upp 20 fyrstu fyrirtækin. Þá kom í ljós að nærri öll þeirra eru örugglega eða líklega markaðsráðandi. Ég komst að því að af þessum 90 fyrirtækum eru um 30 sem mega eiga virkan eignarhlut, eiga frá 5% og upp í 35% í fjölmiðlafyrirtækjum. Hvað kom í ljós þegar ég skoðaði þessi 30 fyrirtæki? Þetta eru nærri undantekningarlaust sjávarútvegsfyrirtæki. Sjávarútvegur er þáttur í íslensku atvinnulífi þar sem er mikil starfsemi enda byggir hann alfarið á útflutningi. Þar er ekki barist um þær sálir sem þetta land byggja og þá erum við allt í einu komin með þessa staðreynd í huga. Líklegustu fyrirtækin til að verða virkir fjárfestar í fjölmiðlafyrirtæki, ljósvakafyrirtæki, eru þau sem reka sjávarútveginn. Þá spyr ég: Er það líklegt til þess að auka fjölbreytni? Það er þó ekki meginatriði þessa máls heldur hitt, að við erum búin að útiloka 60 af 90 líklegustu fjárfestunum.

Þá spyr ég: Hvernig getur það aukið fjölbreytni í atvinnugreininni að minnka pípur fjárstreymis inn í hana? Hafi menn fækkað væntanlegum kaupendum í ljósvakamiðlum úr 90 í 30 þá hefur eftirspurnin minnkað. Hvað þýðir minnkandi eftirspurn? Hún þýðir lægra verð, rýrnun verðmæta. Ég nefndi í ræðu minni dæmið um hús í miðborg Reykjavíkur þar sem mögulegir kaupendur eru 100 þúsund. Sé það flutt þangað sem mögulegir kaupendur eru 30 þúsund, hvað gerist? Eignin fellur í verði.

Í mínum huga er þetta frv. ekki bara árás á atvinnuréttindi manna eða réttindi manna til tjáningar. Það er líka árás á viðkvæma grein nýsköpunar í atvinnulífi okkar sem á sér bjarta framtíð.

Það hefur vakið furðu mína að þrátt fyrir ágæta skýrslu sem sögð er grunnur þessa frv. er ekki með neinum hætti fjallað um þetta atriði, um hverjir eru líklegir fjárfestar í ljósvakamiðlum og hvaða áhrif lög muni hafa á eftirspurn eftir hlutabréfum í þessum félögum. Hvaða áhrif hafa þessi lög á seljanleika bréfa í þessum fyrirtækjum? Ég tel það sumpart ábyrgðarlaust að leggja til, eins og gert er í þessari tillögu, þennan möguleika, þ.e. að takmarka fjárfestingar eða möguleika sumra á að fjárfesta í þessari grein, án þess að ganga úr skugga um eða a.m.k. sýna viðleitni til að kanna hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér.

Ég hef tekið eftir því, eftir ræðu mína frá því fyrir um tveimur sólarhringum, að eftir að hin einfalda athugun mín leiddi þetta í ljós, að trúlega 60 fyrirtæki af 90 stærstu, mættu ekki fjárfesta í þessari grein, þá komu aðstandendur þessa frv. af fjöllum og sögðu: Nú! Ha, getur það verið? Þetta segir mér meira en margt um vinnuna sem lá til grundvallar þessu frv.

Þótt formaður þeirrar nefndar sem vann títtrædda skýrslu hafi komist svo að orði í sjónvarpsviðtali að frv. rúmaðist innan ramma þess sem skýrslan leggur til þá fer ekki á milli mála að þetta frv. felur í sér ýtrustu aðgerðir sem skýrslan tínir til. Menn beita sterkustu meðulum strax í byrjun. Menn skera af áður en þeir beita meðulum. Það er athyglisvert hvernig að þessu hefur verið staðið af hendi hæstv. forsrh. Hann beitir þekktri aðferð í samningatækni sem stundum er kölluð akkerisaðferðin. Þegar gera á eitthvað yfirgengilegt þá sigla menn eitthvert lengst út á ballarhaf og henda þar akkeri og festa þar bátinn. Síðan er öll umræðan í tjóðurbandi þess akkeris.

Ég nefndi það fyrr í umræðunni að í mínum huga liti þetta þannig út að í frv. hæstv. forsrh. hafi verið farið fram á aftöku. Nú eru menn búnir að ræða sig niður á ævilangt fangelsi með pyndingum en hafa gleymt því að meintur sakborningur er saklaus. En hann er líklegur til að brjóta af sér. Þannig er í raun komið með mál þetta. Það er engin sekt sýnileg nema, eins og bent hefur verið á, að það teljist sekt að nýta frelsi sitt til tjáningar. En það er líka alveg nýtt í sögu okkar ef svo er.

[23:15]

Grundvallaratriðið er að stjórnvöld ráðast gegn viðkvæmri atvinnugrein. Hvað sem fyrir ríkisstjórninni vakir þá ræðst hún gegn viðkvæmri atvinnugrein og veður yfir hana. Það er ljóst að það er erfiður vetur fram undan í þessari grein og tengdum greinum. Rétt er að hafa í huga að á þeim bænum hefur ekki verið blómlegt um að litast að undanförnu.

Þá er ég kominn að því sem við í Samf. teljum lykilatriði í málinu sem hér um ræðir, að auka fjölbreytni í fjölmiðlun, þ.e. að styrkja og efla RÚV. Eins og kunnugt er af fréttum hefur staða innlendrar dagskrárgerðar hjá RÚV aldrei verið veikari en nú um stundir. Sjálfstfl. hefur haft forustu í málefnum Ríkisútvarpsins í á annan áratug. Allt frá byrjun 10. áratugarins hefur Sjálfstfl. ráðið því hver fer þar fyrir. Útvarpsstjóri hefur verið úr þeirra röðum, raunar var hann stjórnmálamaður á vettvangi borgarstjórnar. Ábyrgðin á því hvernig fyrir er komið í málefnum RÚV er því tvímælalaust Sjálfstfl. Eitt árið enn stöndum við frammi fyrir slæmum rekstri, erfiðri afkomu og niðurskurði sem bitnar helst á innlendri dagskrárgerð. Þrátt fyrir að tilgangur RÚV hafi frá upphafi, frá fjórða áratug síðustu aldar, verið að mennta, skemmta og fræða íslenskan almenning, þrátt fyrir að út frá því hafi verið gengið þá tel ég að sjaldan hafi RÚV verið eins fjarri þessu marki sínu og einmitt í dag.

Það er athyglisvert að stefnuskrá RÚV er bresk að ætt. Hún er í raun þýðing á stefnuskrá breska útvarpsins BBC, frá upphafsárum þess. Þar hefur alltaf verið lögð mjög rík áhersla á breskan menningararf og að mennta, skemmta og fræða. Ég held að menn hafi ekki hugsað það sem svo, þegar þeir voru að þýða þessa klásúlu, að það hefði það í för með sér að 70--80 árum síðar yrðum við að mestu frædd um málefni bresks samfélags eða okkur skemmt með sögum úr bresku samfélagi. Eins og allir vita þá sjáum við mun meira af leiknu efni frá Bretlandi í íslensku sjónvarpi en íslensku efni. Það er það fyrsta sem þarf að gera, þ.e. að endurskoða stöðu RÚV, stórefla innlenda dagskrárgerð og endurskoða rekstur þeirrar stofnunar frá grunni.

Það er athyglisvert, fyrst talað er um RÚV, að velta því fyrir sér að grundvöllur frv. sem hér liggur fyrir er sá að eignarvald tryggi yfirráð yfir ritstjórnarvaldi. Hugmyndafræðin er sú að með því að veikja eignarvald skapist með einhverjum undarlegum hætti fjölbreytni í fjölmiðlun. Þetta er rökfærsla sem ég hef aldrei almennilega náð en ég vildi vekja athygli á þeim hugsunarhætti að eignarvald fari fyrir ritstjórnarvaldi. Maður spyr sig, fyrst þessi hugsunarháttur liggur að baki frv., hvort það hafi eitthvað með það að gera hvernig menntamálaráðherrar Sjálfstfl. hafa í hartnær 15 ár farið með eignarvaldið gagnvart ritstjórnum sem þar starfa.

Það var broslegt að sjá hæstv. menntmrh. í sjónvarpsþætti, tala um það sem sjálfgefinn hlut að allir þeir sem færu með eignarvald í fjölmiðlum misbeittu því gagnvart ritstjórnum. Það virtist ekki hvarfla að henni að hæstv. ráðherra var þá fyrst og síðast að gagnrýna sjálfa sig.

Samf. vill ekki bara efla stöðu RÚV. Við höfum lagt til gagnsæi í eignarhaldi og sjálfstæði ritstjórna. Hvað er gagnsæi og til hvers er gagnsæi? Ég hef orðað það þannig að gagnsæið þjóni markaðnum. Gagnsæið upplýsir þá sem eru virkir á markaði, lesendur, áhorfendur, auglýsendur og birgja, upplýsir þá um hverjir eigi viðkomandi fyrirtæki. Það auðveldar viðkomandi aðilum að gera upp hug sinn hvað varðar viðskipti við viðkomandi aðila. Með kröfunni um gagnsæi viljum við koma í veg fyrir það ástand sem skapaðist þegar eigendur Fréttablaðsins fóru huldu höfði. Ég held að það viðurkenni allir í dag, jafnvel þeir sjálfir, að var rangt. Það er ekki eðlilegt að eigendur fjölmiðla geti farið huldu höfði. Gagnsæið eflir vitund markaðarins og gerir það að verkum að við getum betur nýtt en ella þá krafta sem þar liggja.

Okkur í Samf. hefur líka verið tíðrætt um sjálfstæði ritstjórna. Meginmarkmiðið með því er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og treysta á sjálfstæði og stöðu blaða- og fréttamanna. Gera má kröfur um ákveðið skipulag þar sem dregnar eru línur um hvernig samskiptum mismunandi deilda er háttað. Ég hef nefnt það áður að Alþingi Íslendinga hefur þegar samið reglugerðarbálk af þessu tagi. Ég vísa þar til reglna um starfsemi banka þar sem skilgreint er með hvaða hætti þarf að skipuleggja starfsemina til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Þar er líka hægt að setja ákvæði um innri reglur sem eru að mínum dómi ákaflega mikilvægar. Þær eru mikilvægar fyrir stjórnendur sem og starfsmenn.

Ég tel t.d. að það væri afar heppilegt og raunar nauðsynlegt fyrir Ríkisútvarpið í dag, að þar væru skýrar reglur um ráðningar starfsmanna. Eitthvað virðist fara tvennum sögum af því hvernig þær reglur eru. Stundum er útilokað að ákveðnir einstaklingar fái vinnu vegna tengsla þeirra við einhverja einstaklinga sem hafa komið nálægt stjórnmálum. Allt virðist þetta vera mjög á huldu. Ég held að það sé eðlilegt að gerð sé krafa um skýrari innri reglur þar sem viðkomandi starfsmenn viti til hvers er ætlast, stjórnendur viti á hvaða forsendum þeir geti starfað. Það þarf m.a. að vera ljóst þegar upp koma mál eins og t.d. hjá Norðurljósum, þegar eigandi hringdi í fréttstjóra og fréttastjóri reyndi að hafa áhrif á fréttatímann þá um kvöldið. Í framhaldinu urðu mótmæli fréttamanna og þá skapaðist gífurleg óvissa. Í því ástandi hefði verið mjög heppilegt fyrir alla aðila að hafa skýrar reglur að styðjast við, bæði fréttastjóra og aðra starfsmenn. Menn vissu þá hvar þeir standa.

Að sjálfsögðu er líka rétt að nefna atriði eins og meðferð gagna og upplýsinga sem blaða- og fréttamenn afla. Hver á þau gögn? Samkvæmt niðurstöðum einhverra dómstóla í útlöndum eiga fyrirtækin tölvupóst starfsmanna, svo framarlega sem þeir senda hann út á lénum fyrirtækisins. Ég benti á það á miðvikudaginn að það væri í alla staði mjög óeðlilegt að fyrirtækin ættu tölvupóst blaðamanna, upplýsingar um heimildarmenn og samskipti við heimildarmenn. Það liggur fyrir að við í Samf. höfum sett fram skýrar hugmyndir sem benda með skýrari hætti á leiðir til að efla fjölbreytni og auka sjálfstæði fjölmiðla.

Ég hef sagt það áður að fjölmiðlun er atvinnugrein sköpunar, hugvits og tækni og ætti að vera atvinnugrein framtíðar. Ég held að með þessu frv. geti komið örlítið hik að með þessum lögum sé þessi atvinnugrein orðinn annars flokks fjárfestingarkostur. Ég verð að segja að í ljósi þess velvilja sem nýsköpun og hugvitsgreinar hafa haft, a.m.k. í orði, á Íslandi á síðustu árum þá átti ég á flestu von á en ekki þessu. Það má líkja þessari grein við ungviði sem þarf á næringu að halda, jafnvel næringu í æð. Þetta frv. setur klemmu á næringarslönguna og dregur úr þeirri næringu sem þessi atvinnugrein þarf á að halda.

Ég sagði í fyrri ræðu minni, eftir að hafa metið hvert væri tilefni þessara laga að ekkert í starfsumhverfi fjölmiðlafyrirtækja kallaði á lagasetningu, það væri ekki samþjöppunin. Þótt hún væri til staðar væri hún ekki háskaleg því að samkeppnin væri virk. Þetta er svipað og með hugtakið um markaðsráðandi stöðu og er ekkert saknæmt. Það er ekkert óeðlilegt við markaðsráðandi stöðu. Hins vegar er óeðlilegt ef henni er misbeitt. Hið sama gildir hér. Það eru engin merki um að sú staða sem uppi er sé að skaða samtökin. Vissulega er fákeppni en það eru engin merki þess að það sé að draga úr samkeppni fjölmiðla og ég benti á að aldrei hefur samkeppni blaða verið eins harðvítug og akkúrat nú. Það er búið að brjóta upp áratuga gamalt samráð um að skipta smáauglýsingamarkaðnum á milli DV og Morgunblaðsins. Morgunblaðið hafði fasteignaauglýsingar en DV allt hitt. Svona var þetta í 20 ár og um það þegjandi samkomulag. Nú er búið að brjóta þetta upp. Þetta er merki virkrar samkeppni. Ekkert í umhverfinu eða starfsskilyrðum fjölmiðla, lítilla eða stórra, kallar á lög sem þessi. Þess vegna varð niðurstaða mín sú að það sem kallar á þessi lög er einfaldlega að fjölmiðlar hafa ekki skapað stjórnarherrum viðunandi starfsskilyrði. Þar liggur hundurinn grafinn.

Virðulegi forseti. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þetta frv. sé til marks um litla fyrirhyggju stjórnarherranna í baráttunni við ritstjórnir þessara fjölmiðla. Þeir gleyma því að þetta er viðkvæm atvinnugrein sem þarf á stuðningi að halda, þarf á fjárfestingum að halda og því að allir þeir sem hafa áhuga á að fjárfesta í þessari atvinnugrein geti það, þeir sjást ekki fyrir. Í ákafa sínum til að stýra þessum fyrirtækjum grípa þeir um næringaræðina sem rennur til starfsgreinarinnar.

Ég byggi andstöðu mína við þetta frv. fyrst og fremst á því að með frv. er verið að stórskaða atvinnugrein nýsköpunar og hugvits sem vonandi verður einn daginn atvinnugrein framtíðar.