Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:03:26 (8834)

2004-05-22 12:03:26# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til þess að lesa þá ræðu sem hv. þm Össur Skarphéðinsson hélt hérna um Baug á sínum tíma. Hún var ekki í neinum takti við það sem hér kom fram.

Ég get ekki farið vel yfir það í þessu stutta andsvari, en aðeins út af þessu. Hér kom fram stóra samsæriskenningin, að verið sé að koma með frumvarp til að knésetja Norðurljós. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Þetta er algjörlega fráleitt, algjörlega fráleitt og er ekki stutt neinum rökum. Og ég held bara að hver einasti hv. þingmaður Samfylkingarinnar hafi lýst því yfir að sjálfstæðisflokkurinn stjórni umfjöllun á RÚV. Með fullri virðingu, virðulegi forseti. Hvers konar þvættingur er þetta? Hvers konar þvættingur er þetta? Er hv. þm. Össur Skarphéðinsson að segja að fréttamenn á RÚV, útvarpi og sjónvarpi, þáttagerðarmenn og aðrir slíkir séu undir handleiðslu Sjálfstæðisflokksins, að þeir fari eftir Sjálfstæðisflokknum? (JÁ: Er þá engin hætta af eigendavaldinu?) Virðulegi forseti. Þetta stenst enga skoðun. Þetta stenst enga skoðun. Hv. þm. Jóhann Árælsson segir: Er ekki hætta af eigendavaldinu? Á Sjálfstæðisflokkurinn Ríkisútvarpið? Virðulegi forseti. Á Sjálfstæðisflokkurinn Ríkisútvarpið? Ég vissi það ekki. Það er þá sérkennilegt því hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja styrkja Ríkisútvarpið. Það er þá væntanlega eitthvað sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig fer heim og saman. En það er annað mál.

Aðalatriðið er að þetta stenst enga skoðun. Þessi ritskoðunarmálflutningur Samfylkingarinnar er auðvitað mjög alvarlegur. Það að vera með þessar ásakanir er mjög alvarlegt. En það er kannski þeim stjórnmálaflokki samboðið. Ég átta mig ekki á því. Það má vera.