Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:10:28 (8837)

2004-05-22 12:10:28# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru þrjár spurningar og ég svara þeirri síðustu fyrst.

Hv. þm. spyr: ,,Hafa þingmenn Samfylkingarinnar áhyggjur af stöðunni eins og hún er í dag?`` Nei. Við höfum ekki áhyggjur af henni vegna þess að greining fjölmiðlanefndarinnar sýnir að fjölbreytni ríkir á markaðnum og formaður fjölmiðlanefndarinnar hefur sagt berum orðum að þá fjölbreytni megi rekja til fjölmiðla Norðurljósa.

Til framtíðar er hins vegar alveg ljóst, eins og við höfum reynt að skilgreina en ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að það eru ákveðnar hættur. Það eru þessar hættur sem ég rakti hérna áðan. Ófyrirleitinn eigandi getur reynt að nýta samræmda ritstjórnarstefnu gegn einhverjum mönnum, keppinautum, hugsanlega flokkum. Við gerum okkur grein fyrir þessari hættu og við teljum að það sé af og frá að reyna að bægja henni frá með því að takmarka samþjöppun í eignarhaldi þó það kunni að vera æskilegt líka þegar fram í sækir. Við gerum það með því að benda á þær aðferðir sem fjölmiðlaskýrslan bendir á að tilmæli Evrópuráðsins fela í sér, það er að setja lög sem skylda ritstjórnir til þess að setja sér innri reglur þannig að sjálfstæði og faglegt verklag fréttamannanna verði varið. Við höfum dæmi um þetta, vont dæmi, sem ég gæti rakið fyrir hv. þingmanni. Þetta liggur fyrir.

Það sem hæstv. menntamálaráðherra sagði var akkúrat þetta. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viðurkennt þetta. Hann hefur aldrei viðurkennt að tilgangur frumvarpsins sé einmitt að reyna að koma í veg fyrir að eigendavaldið smitist í gegnum ritstjórnirnar. Hann hefur aldrei sagt það.

Að því er varðar Samkeppnisstofnun í örstuttu máli þá er það einfaldlega þannig að það gæti verið hægt að beita samkeppnishamlandi aðgerðum á markaði sem bryti lög. Samkeppnisstofnun þarf úrræði, og hefur þau reyndar, til þess að bregðast gegn því. En hún þarf fjármagn. Það er það sem hún þarf og hv. þm. hefur tekið þátt í því að fella tillögur Samfylkingarinnar um aukið fjármagn til hennar.