Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:59:41 (8798)

2004-05-21 23:59:41# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:59]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Til hæstv. forseta hefur verið beint fjölmörgum spurningum. Mér er spurn hvort hæstv. forseti ætli sér í engu að svara fyrirspurnum þingmanna.

(Forseti (BÁ): Forseti vill að þessu gefna tilefni taka fram að ekki stendur til að fresta fundi um sinn. Þingmönnum er að sjálfsögðu heimilt að tjá sig eins og þeir óska eftir um fundarstjórn forseta en það stendur ekki til að fresta þessum fundi um sinn. Vegna annarra spurninga sem fram hafa komið þá telur forseti rétt að geta þess að formanni allshn., hv. þm. Bjarna Benediktssyni, hefur verið gerð grein fyrir þeim óskum sem fram hafa komið um að hann komi til þessa fundar.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir svörin en átta mig samt ekki á því hvað hæstv. forseti á við þegar hann segir að ekki eigi að fresta fundi um sinn. Þýðir það 15 mínútur, þýðir það klukkutími eða hvað þýðir það? Það er mikilvægt að það liggi fyrir.

Hins vegar, virðulegi forseti, er ástæðan fyrir því að ég bað um orðið í annað sinn undir þessum lið að fyrr í kvöld kom fram í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar, sem er þungavigtarmaður í Sjálfstfl., að tilefni þessara lagabreytinga væri fyrst og fremst skrif dagblaða og Sjálfstfl. hafi ekki líkað umfjöllunin um leiðtoga sinn. Þess vegna er, virðulegi forseti, mikilvægt fyrir þessu umræðu að hún geti haldið áfram að viðstöddum hæstv. forsrh. Hann gæti þá hafnað því eða tekið undir það að tilefni þessa frv. sem við ræðum og höfum verið að ræða sé í reynd að tiltekin dagblöð hafi ekki skrifað um hæstv. forsrh. svo honum líkaði.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað ræða við hæstv. forsrh. um þetta og óska eftir því að hæstv. forsrh. verði kallaður í hús með öllum þeim ráðherrum sem beðið hefur verið um. Það þýðir ekki að ræða svo alvarleg mál nema þeir sem helst geta svarað séu á vettvangi. Ég ítreka það enn og aftur að við höfum alltaf fjóra mánuði upp á að hlaupa ef umræðan dregst. Það er ekki gert ráð fyrir því þegar þingi lýkur í vor að það komi saman fyrr en í október. Það er ekki eins og tíminn sé að gera okkur erfitt um vik í störfum á hinu háa Alþingi.

Þessum óskum er hér með komið á framfæri. Ég óska eftir því að þeim verði komið á framfæri við viðkomandi ráðherra.