Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 11:59:00 (8832)

2004-05-22 11:59:00# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[11:59]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði þingmaður sem talaði mikið um vægustu leiðirnar, þær væru það sem skipti máli, að menn ættu að beita vægustu leiðunum.

Fyrir 27 mánuðum, virðulegi forseti, stóð þessi þingmaður hér upp í pontu og sagði að það þyrfti hvorki meira né minna en að skaffa Samkeppnisstofnun tækin til að skipta upp fyrirtækinu (Gripið fram í.) Baugi, virðulegi forseti, að Samkeppnisstofnun þyrfti bara að fá tækin til að skipta upp Baugi, hvorki meira né minna. En nú eftir að Baugur er búinn að taka yfir stærstan hlutann af fjölmiðlunum eins og menn þekkja þá hefur hljóðið aldeilis breyst. Þá hefur takturinn í orðum hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar aldeilis breyst. Mikið hefur verið spurt um hvers vegna þessi sinnaskipti hafi átt sér stað.

Hér er ég með líka fullt af ummælum margra þeirra sem hér eru í salnum --- það er að segja þingmanna Samfylkingarinnar --- um hættuna á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. En það er allt saman horfið og enginn veit af hverju. Látum það liggja á milli hluta.

Hins vegar lít ég svo á og vona að langur hluti þessarar ræðu, virðulegi forseti, hafi verið einhvers konar skemmtiatriði, kaflinn sem gengur út á samsæriskenninguna um að hér eigi að ritskoða með þessum lögum og að menn ætli nú að snúa menn niður og láta þá breyta sínum skoðunum og ritstjórnarstefnu sinni. Hverjum dettur það í hug, virðulegur forseti, að þetta geti staðist? Hvernig á það að vera? Gefum okkur að á morgun eða á mánudag verði frumvarpið samþykkt sem lög. Hvernig í ósköpunum, virðulegi forseti, breytir það ritstjórnarstefnu viðkomandi fjölmiðla? Kannski að hv. þm. svari því. Það segir sig alveg sjálft að það breytir engu eðli málsins samkvæmt og það skiptir engu máli hvaða fjölmiðill það er. Menn hafa val til að hafa þá ritstjórnarstefnu sem þeir vilja. (Forseti hringir.) Hv. þm. verður að svara því hvort þetta frumvarp breytir því.