Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:42:54 (8793)

2004-05-21 23:42:54# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:42]

Einar Karl Haraldsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við höfum verið að störfum langan dag. Það líður að miðnætti. Það er löng reynsla komin á að vinnulag af þessu tagi er ekki mjög áhrifaríkt. Það er ekki mikil framleiðni hjá fólki sem unnið hefur daglangt og bætt við mörgum yfirvinnutímum. Það hefur löngum verið sagt að við Íslendingar séum lotufólk sem drífum hlutina af. En það hefur líka komið í ljós að aðrar þjóðir hafa náð langt með því að skipuleggja tíma sinn betur, undirbúa hluti vel og klára síðan málin með skipulegum hætti þegar undirbúningi er lokið.

Hér erum við að ræða mál sem er illa undirbúið. Síðan virðast þeir hv. þingmenn stjórnarliða sem hér ættu að vera í fyrirsvari ekki hafa úthald í þessa umræðu. Þá spyr maður: Til hvers er haldið áfram þegar t.d. þingmaður á besta aldri, ungur maður sem stýrir allshn., virðist ekki hafa úthald í þessa umræðu? Honum eldri menn virðast þola umræðuna betur. Mér finnst það í raun vanvirða við þingið að við lokaumræðu um málið skuli formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, ekki sitja og hlýða á þessar umræður. Það er í raun ekki hægt að líða það að þinginu sé sýnd slík vanvirðing.

Ég hef ekki séð hv. formann allshn. í allan dag. Hið sama má segja um aðra nefndarmenn Sjálfstfl. í allshn. Við svo búið tel ég að hæstv. forseti geti í raun ekki haldið áfram þinghaldi í nótt og mælist til þess að hæstv. forseti gæti að virðingu þingsins.