Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 12:12:47 (8838)

2004-05-22 12:12:47# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti mjög athyglisvert að hv. þm. lýsti því hér yfir að hann hefði engar áhyggjur af stöðunni á þessum markaði í dag. Það var mjög athyglisvert innlegg í þessa umræðu, sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem áður hafa fallið frá samflokksmönnum hv. þingmanns, meðal annars frá Jóhönnu Sigurðardóttur í apríl árið 2000 þegar hún sagði, með leyfi forseta:

,,Fákeppni og samþjöppun valds er líka að verða meira áberandi í fjölmiðlastarfsemi sem er vissulega mjög varhugavert fyrir lýðræðið og eðlilega skoðanamyndun í landinu.``

(Gripið fram í: Árið 2000.) Árið 2000, löngu áður en þessi samþjöppun sem mest er fjallað um í fjölmiðlaskýrslunni varð að veruleika. (Gripið fram í.) Maður getur ekki tekið þessa umræðu um Samkeppnisstofnun alvarlega þegar það kemur fram í .... (Gripið fram í: Ásta Ragnheiður.) Ef ég mætti halda orðinu hér, virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Maður getur ekki tekið þessa umræðu um Samkeppnisstofnun alvarlega þegar hv. þm. kemur hingað upp og segir að engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af þeirri samþjöppun sem hefur átt sér stað. Hvað þarf mikið til að koma? Við erum hér með markað fyrir einkarekna fjölmiðla. Einn aðili er með yfir 60% af markaðnum. Fjölmiðlanefndin komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri mjög óæskileg samþjöppun í eignarhaldi til lengri tíma litið, mjög óæskileg. Hvað þarf til að koma? Hvenær á Samkeppnisstofnun að grípa til þeirra úrræða sem hv. þm. er að gefa í skyn? Er það 90% viðmiðið?

Þeir sem standa að þessu frumvarpi eru nefnilega ekki að tala á þessum nótum. Þeir eru ekki að segja að það þurfi að brjóta niður fyrirtæki sem ná ákveðinni stöðu. Þeir eru að segja: Við ætlum að skoða eignarhaldið.

Á mörgum sviðum viðskiptanna á Íslandi ríkir sú staða að við þurfum að una fyrirtækjum því að ná ákveðinni lágmarksstærð. Þetta frumvarp gengur út frá þeirri sömu forsendu. Það horfir á eignarhaldið. Samþjöppun eignarhalds er óæskileg þróun. Ég hafna öllum fullyrðingum héðan úr ræðustól um að markmið þessara laga sé að reyna að knésetja ákveðið fyrirtæki. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvar var þingmaðurinn í gær?)